Guðrún Marta Jónsdóttir fæddist 5. júlí 1927. Hún andaðist 12. apríl 2023.

Útför fór fram 19. apríl 2023.

Elsku amma Marta.

Það er skrýtið að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér svona vel. Ég gleymi aldrei súkkulaðikökunni þinni sem þú geymdir vel og örugglega en ég mátti gæða mér á þegar ég vildi. Þú varst sterk og örugg í framkomu og varst alltaf trú sjálfri þér.

Ég er ævinlega þakklát fyrir samband þitt við börnin mín og þá sérstaklega við Friðriku Hjördísi. Þú vildir allt fyrir börnin mín gera og sást til þess að þeim væri ávallt hlýtt bæði á líkama og sál. Friðrika Hjördís lærði fljótt að fara til langömmu og biðja um ýmislegt sem henni var látið eftir, hvort sem það var sælgæti eða að skoða góssið inn í herberginu þínu. Þín verður sárt saknað elsku amma.

Hrafnhildur.

Amma fæddist í faðmi vestfirskra fjalla og óx úr grasi hjá umhyggjusömum móðursystkinum sínum í Ytri-húsum við Dýrafjörð. Lífið einkenndist af leik með krökkunum í Núpsþorpinu og til að stunda nám gengu þau saman dálítinn spotta inn að Klukkulandi í farskólann. Alla tíð talaði amma af mikilli hlýju um æskuárin í sveitinni og það voru forréttindi að hlusta á hana lýsa lífinu fyrir vestan.

Eftir seinna stríð fluttist amma til Reykjavíkur, réð sig í vist og starfaði seinna sem saumakona á Kápunni. Ástin bankaði upp á og á fullveldisdaginn 1956 giftist hún afa. Pabba fengu þau svo í fangið nokkrum árum síðar og upp frá því fór snerist lífið hennar ömmu fyrst og fremst um heimilið og að hlúa að fólkinu sínu.

Amma og afi bjuggu lengst af í Grenilundi í Garðabæ og fátt jafnaðist á við það að koma í heimsókn þangað. Hlutina fékk maður að hafa eftir sínu höfði og nóg var um sætindi, enda hafði amma sérstakan áhuga á því að gefa fólki að borða. Í Grenilundinum var alltaf gripið í spil og oftar en ekki leikið inni í litla eldhúsi eða jafnvel farið í kapphlaup inni á gangi. Eftir fjörugan dag pakkaði amma mér svo vel inn í sængina og signdi yfir mig.

Þegar kom að því að fara í menntaskóla í höfuðborginni dvaldist ég hjá ömmu í Garðabænum. Tíminn saman var dýrmætur og þrátt fyrir kynslóðabil, ólíkar skoðanir á rifnum gallabuxum og mismikið dálæti á pítsu var sterkur strengur á milli okkar nafnanna. Lífið með ömmu mótaði mig og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson)

Takk elsku amma fyrir allt. Þín verður sárt saknað.

Þín nafna og ömmustelpa,

Marta Mirjam.

Nú er komið að leiðarlokum hjá henni Mörtu. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja henni síðustu tíu árin í lífinu hennar, sem vill svo til að er um það bil þriðjungur af ævi minni. Ég kynntist henni þegar hún var á níræðisaldri og við Hrafnhildur nýtekin saman en Hrafnhildur bjó að hluta til hjá Mörtu á þeim tíma. Þar vorum við því við reglulega, snæddum kvöldverð saman og ræddum heimsmálin. Fljótlega kom í ljós að þarna var engin venjuleg kona á ferð, margt við hana var á vissan hátt þversögn. Marta var blíð en á sama tíma hispurslaus. Hún hafði sterkar skoðanir á öllu því sem skipti hana máli en kærði sig ekki um það sem kom henni ekki við. Hún var smágerð en hafði margfaldan styrk á við það sem eðlilegt gæti talist af einstaklingi á hennar aldri. Ég leit upp til hennar, dáðist að hennar heimssýn og hvernig hún tókst á við lífið. Háttalag hennar var gluggi inn í gleymda tíma eldri kynslóða þar sem hugarfarið var einfaldara en gengur og gerist í dag. Í allri umræðu samtímans um umhverfismál og sjálfbærni þá var Marta sá einstaklingur sem við ættum öll að taka til fyrirmyndar. Kolefnisfótspor hennar var án efa með því minnsta sem þekkist en hún var afar nýtin. Engu var hent, farið var vel með alla hluti og þeir nýttir eins lengi og hægt var. Ég er þakklátur fyrir það að börnin mín fengu að kynnast henni og njóta hjartahlýju hennar. Það er erfitt að sjá eftir svona fágætri manneskju en allt tekur enda um síðir. Takk fyrir mig.

Andri Friðriksson.