Kvikmyndatökuver Hér má sjá listamenn vinna við að framleiða endurgerð Ragnars Kjartanssonar af bandarísku þáttunum Santa Barbara.
Kvikmyndatökuver Hér má sjá listamenn vinna við að framleiða endurgerð Ragnars Kjartanssonar af bandarísku þáttunum Santa Barbara.
Heimildarmynd Gauks Úlfarssonar, Soviet Barbara: The Story of Ragnar Kjartansson in Moscow, var heimsfrumsýnd í gær á heimildarmyndahátíðinni HotDocs í Toronto í Kanada. „Myndin fjallar um stórsýningu Ragnars Kjartanssonar í GES-2, menningar- og…

Heimildarmynd Gauks Úlfarssonar, Soviet Barbara: The Story of Ragnar Kjartansson in Moscow, var heimsfrumsýnd í gær á heimildarmyndahátíðinni HotDocs í Toronto í Kanada.

„Myndin fjallar um stórsýningu Ragnars Kjartanssonar í GES-2, menningar- og listamiðstöðinni í miðborg Moskvu, sem hófst í desember 2021 en lauk skyndilega við innrás Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022. Í myndinni er fylgst með undirbúningi Ragnars og samstarfsmanna hans og eftirmálum þessa ævintýris sem snerist heldur betur á annan veg en að var stefnt,“ segir í tilkynningu.

Miðpunktur sýningar Ragnars í Moskvu var stærðarinnar gjörningur þar sem 70 listamenn og tæknifólk léku og framleiddu rússneska endurgerð af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara, einn þátt á dag. Þáttaröðin var gríðarlega vinsæl í Rússlandi og löndum fyrrverandi Sovétríkjanna fyrir um þrjátíu árum, um það leyti sem Sovétríkin liðu undir lok.

Þá hefur verið tilkynnt að yfirlitssýning tileinkuð Ragnari Kjartanssyni verði opnuð í Louisiana-safninu í Danmörku 9. júní og mun hún standa fram í október. Á vef safnsins kemur fram að The Art Newspaper hefur þegar valið sýninguna sem eina af þeim sem menn verði að sjá árið 2023. Sýningin verður titluð Epic Waste of Love and Understanding og er unnin í nánu samstarfi við listamanninn. Þar verða til sýnis verk á þeim fjölmörgu miðlum sem Ragnar nýtir.