Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands
Framboð viðskiptabankanna á lánsfé til heimila hefur ekki breyst síðustu þrjá mánuði og gert er ráð fyrir óbreyttu framboði á næstu sex mánuðum. Hins vegar greina bankarnir minni eftirspurn eftir húsnæðislánum og lítils háttar samdrátt í eftirspurn eftir bílalánum á síðustu þremur mánuðum

Framboð viðskiptabankanna á lánsfé til heimila hefur ekki breyst síðustu þrjá mánuði og gert er ráð fyrir óbreyttu framboði á næstu sex mánuðum. Hins vegar greina bankarnir minni eftirspurn eftir húsnæðislánum og lítils háttar samdrátt í eftirspurn eftir bílalánum á síðustu þremur mánuðum. Þá gera þeir ráð fyrir að eftirspurn eftir húsnæðis- og bílalánum minnki á næstu sex mánuðum.

Þetta kemur fram í ársfjórðungslegri útlánakönnun Seðlabankans meðal viðskiptabankanna fjögurra.

Niðurstöðurnar gefa jafnframt til kynna að framboð útlána til fyrirtækja hafi minnkað lítillega á síðustu þremur mánuðum og að á næstu sex mánuðum dragi enn frekar úr framboðinu, einkum á lánum í erlendum gjaldmiðli. Eftirspurn eftir lánum hjá minni fyrirtækjum virðist hafa breyst lítið á síðustu þremur mánuðum en hún hefur dregist lítillega saman hjá stærri fyrirtækjum. Á næstu sex mánuðum gera bankarnir ráð fyrir að það taki að draga úr spurn fyrirtækja eftir lánsfé. Útlánareglur gagnvart fyrirtækjum hafa verið óbreyttar á síðustu þremur mánuðum og gera þeir ráð fyrir að svo verði einnig næstu sex mánuði.