Guðný Birna Guðmundsdóttir
Guðný Birna Guðmundsdóttir
Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er heilbrigð en í drögum að ársreikningi fyrir árið 2022 er rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs jákvæð um 476 milljónir fyrir árið 2022 eftir afskriftir og fjármagnsliði. Á sama tíma hefur rúmlega helmingur sveitarfélaga…

Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er heilbrigð en í drögum að ársreikningi fyrir árið 2022 er rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs jákvæð um 476 milljónir fyrir árið 2022 eftir afskriftir og fjármagnsliði. Á sama tíma hefur rúmlega helmingur sveitarfélaga fengið aðvörun frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna reksturs þeirra. Það vakti upp gamlar áhyggjur þar sem Reykjanesbær stóð frammi fyrir þessum aðstæðum 2014 þegar við vorum eitt skuldsettasta sveitarfélag Íslands. Það að hafa náð þessu fjórða stærsta sveitarfélagi til betri vegar og rekstrar jaðrar við kraftaverk.

Að vera sveitarfélag að ná sér upp úr rekstrarvanda og vera í þenslu á sama tíma er mjög erfitt. Þær aðstæður höfum við búið við ár eftir ár þar sem við sjáum 6-8% fjölgun á ári en nú undanfarna 12 mánuði er stökkið á fjölgun íbúa 9,61%. Frá janúar til apríl á þessu ári hefur fjölgunin verið 524 einstaklingar.

Fjölgun íbúa er góð að vissu marki en að sama skapi umfangsmikil og flókin. Reykjanesbær stefnir í að vera með, samkvæmt tölum frá vinnu- og félagsmálaráðherra, yfir 1.000 einstaklinga á flótta í sveitarfélaginu í sumar. Að taka á móti fólki á flótta er verðugt verkefni og ætti að vera sjálfsagt verkefni allra sveitarfélaga á Íslandi. Reykjanesbær hefur í næstum 20 ár tekið þátt í verkefninu en grunnstefna Reykjanesbæjar er einmitt „Í krafti fjölbreytileikans“. Tilgangurinn með því er að vísa til þess fjölbreytta mannauðs sem skapar samfélagið okkar.

Þó er ekki þar með sagt að við getum tekið endalaust við því við viljum geta sinnt þeim vel sem til okkar koma. Við þurfum að vera fær um að ná utan um verkefnið með starfsfólkinu okkar, við þurfum að fjölga leik- og grunnskólum og alls konar önnur verkefni fylgja slíkum hröðum vexti. Vandamálið er að úrlausnirnar taka tíma. Það tekur 2-3 ár að byggja nýjan leikskóla, það tekur tíma að byggja upp húsnæði auk þess sem það vantar fjármagn í umfangsmeiri heilsugæslu, löggæslu, félagsráðgjöf, þjónustu og svo má lengi áfram telja.

Þegar Reykjanesbær hefur sagt: nú verður að leita til annarra sveitarfélaga er bent á neyð í málaflokknum og tregðu sumra sveitarfélaga að taka við verkefninu.

Það að setja slíka þenslu á sveitarfélag sem er í stökkbreytingarvexti fyrir er ósanngjarnt og óskynsamlegt. Ég gladdist yfir því að Garðabær skrifaði nýlega undir samning um samræmda móttöku flóttafólks og hvet önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama til þess að við getum öll sinnt þessu mikilvæga samfélagslega verkefni. Við getum ekki og eigum ekki að bera þungann af þessu verkefni ásamt nokkrum öðrum sveitarfélögum. Við þurfum að ráða fram úr þessu saman.

Höfundur er varaþingmaður og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.