John C. Reilly og Quincy Isaiah í hlutverkum Jerrys Buss og Magics Johnsons í þáttunum.
John C. Reilly og Quincy Isaiah í hlutverkum Jerrys Buss og Magics Johnsons í þáttunum. — HBO
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besti kosturinn þinn liggur á spítala og í staðinn erum við með helvítið hann Hamlet á hliðarlínunni að leita að skaufanum á sér!“ Þannig lá landið hjá hinu fornfræga körfuboltaliði Los Angeles Lakers um áramótin 1979-80, alltént frá…

Besti kosturinn þinn liggur á spítala og í staðinn erum við með helvítið hann Hamlet á hliðarlínunni að leita að skaufanum á sér!“

Þannig lá landið hjá hinu fornfræga körfuboltaliði Los Angeles Lakers um áramótin 1979-80, alltént frá sjónarhóli goðsagnarinnar Jerrys Wests, sem lét orðin hér að framan falla í samtali við eigandann, Jerry Buss. Eftir góða byrjun á tímabilinu var allt farið í skrúfuna og West þótti brýnt að skipta um þjálfara. Enn og aftur.

Buss hafði keypt Lakers um sumarið – án þess að hafa efni á því en tókst á ögurstundu að telja bankann á að ganga ekki að sér. Korteri fyrir mót sagði þjálfarinn upp, téður Jerry West; kvaðst ekki vera rétti maðurinn til að lóðsa mannskapinn inn í fyrirheitna landið. Hann varð þó um kyrrt sem ráðgjafi. Buss vildi ólmur fá hinn virta háskólaþjálfara Jerry Tarkanian og var kominn langleiðina með að landa honum þegar þeim síðarnefnda snerist hugur, eftir að náinn vinur hans var myrtur á hrottalegan hátt. Þá sneri Buss sér til Jacks McKinneys, aðstoðarþjálfara Portland Trail Blazers, og fékk hann á endanum um borð. Margir hleyptu brúnum enda hafði McKinney enga reynslu sem aðalþjálfari. Og Lakers ætlaði sér stóra hluti.

Veturinn byrjaði líka vel og áhrif og áherslur McKinneys skinu í gegn. Þá stórslasaði þjálfarinn sig á reiðhjóli og var vart hugað líf. Næstur í röðinni var aðstoðarmaður hans, Paul Westhead, og þurfti að standa vaktina – skjálfandi á beinunum. Ég meina, nokkrum mánuðum áður hafði maðurinn verið að kenna Shakespeare í menntaskóla. Ergó: Hamletinn hans Wests. Westhead kvótaði Danaprins hægri vinstri á blaðamannafundum og frammi fyrir liðinu sem klóraði sér í höfðinu. Sér til fulltingis hafði Westwood gamlan leikmann Lakers, Pat Riley, sem áður starfaði sem aðstoðarlýsandi á leikjum og hafði, að því er virtist, engin áform um að gerast þjálfari. Um tíma var nýr maður, Elgin Baylor, klár á kantinum en komst ekki að.

Á einhvern hátt small þetta nefnilega hjá Westhead og Riley. Liðið náði fljótt vopnum sínum og stormaði í þéttum takti að NBA-titlinum. Fyrir úrslitakeppnina þurfti Buss þó að taka erfiða ákvörðun. McKinney hafði hjarnað við og vildi ólmur snúa aftur eftir að hann fékk grænt ljós hjá læknum. Átti eigandinn að kalla aftur á höfund stefsins eða halda sig við útsetjarana? Að vera, eða ekki vera, þarna er efinn! Hann veðjaði á endanum á Westwood og Riley og sá ekki eftir því enda vann Lakers-liðið titilinn með gamla brýnið Kareem Abdul Jabbar og nýliðann Earvin „Magic“ Johnson í broddi fylkingar.

Þessi lygilega en sanna saga er sögð í sjónvarpsþáttunum Winning Time: The Rise of the Lakers Dynasty sem hægt er að nálgast í Sjónvarpi Símans Premium. Eitthvað mun hún vera færð í stílinn í þágu dramatíkurinnar, hinum eiginlegu persónum til ama, eins og fram hefur komið, en grunnþráðurinn er vissulega sannur.

