Blönduós Gamli miðbærinn gengur núna í gegnum mikla endurnýjun og verður spennandi að sjá útkomuna.
Blönduós Gamli miðbærinn gengur núna í gegnum mikla endurnýjun og verður spennandi að sjá útkomuna. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er vandasamt að skrifa tíðindi og vangaveltur úr sínu samfélagi og ekki batnar það þegar tíðindamaður hefur lengi verið fjarri heimaslóðum og samfélagið auk þess fengið nýtt nafn, Húnabyggð. Eins og einhverjir vita þá hefur Blönduós sameinast…

Úr bæjarlífinu

Jón Sigurðsson

Blönduósi

Það er vandasamt að skrifa tíðindi og vangaveltur úr sínu samfélagi og ekki batnar það þegar tíðindamaður hefur lengi verið fjarri heimaslóðum og samfélagið auk þess fengið nýtt nafn, Húnabyggð. Eins og einhverjir vita þá hefur Blönduós sameinast sveitarfélaginu Húnavatnshreppi og heita sameinuð Húnabyggð. Þetta sveitarfélag er töluvert að umfangi og nær frá Laxá í Refasveit í norðri, Skagafjarðarsýslu í austri, Húnaþing vestra í vestri og Bláskógarbyggð í suðri.

Áður fyrr voru hér bæjarstjórar en þegar fram liðu stundir voru þeir aflagðir og sveitarstjórar fóru að ráða hér ríkjum. Þetta breyttist ekkert við sameiningu sveitarfélaganna. Fyrsti sveitarstjóri Húnabyggðar er Pétur Bergþór Arason, fæddur og uppalinn Blönduósingur. Þessi litla vísa sem hér kemur og er eftir Rúnar Kristjánsson frá Skagaströnd er ekki um Pétur sveitarstjóra heldur um Blönduós, bæjarstjórann og vorið. Reyndar kemur nafn skrásetjara fyrir en þessi vísa á enn við í dag en nú hafa Nonnarnir skipt á verkefnum. Þessi vísa varð til eftir smá viðtal við bæjarstjórann á Blönduósi fyrir margt löngu:

Vaknar á Ósnum vorsins kór,
vottar það stjórinn Arnar Þór :
Með lifandi tjáningu töfra mig,
tjaldurinn, lóan og Nonni Sig !"

Hér hefði mátt skjóta inn nafni sveitarstjóra Húnabyggðar en að öðru leyti heldur þessi vísa gildi sínu. Ennfremur hefur annar Nonni Sig yfirtekið það hlutverk að boða vorið en það er hinn tignarlegi grágæsargassi sem ber nafnið Jón Sigurðsson. Hann hefur um háls sér GPS tæki sem nemur allar hans ferðir. Og upplýst hefur okkur um ferðir sínar frá Skotlandi en hann kom til landsins 1. apríl og var kominn norður á Blönduós þann fimmta.

Í hádeginu í gær rakst ég á nafna og hélt hann sig á lóðinni við Héraðshælið. En hvort sem það hefur nú verið eins og það var eða var ekki, á einhvern hátt hefur það verið. Og aldrei hefur það verið þannig að það væri ekki á einhvern hátt. Með þessa speki Svejk held ég áfram.

Í tilefni af 30 ára vígsluafmæli Blönduóskirkju er öllum boðið til afmælishátíðar á morgun, sunnudaginn 30. apríl. Hátíðarmessa hefst klukkan 13:00. Sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup prédikar, sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir þjónar fyrir altari. Í beinu framhaldi af messunni verða tónleikar þar sem fram koma kirkjukór Blönduóskirkju ásamt Nínu Hallgrímsdóttur, sem syngur einsöng, undir stjórn Eyþórs Franzsonar Wechner; Karlakór Bólstaðahlíðarhrepps, undir stjórn Skarphéðins H. Einarssonar; og Elvar Logi Friðriksson einsöngvari, við undirleik Eyþórs. Að tónleiknum loknum verður boðið upp á kaffiveitingar í kirkjunni.

Nýtt og endurbætt Hótel Blönduós verður opnað 15. maí næstkomandi og af því tilefni er boðið upp á glæsilegt opnunartilboð. Innifalið í tilboðinu er gisting fyrir tvo í eina nótt, morgunverður, fordrykkur og tveggja rétta kvöldverður. Þróunarfélag í eigu Reynis Grétarssonar og Bjarna Gauks Sigurðssonar keyptu hótelið í fyrra og hafa framkvæmdir staðið yfir á húsnæðinu síðan þá. Þeir félagar festu einnig kaup á nokkrum húsum og íbúðum í nágrenninu og gamla kirkjan þar inni falin. Það stefnir í að gamli bærinn á Blönduósi hin falda perla muni skýna á ný .

Prjónagleði 2023 verður haldin 9. - 11. júní. Markmið hátíðarinnar hefur alltaf verið að sameina prjónafólk og draga það út úr einverunni með sitt áhugamál og áhersla hefur verið lögð á að skapa áhugaverðan vettvang til þess að prjóna saman, deila reynslu, læra nýtt, og gamalt og njóta samveru með öðrum ástríðufullum prjónurum. Hönnunar- og prjónasamkeppni er fylgifiskur Prjónagleðinnar og er verkefnið að þessu sinni að endurvinna íslenska lopapeysu og nota hana sem grunnefnivið í nýja nothæfa flík. Þemað er nýnot. Íslensku lopapeysurnar standa alltaf fyrir sínu sem slíkar en þegar þær slitna eða falla ekki lengur í kramið geta þær líka verið spennandi efniviður í nýja hönnun og öðruvísi flík.

Leikfélag Blönduóss mun í dag frumsýna fjölskylduleikverkið „Dýrið og Blíða“ í leikstjórn Sigurðar Líndal í félagsheimilinu á Blönduósi.

Höf.: Jón Sigurðsson