Skaði Ávanabinding ópíóíða er hættuleg og fer vaxandi á Íslandi.
Skaði Ávanabinding ópíóíða er hættuleg og fer vaxandi á Íslandi. — Ljósmynd/Colourbox
Heilbrigisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur kynnt í ríkisstjórn tllögur að aðgerðum til að sporna við skaða af völdum ópíóíðafíknar. Tillögurnar verða ræddar í næstu viku í ráðherranefnd um samræmingu mála ásamt fleiri aðgerðum á þessu sviði

Heilbrigisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur kynnt í ríkisstjórn tllögur að aðgerðum til að sporna við skaða af völdum ópíóíðafíknar. Tillögurnar verða ræddar í næstu viku í ráðherranefnd um samræmingu mála ásamt fleiri aðgerðum á þessu sviði. Ríkisstjórnin mun síðan fjalla um niðurstöður ráðherranefndarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er misnotkun ópíóíðalyfja vaxandi vandamál á heimsvísu. Ísland er þar ekki undanskilið og eru vísbendingar um aukinn ópíóíðavanda hjá ungu fólki. Mikilvægt er að grípa strax inn í þessa þróun. Aðgerðir til að bregðast við þessu eru meðal annars aukið aðgengi að fjölbreyttri, gagnreyndri meðferð við vímuefnavanda og skaðaminnkandi úrræðum. Þar með talið gagnreyndri viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn. Einnig þurfa aðgerðir gegn vímuefnavanda að fela í sér aukna fræðslu, forvarnir og heilsueflingu.

„Ávanabinding ópíóíða er mikil og þekkt er að einstaklingar þrói hratt með sér þol og fíkn í lyfið sem aftur leiðir til þess að notaðir eru sífellt stærri og lífshættulegri skammtar. Öndunarbæling ópíóíða er hættulegasta aukaverkunin og með notkun stórra skammta eykst áhætta á ofskömmtun og öndunarstoppi og eru þeir einstaklingar sem reykja eða sprauta ópíóíðum í æð í hvað mestri áhættu þessu tengdu,“ segir í tilkynningu.

Ráðist verður í fjölbreyttar aðgerðir en lagt er til að 170 milljónum króna verði varið til átaksins. Meðal annars á að þróa flýtimóttöku sem verður samstarfsverkefni SÁA, Landspítalans og heilsugæslunnar um vönduð meðferðarúrræði. Þá verða úrræði frjálsra félagasamtaka á borð við Foreldrahús efld auk annarra sem hafa skilað árangri.