Aðalsöguhetjurnar, Jerry Buss og Magic Johnson, eru teiknaðar upp sem hálfgerðir galgopar í þáttunum. Lífsglaðir, broshýrir og kynóðir. En hæfileikaríkir, hvor á sínu sviði, og með til þess að gera skýra sýn – og auðvitað öflugt lið í kringum sig. Litrík móðir Buss og barnung dóttir hans eru til dæmis betri en engin. Sú síðarnefnda, Jeanie, er stjórnarformaður Lakers í dag; tók við eftir fráfall föður síns fyrir áratug. Móðirin fellur frá meðan á úrslitakeppninni stendur og er syni sínum að vonum harmdauði.

Leikur föður sinn

Abdul-Jabbar er skemmtilegt mótvægi við ungæðið í Johnson, veraldarvanur og öruggur í eigin skinni. Með tímanum tengja þeir betur hvor við annan enda fæddir til að leika saman körfubolta. Hversu nálægt veruleikanum samskipti þeirra í þáttunum eru skal ósagt látið. Norm Nixon er áberandi í hópi leikmanna Lakers framan af þáttunum en sonur hans, DeVaugn Nixon, fer með hlutverk hans. Að vísu einhverjum fimmtán árum eldri en faðir hans var á þessu tíma en aldur er auðvitað afstæður, ekki síst í sjónvarpi. Móðir DeVaugns er Debbie Allen, danskennarinn úr Fame, hinum vinsæla myndaflokki úr áttunni. Svona fyrir þau ykkar sem hafa yndi af ættfræði. Er á líður fer meira fyrir Spencer Haywood, goðsögn sem á þessum tímapunkti var farinn að halla sér meira að kókaíni en körfubolta. Honum er á endanum vikið úr liðinu.

Paul Westhead er áhugaverð týpa í myndaflokknum; sauðtryggur aðstoðarmaður sem kann best við sig í skjóli bak við þann sem ræður. Örlögin henda honum síðan út í djúpu laugina, þar sem hann tekur öllum og ekki síst sjálfum sér að óvörum til sunds. Og það er bara skriður á honum. Pat Riley er hikandi í byrjun enda á krossgötum í lífinu en finnur sig undrafljótt í hlutverki þjálfarans. Ekki leið heldur á löngu áður en hann leysti Westhead af hólmi sem aðalþjálfari Lakers. Enginn er víst annars bróðir í leik. Hann vann alls fjóra NBA-titla sem aðalþjálfari Lakers og er goðsögn í lifanda lífi.

Talandi um goðsagnir þá koma ýmsir andstæðingar Lakers að sjálfsögðu við sögu, allt frá Boston-mógúlnum Red Auerbach sem ögrar Jerry Buss hressilega við upphaf eignarhalds hans, yfir í leikmenn á borð við Julius Erwing og Larry Bird. Þeim fyrrnefnda er lýst sem vingjarnlega manninum sem vingast fyrst við menn en stingur þá síðan í bakið. Bird er ekki aðlaðandi týpa í þáttunum enda höfuðandstæðingurinn og illskan holdi klædd, frá sjónarhóli Magics Johnsons.

Rimmur þeirra urðu margar.

Valinn maður í hverju rúmi

Harðsnúið lið leikara fer með helstu hlutverk í Winning Time. John C. Reilly fer mikinn í kostulegu gervi Jerrys Buss, alltaf með skyrtuna fráhneppta niður á nafla. Lítt þekktur leikari, Quincy Isaiah, fer líka fantavel með hlutverk Magics Johnsons. Adrien Brody neglir Pat Riley og Jason Segel er mjög sympatískur í hlutverki Pauls Westheads. Solomon Hughes þreytir frumraun sína á skjánum sem Kareem Abdul-Jabbar (leikarar sem eru yfir 2.10 á hæð eru ekki á hverju strái) og er mjög sannfærandi. Jason Clarke á svo frábæra spretti sem hinn tilfinningaríki og uppstökki Jerry West.

Konurnar fá ekki úr eins miklu að moða enda hlutverkin smærri. Mest mæðir á Hadley Robinson í hlutverki Jeanie Buss og hún gerir mjög vel. Gaby Hoffman leikur hússtýruna í Forum-höllinni af öryggi. Senunni stelur þó skapgerðarleikkonan Sally Field sem fer á kostum sem ættmóðirin Jessie Buss.