Uppgjör Dagur B. Eggertsson kynnti ársreikning Reykjavíkurborgar.
Uppgjör Dagur B. Eggertsson kynnti ársreikning Reykjavíkurborgar. — Morgunblaðið Kristinn Magnússon
Starfsmönnum Reykjavíkurborgar hefur fjölgað mun hraðar en íbúum á undanförnum árum. Á árunum 2014-2022 fjölgaði stöðugildum Reykjavíkurborgar úr rúmlega 6.800 í ríflega 8.500, eða um 25%, á sama tíma og íbúum fjölgaði um 15%

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Starfsmönnum Reykjavíkurborgar hefur fjölgað mun hraðar en íbúum á undanförnum árum. Á árunum 2014-2022 fjölgaði stöðugildum Reykjavíkurborgar úr rúmlega 6.800 í ríflega 8.500, eða um 25%, á sama tíma og íbúum fjölgaði um 15%. Á sama tímabili fjölgaði stöðugildum í Kópavogi um 5% en íbúum þar fjölgaði um 21%.

Laun og launatengd gjöld námu í fyrra um 93,5 milljörðum og hækkuðu um átta milljarða króna á milli ára. Launakostnaður í Reykjavík hefur nær tvöfaldast frá árinu 2014.

Í Reykjavík óx hlutfall launa af rekstrartekjum um 13% en það nam um 59% á liðnu ári, samanborið við 2% vöxt hlutfallsins í Kópavogi sem á sama tíma nam um 54%.

Mæti vaxandi samfélagi

Í Dagmálum Morgunblaðsins sem birt voru á mbl.is í morgun ræddu þeir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson við Dag B. Eggertsson borgarstjóra og Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, í borginni. Dagur sagði fjölgunina helst eiga sér stað í málaflokkum fatlaðra og annarra velferðarmála.

„Hvar er fjölgunin – hún er í málaflokki fatlaðs fólks, hún er í velferðinni, hún er í leikskólum og hún er í þessum málaflokkum sem hafa verið mest í umræðunni undanfarið,“ sagði hann og bætti við að verið væri að mætta vaxandi samfélagi, borgin væri að stækka.

„Minnst er fjölgunin í því sem er miðlægt, að frátalinni stafrænu umbreytingunni, þar er hún nokkur. Það breytir því ekki að ein af aðgerðunum sem við gripum til í haust er að við vildum hægja á fjölguninni og hagræða þar sem er skynsamlegt að hagræða, þannig að við settum inn ráðningarreglur til þess að stemma stigu við því og hægja þarna á,“ sagði hann enn fremur.

Þetta sagði Hildur að væri ótrúlegt að hlusta á. Hún benti á að fjölgun starfsmanna væri langt umfram lýðfræðilega þróun undanfarin fimm ár.

„Þar sjáum við að starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað um 25%, af því að borgarstjóri talar alltaf um að borgin sé í svo gríðarlegum vexti og þess vegna sé starfsmönnum að fjölga, á sama tíma fjölgar íbúum um 10%.“

Hún benti á að borgarstjóri gæti ekki tekið undir þessar áhyggjur jafnvel þó að fjármála- og áhættustýringarsvið hafi bent sérstaklega á þessa þróun.

„Starfsmönnum er að fjölga umfram lýðfræðilega þróun eins og fjármála- og áhættustýringasvið orðar þetta sérstaklega. Þau flagga á þetta, þau flagga líka á það að laun séu farin að vera allt of hátt hlutfall af tekjum borgarinnar. Það er annars vegar hægt að nota mælikvarðann hversu hátt hlutfall af útsvars- og jöfnunarsjóðstekjum laun eru. Þau eru 89%, borgin setur sér markmið um að þau fari ekki umfram 80%. Ef við tökum allar tekjur sveitarfélagsins, þá nemur þetta hlutfall 60%. Til samanburðar er þetta hlutfall í Árborg rúm 58%,“ sagði Hildur.

Hún sagði jafnframt að þrátt fyrir mikla fjölgun starfsmanna í uppbyggingu stafrænnar þjónustu sé lítinn árangur að sjá enn sem komið er.

600 manns á stjórnendadegi

Hildur gerði aukinheldur athugasemd við fjölda stjórnenda á stjórnendadegi hjá Reykjavíkurborg í síðustu viku, sem voru rétt tæplega 600.

„Mér er minnisstætt þegar þessi dagur var haldinn, því hann er árlega haldinn í Hörpu, fyrir nokkrum árum. Þá birtust fréttir af því að það var tekin hópmynd af yfirbyggingunni í stiganum í Hörpu og stiginn hreinlega svignaði undan bákninu, sem var svolítið kómískt,“ sagði Hildur.

Dagur gerði á móti athugasemd við að Hildur hefði víða tortryggt stjórnendadaginn.

„Hún gerir það tortryggilegt að við köllum til 600 lykilstjórnendur hjá borginni í stjórnendafræðslu og stjórnendadag,“ sagði Dagur.

„Ég geri tortryggilegt hvað þeir eru margir,“ svaraði Hildur um hæl.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir