Björgunarstörf Björgunarmenn leita hér að eftirlifendum í rústum blokkarinnar í Úman, þar sem 17 féllu eftir eldflaugaárás Rússa í gærmorgun.
Björgunarstörf Björgunarmenn leita hér að eftirlifendum í rústum blokkarinnar í Úman, þar sem 17 féllu eftir eldflaugaárás Rússa í gærmorgun. — AFP/Sergei Supinsky
Að minnsta kosti 19 manns féllu í gærmorgun í loftárásum Rússa á borgir vítt og breitt um Úkraínu. Rússar skutu meðal annars tveimur stýriflaugum á borgina Úman, um 215 kílómetrum sunnan Kænugarðs. Igor Tabúrets, héraðsstjóri í Tsjerkasí-héraði,…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Að minnsta kosti 19 manns féllu í gærmorgun í loftárásum Rússa á borgir vítt og breitt um Úkraínu. Rússar skutu meðal annars tveimur stýriflaugum á borgina Úman, um 215 kílómetrum sunnan Kænugarðs. Igor Tabúrets, héraðsstjóri í Tsjerkasí-héraði, sagði að 17 hefðu fallið í árásunum á Úman, þar af tvö tíu ára gömul börn.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, fordæmdi árásir Rússa og hét því að hryðjuverkum þeirra yrði svarað. Rússnesk stjórnvöld sögðust hins vegar einungis hafa skotið á varalið Úkraínuhers, og að þeir hefðu „hæft öll skotmörk.“

Rússar beindu spjótum sínum einnig að Dnípró, en þar féllu rúmlega 40 manns í janúar síðastliðnum þegar þeir skutu á íbúablokk þar. Boris Filatov, borgarstjóri Dnípró, sagði í gær að ung kona og þriggja ára gamalt barn hefðu fallið að þessu sinni.

Enginn féll í Kænugarði, þrátt fyrir að Rússar hefðu einnig skotið á borgina í gær, en þetta var í fyrsta sinn í rúmlega 50 daga sem Rússar skutu eldflaugum að borginni. Úkraínuher sagði í gær að hann hefði náð að skjóta niður 21 af flaugum Rússa og tvo árásardróna.

Undirbúningi að ljúka

Oleksí Resnikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, sagði í gær að Úkraínuher væri nú reiðubúinn til gagnsóknar, og að undirbúningi hennar væri að ljúka. Sagði hann að Úkraínumenn hefðu þurft að fá hergögn og læra á þau, en að þeirri vinnu væri að mestu lokið. „Um leið og Guðs vilji, veðrið og ákvörðun herforingjanna liggur fyrir munum við hefja hana.“ sagði Resnikov.

Vísaði Resnikov þar meðal annars til þess að mikil bleyta hefur verið í jarðveginum í Úkraínu, sem aftur hefur gert vélknúnum farartækjum mjög erfitt fyrir að athafna sig.

Jens Stoltenberg, framkvæmda-
stjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í fyrradag að vesturveldin hefðu nú sent 1.550 brynvarin farartæki og 230 skriðdreka til Úkraínuhers til að hjálpa honum að endurheimta land sitt úr greipum Rússa.