Sigurlaug Bjarnadóttir fæddist 4. júlí 1926. Hún lést 5. apríl 2023.

Sigurlaug var jarðsungin 24. apríl 2023.

Sigurlaug, eða Lulla eins og hún var iðulega kölluð af vinum og vandamönnum, verður mér alltaf minnisstæð. Margar góðar minningar frá æsku og mínum yngri árum, sem eiga rætur í þeim mikla samgangi sem var á milli fjölskyldnanna. Ég á minningar frá því þau Lulla og Þorsteinn bjuggu á Rauðalæknum, en auðvitað mest frá því þau voru í Njörvasundinu. Lulla gaf sig alltaf að manni og var lifandi, hlý og skemmtileg. Svo var það bókabrasið á þeim Þorsteini og pabba, en ég sat um að fá að koma með þegar pabbi fór einhverra erinda inn í Njörvó. Það var alltaf eitthvað spennandi að finna í kjallaranum hjá Þorsteini og að sjálfsögðu kíkti maður líka upp til Lullu sem heilsaði með hlýju í röddinni: „Nei, Óski minn, þú hér?“ Ósjaldan enduðu þessar heimsóknir á því að þau drukku öll saman kaffi í eldhúsinu og spunnust þá iðulega fjörugar samræður þar sem pabbi og Lulla tókust á um eitthvað sem var ofar mínum skilningi. Eflaust voru þau í grunninn sammála um flest, en mesta fúttið þegar þau fundu sér einhvern ásteytingarstein. Þorsteinn sat á hliðarlínunni og skemmti sér örugglega manna mest, blés í glæðurnar og veitti öðru hvoru eftir því sem til þurfti. Þá gat verið hvass og rökfastur tónn í röddinni hennar Lullu, sannfæringartónn sem sagði bara „auðvitað hefur hún rétt fyrir sér. Allt annað er bara vitleysa“. Að sjálfsögðu vildi pabbi ekki láta í minni pokann, en þetta var auðvitað mest til gamans og alltaf stutt í glettnina.

Já það var oft kátt á hjalla í fjölskylduboðum, en þó sérstaklega á gamlárskvöld þegar fjölskyldurnar og vinir sameinuðust heima hjá okkur í Hjallalandinu. Mér fyrirgefst vonandi að halda að skemmtilegri veislur hafi vart verið haldnar. Þar munaði nú ekki lítið um glaðværðina sem fylgdi þeim úr Njörvasundinu og Tóta, systir hennar Lullu, var yfirleitt með í för. Það fylgdu þeim gleði, sögur og söngur. Þá var glatt í Hjalló. Fólk borðaði veislukost, sat og skrafaði saman, reykti og drakk og söng dátt fram á nýársmorgun.

Svo leið tíminn og fjölskyldurnar vaxa, eins og gengur. En eftir því sem ég komst meira til vits og ára áttaði ég mig betur á því hversu mikill skörungur hún Sigurlaug var. Hún var vinsæll frönskukennari margra jafnaldra minna og kunningja, og svo auðvitað alþingismaður, ein örfárra kvenna á 8. áratugnum. Þar var hún málsvari frelsis og jafnréttis og lét menntamál og málefni landsbyggðarinnar til sín taka, enda þingmaður Vestfirðinga. Leiftrandi mælsk og rökföst fór hún óhikað sínar eigin leiðir og lét þvergirðingslegan flokksaga ekki stöðva sig, enda hafði hún skömm á „bjálfaþægð samsinnungsins. Lífsglöð kaus hún frekar að vera „með storminn í fangið“ og fylgja sannfæringu sinni.

Blessuð sé minning hennar.

Óskar Sturluson.

Okkur er ljúft að minnast Sigurlaugar Bjarnadóttur frá Vigur, vinkonu okkar úr Félagi frönskukennara, nú þegar hún hefur lokið lífsgöngu sinni. Hún var formaður á mikilvægum tíma í sögu félagsins og kom ýmsu til leiðar sem jafnvel hefði ekki verið á annarra færi, eins og því að hrinda úr vör nýju frönsk-íslensku orðabókinni.

Persónuleiki hennar, glaðlegt viðmót og velvild var það fyrsta sem við tókum eftir. Ekki þurfti að hlusta lengi á hana tala um málefni líðandi stundar til að trúa því vart, að þar færi yfirlýst sjálfstæðiskona, frekar harðsvíraður kommi upp á gamla móðinn! Og þegar hún komst á flug um jöfnuð eða misréttið í þjóðfélaginu var auðvitað veisla, því að hún var svo hispurslaus og talaði beint frá hjartanu, óritskoðað og það klæddi hana.

Hún hafði þann eiginleika að hafa tilfinningu fyrir lífinu í kringum sig, fann út hvernig öðrum leið. Kom sér vel þegar þurfti að sætta ólík sjónarmið á ströngum fundum sem fylgja formannsstarfinu.

