ASÍ Nýkjörin stjórn. Ragnar Þór Ingólfsson, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Finnbjörn A. Hermannsson.
ASÍ Nýkjörin stjórn. Ragnar Þór Ingólfsson, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Finnbjörn A. Hermannsson. — Morgunblaðið/Eggert
Samstaða náðist um kjör forystu Alþýðusambands Íslands á síðari degi þings sambandsins í gær og voru nýr forseti ASÍ og þrír varaforsetar sjálfkjörnir í embættin þar sem engin mótframboð bárust. Finnbjörn A

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Samstaða náðist um kjör forystu Alþýðusambands Íslands á síðari degi þings sambandsins í gær og voru nýr forseti ASÍ og þrír varaforsetar sjálfkjörnir í embættin þar sem engin mótframboð bárust. Finnbjörn A. Hermannsson, fyrrverandi formaður Byggðiðnar og Samiðnar, var kjörinn forseti ASÍ. Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem bauð sig fram til forseta á þinginu í haust, dró framboð sitt til baka.

Í embætti fyrsta varaforseta var kjörinn Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLS starfsgreinafélags á Austurlandi, var kjörin annar varaforseti og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, sem gegnt hefur embætti forseta ASÍ að undanförnu, var kjörinn þriðji varaforseti. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sem hafði gefið kost á sér sem varaforseti fyrir þingið, lýsti því yfir á Facebook í fyrradag, að til að svara ákalli um að auka þyrfti hlut kvenna í forsetateymi ASÍ, hefði hann ákveðið í samráði við flesta formenn innan SGS að bjóða sig ekki fram sem hluta af forsetateyminu.

„Málefnalega komum við mjög sterk út úr þessu þingi. Það voru samþykktar ályktanir um næstu verkefni okkar sem snúa að margvíslegum málum sem við ætlum að taka upp og berjast fyrir. Hvað samstöðuna varðar, þá eru allir sammála um að slíðra sverðin og reyna að vinna saman. Ég tel að hreyfingin komi mjög sterk út úr þessu þingi,“ sagði Finnbjörn í samtali við Morgunblaðið eftir að þinginu var slitið síðdegis í gær.

Þrjár stærstu fylkingarnar innan ASÍ eiga fullltrúa í forystu sambandsins. Ragnar Þór kemur úr röðum verslunarmanna, Hjördís Þóra úr röðum SGS og Finnbjörn og Kristján úr röðum iðnaðarmanna. Þrír í forystunni koma af höfuðborgarsvæðinu og einn af landsbyggðinni.

Enginn fulltrúi Eflingar í forystusveitinni

Í öllum kosningum voru þeir sem uppstillinganefnd gerði tillögur um kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir ASÍ. Kjörnir voru ellefu fulltrúar í miðstjórn auk varafulltrúa. Efling bauð ekki fram fulltrúa við kosningarnar og á þetta næststærsta stéttarfélags landsins ekki fulltrúa í forystu ASÍ eftir þingið. Spurður um þetta segir Finnbjörn að þetta hafi verið þeirra val „en það er ekki þar með sagt að þau ætli ekki að vinna með okkur,“ segir hann. Agnieszka Ewa Ziółkowska var eini fulltrúi Eflingar á þinginu í framboði en hún náði ekki kjöri sem aðalmaður í miðstjórn. Rætt hefur verið um að endurvekja samninganefnd ASÍ sem fer með sameiginleg mál og er skipuð formönnum landssambanda og stærstu félaganna. „Það á eftir að koma í ljós,“ segir Finnbjörn spurður um þetta. „Með einhverjum hætti verðum við með samninganefnd en við eigum eftir að ræða okkur niður á hvort það verður miðstjórnin sem slík sem verður samninganefnd eða hvernig við förum að því.“

Mikil vinna fór fram í málefnahópum og í sérstakri ályktun sem 15 fulltrúar báru fram er forysta ASÍ, miðstjórn og aðildarfélög hvött til að byggja upp kröftuga samstöðu meðal launafólks í aðdraganda kjarasamninga. Í áherslum ASÍ um kjaramál og vinnumarkað sem samþykktar voru segir m.a. að efla þurfi enn frekar vinnustaðaeftirlit verkalýðshreyfingarinnar og útvíkka það. Einnig var samþykkt að unnið verði að því að liðka fyrir samningsgerð „þannig að kjarasamningur taki við af kjarasamningi að viðlögðum dagsektum“.