Árið 1988 var komið á samstarfsnefnd sem átti að vinna úr ákveðnum samningi á sviði menningar og vísinda á milli Frakklands og Íslands. Slíkt gat nýst mjög vel. Sigurlaug, sem var formaður FFÍ, sá sér leik á borði að hreyfa við því brýna hagsmunamáli að fá nýja fransk-íslenska orðabók. Ýtti hún við stjórnvöldum með bréfi þess efnis. Boltinn fór að rúlla, en við tók átakasamt ferli og langt, t.d. varðandi fjármagn. Það þurfti stöðugt að fylgja málum eftir, ekki láta deigan síga. Þar var Sigurlaug óumdeildur primus motor. Þá var hún þjóðþekkt og nýtti sér hæfileika sína og reynslu í þágu félagsins. Fyrir það hlýtur hún ómælt þakklæti.

Hvílík forréttindi að hafa fengið að umgangast Sigurlaugu, mannvin og frumkvöðul. Henni tókst meira að segja að halda okkur árshátíð á Hótel Sögu og við munum enn dagskrána!

Hún nam ensku og frönsku við Háskólann í Leeds, tók þaðan BA-próf og fór í framhaldsnám í frönsku og frönskum bókmenntum við hina aldagömlu menntastofnun Sorbonne í París. Sigurlaug sameinaði snilldarlega heimskonu og sveitastúlku úr Djúpinu.

Að lokum úr Ljóði Paul Verlaine sem aldrei var langt undan í frönskukennslunni.

Hve kyrrlátt regnið kliðar

í kvöld um þök og garða

og hjartans harma friðar.

Hve hljóðlátt regnið kliðar!

(Þýð. Helgi Hálfdanarson)

Við vottum börnum hennar Ingunni, Birni og Björgu okkar innilegustu samúð.

Blessuð sé minning Sigurlaugar Bjarnadóttur.

Fanny Ingvarsdóttir,

Ragna Sigrún Sveinsdóttir.

Nú hefur Sigurlaug kvatt okkur. Með henni er gengin merkileg kona á svo margan hátt, ekki síst þegar litið er til stjórnmálasögunnar því að hún var í hópi fyrstu kvenna sem settust á Alþingi. Sigurlaug var mikil hugsjónakona, kona með sterka réttlætiskennd sem í störfum sínum setti í öndvegi að rétta hlut þeirra sem stóðu höllum fæti, og með því bæta samfélagið.

En sú Sigurlaug sem stendur mér á þessum tímamótum svo ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, og ég vil minnast hér, er Sigurlaug mamma hennar Ingu, bestu vinkonu minnar til 65 ára eða svo. Þegar Inga hringdi og sagði mér að Sigurlaug væri látin tóku minningarnar að streyma fram hver af annarri, en fyrst og síðast fann ég á þessum tímapunkti svo sterkt hvað Sigurlaug á og mun alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu.

Við Inga vorum ekki eldri en þriggja ára þegar við hittumst fyrst úti á götu á Rauðalæknum, þar sem foreldrar okkar bjuggu þá, og fórum að leika okkur saman. Þessi leikur varð byrjunin á vinkonusambandi sem varð svo náið að við lékum okkur saman nánast hvern einasta dag, öll æskuárin. Um leið varð heimili Ingu fyrir mér eins og annað heimili, til viðbótar við mitt eigið. Þar átti Sigurlaug stóran þátt, með sínu umvefjandi fasi, fallega brosinu, og hlýjunni sem lét mér alltaf finnast ég velkomin, sama hversu oft og lengi í einu ég dvaldi á heimilinu. Og ekki bara það, því Sigurlaug og Þorsteinn buðu vinkonunni nánast alltaf að vera með þegar eitthvað var um að vera í fjölskyldunni, hvort sem það voru fjölskylduboð, tjaldútilegur eða eitthvað annað skemmtilegt. Stærsta ævintýrið var samt þegar ég fékk að fara með Ingu og fjölskyldunni í Vigur eitt sumarið, þegar þar var haldið upp á stórafmæli foreldra Sigurlaugar. Það er ein skemmtilegasta minning sem ég á frá æskuárunum.

Vinátta okkar Ingu hefur verið óslitin og eftir að við komumst á fullorðinsár hélt ég áfram að heimsækja Sigurlaugu og Þorstein reglulega, en þó mest meðan þau bjuggu í Njörvasundinu. Kom ég þá gjarnan með dætur mínar með mér. Móttökurnar sem við fengum voru að hætti Sigurlaugar, breitt bros og útbreiddur faðmur og tilfinningin var alltaf sú sama þegar ég stóð í forstofudyrunum, mér fannst ég vera að koma heim. Dæturnar, þótt ungar væru þá, muna ennþá eftir heimsóknunum í Njörvasundið.

Þegar komið er að kveðjustund er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast Sigurlaugu og orðið aðnjótandi þeirrar væntumþykju sem hún sýndi mér í hvert einasta skipti sem áttum stund saman. Minningin um einstaka konu lifir og mun halda áfram að veita mér yl í hjartað um ókomna tíð.

Elsku Inga mín, Bjössi og Begga. Ég sendi ykkur öllum sem og fjölskyldum ykkar og öðrum ættingjum Sigurlaugar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Anna Ólafsdóttir.

Á táningsaldri heyrði ég Sigurlaugar Bjarnadóttur fyrst getið, vegna starfa hennar sem borgarfulltrúi og kennari við menntaskóla, að vísu annan en ég sótti sjálfur, en milli skóla bárust sögur um frönskukennarann í Hamrahlíð sem gustaði af, lét sér í engu bregða að lifandi mús væri laumað upp á kennaraborð og sýndi misduglegum nemendum þolinmæði og móðurlega hlýju. Á árunum þar á eftir var hún kjörin til setu á Alþingi, flutti ræðu á frægum fundi á kvennafrídegi 1975 og enn síðar vakti hún athygli með sérframboði til þings í Vestfjarðakjördæmi árið 1983 þar sem litlu munaði að hún næði kjöri.

Ekki hitti ég þessa hálfgerðu þjóðsagnapersónu fyrr en á árinu 1992 þegar yngri dóttur hennar fannst tímabært að sýna foreldrum sínum mann sem hún var þá farin að verja miklum tíma með. Til þeirra samfunda gekk ég óviss um hvernig þau sæmdarhjónin tækju þessari sendingu sem var allmörgum árum eldri en dóttirin. Að auki fékk ég í veganesti þá sögu um fyrri tilburði dótturinnar í slíku kynningarstarfi að sá ónefndi sem þá átti í hlut hafi eftir á fengið þá einkunn Sigurlaugar að hann hafi verið „ekki ógeðslegur“, en í endursögn gaf hljómfallið og áherslan í síðara orðinu þessum dómi dulúðlega margræðni. Strax við þessi fyrstu kynni blasti við mér heillandi og leiftrandi gáfuð kona, einkar hlýleg, einlæg og ákveðin. Ekki veit ég hvaða einkunn ég fékk fyrir þá samverustund, en í mínum huga byrjaði þá að myndast milli okkar strengur djúprar vináttu og kærleika sem styrktist einungis með árunum og entist allt til hennar hinsta dags.

Haustið 2006 lést eiginmaður Sigurlaugar til rúmrar hálfrar aldar, Þorsteinn Ó. Thorarensen, um það leyti sem þau fluttu í íbúð fyrir aldraða eftir að hafa búið og starfað í húsi sínu við Njörvasund í áratugi. Þessum breyttu aðstæðum tók Sigurlaug af aðdáunarverðum kjarki og æðruleysi, en þá strax höfðu þó birst í fari hennar fyrstu merki um heilabilun. Með tímanum jók sá vágestur hlut sinn hægt og bítandi, en af völdum hans fékk Sigurlaug á árinu 2010 vist á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þar sem hún bjó þar til yfir lauk. Smám saman dofnaði skæra birtan sem stafaði af henni, bóklestur lagðist af, minningar runnu ein af annarri skeið sitt á enda og loks hvarf getan til að tjá sig á mæltu máli. Það leyndi sér ekki að Sigurlaug skynjaði lengi hvernig þessar breytingar gengu yfir sig, baráttukonuna sem hafði mestan hluta síns starfsaldurs haft að lifibrauði að tala við aðra og rökræða. Í staðinn varð hún að fara aðrar leiðir til að tjá hug sinn, með hlýju brosi, geislandi augum, faðmlagi og þéttingsföstu og stundum langvinnu taki um hendur nákominna þegar hún hitti þá fyrir. Lengi virtist mega trúa að viljastyrkur hennar og líkamskraftar myndu halda út í mörg ár enn, en að endingu kom þó að því óumflýjanlega og var þá engu líkara en að hún hafi sjálf ákveðið að ekki væru lengur efni til að streitast gegn því.

Ég stend í þakkarskuld við örlögin fyrir að hafa veitt mér þau forréttindi að eiga Sigurlaugu Bjarnadóttur sem hluta af mínu lífi.

Markús Sigurbjörnsson.

Í dag kveðjum við Sigurlaugu Bjarnadóttur, fyrrverandi formann Landssambands sjálfstæðiskvenna og alþingismann.

Sigurlaug sinnti formennsku í Landssambandinu árin 1975-1979 en sat í stjórn þar í alls 12 ár. Hún var skelegg og framtakssöm sem formaður og stóð meðal annars vörð, ásamt stjórninni, um það að kvenfélögin í flokknum héldu sínum stað þegar upp komu hugmyndir að sameina þau öðrum sjálfstæðisfélögum. Þær sjálfstæðiskonur sem þekktu Sigurlaugu minnast hennar fyrir dugnað og eljusemi, þannig að eftir var tekið. Hún átti létt með að tala á fundum og koma sínum skoðunum á framfæri og hún lagði sig fram við að taka vel á móti nýjum konum sem vildu koma í starfið.

Um leið og ég votta fjölskyldu Sigurlaugar samúð mína vil ég þakka fyrir hennar framlag í þágu LS yfir árin.

Nanna Kristín
Tryggvadóttir,
formaður LS.