Fjölhæfur Baldvin Hlynsson hefur komið víða við sem tónlistarmaður en opnar nú sína fyrstu myndlistarsýningu í Hörpu í tengslum við HönnunarMars.
Fjölhæfur Baldvin Hlynsson hefur komið víða við sem tónlistarmaður en opnar nú sína fyrstu myndlistarsýningu í Hörpu í tengslum við HönnunarMars. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessi hugmynd kviknaði þegar ég var í BA-námi í djasspíanóleik við Konunglega Tónlistarháskólann í Stokkhólmi,“ segir Baldvin Hlynsson sem opnar sína fyrstu myndlistarsýningu á miðvikudaginn

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Þessi hugmynd kviknaði þegar ég var í BA-námi í djasspíanóleik við Konunglega Tónlistarháskólann í Stokkhólmi,“ segir Baldvin Hlynsson sem opnar sína fyrstu myndlistarsýningu á miðvikudaginn. Sýningin, sem kallast Tónbil, er ein þeirra 100 sýninga sem boðið verður upp á á HönnunarMars sem stendur frá 3.-7. maí og ber að þessu sinni yfirskriftina Hvað nú?

„Eins og gengur þegar maður fer út í nám fækkar félagslegum skyldum manns um marga klukkutíma í viku svo að allt í einu er maður kominn með heilmikinn frítíma í að hugsa og pæla og gera tilraunir í stað þess að hitta vini á kaffihúsi eða mæta í afmælisveislu hjá ættingjum.“

Afkastamikill tónlistarmaður

Tónbil er fyrsta myndlistarsýning Baldvins en hann hefur getið sér gott orð sem tónlistarmaður og komið víða við. Hann hefur meðal annars tekið að sér upptökustjórn og hljómborðsleik með listamönnum á borð við ClubDub, Sturlu Atlas, HipsumHaps, Salóme Katrínu, Kristínu Sesselju, Bogomil Font, Unnstein Manuel og Ólaf Bjarka auk þess að hafa gefið út músík undir eigin nafni. Baldvin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2017 sem bjartasta vonin í djass- og blúsflokki í kjölfar plötu sinnar Renewal en hún var einnig valin djassplata ársins það árið hjá Morgunblaðinu. Lag hans „Milder's Mailbox“ var svo tilnefnt sem tónverk ársins í flokknum djass og blús á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022.

Vísindi og tjáning

„Verkin spruttu út frá tilraunum sem ég var að gera með sveiflusjá, sem er tæki sem umbreytir hljóðbylgjum á myndrænt graf á X- og Y-ás,“ segir Baldvin. Hann hafi póstað mynd af einu slíku myndrænu grafi á Instagram og fengið svo góð viðbrögð, og meira að segja kauptilboð, að hann ákvað að fínpússa pælinguna og afraksturinn er sýningin sem Baldvin opnar á jarðhæð Hörpu á miðvikudaginn og stendur til 11. maí.

En hvað er tónbil?

„Tónbil eru samspil tveggja tóna og það má segja að þau séu næstminnsta byggingareining tónlistar á eftir stökum tónum. Samkvæmt tólf tóna kerfinu, sem er algengasta kerfið í vestrænni tónlist, eru tónbilin tólf, og innihalda þau mismikla spennu eða jafnvægi. Eins má skipta litrófinu upp í tólf litatóna.“

Aðferðin sem Baldvin notar er því bæði vísindaleg og tilfinningaleg þar sem formin eru bein útkoma úr sveiflusjánni en litina velur hann eftir eigin tilfinningu og persónulegu sambandi við tónbilin.

Hann tekur nokkur dæmi:

Djöfullegt tónbil

Stækkuð ferund eða tónskratti (7:5) (Diabolus in musica á latínu), eins og tónbilið hefur oft verið kallað síðan í byrjun átjándu aldar, öðlaðist þetta viðurnefni sitt þar sem tónbilið þótti vera djöfullegt, en það er mjög ómstrítt. Eins og sjá má virðist tónskrattinn hyrndur.

„Á tuttugustu öldinni þróaðist ein áhrifamesta tónlistarstefna heimsins út frá þessu eina tónbili. Sú tónlistarstefna er djass. Fólk hefur því kannski eitthvað til síns máls þegar það segir: „Ekki þennan djöfulsins djass!“ Mér finnst rauður lýsa þessu tónbili best þar sem hann inniheldur mestu spennuna.“

Lög sem byrja á stækkaðri ferund eru til dæmis stefið úr Simpsons og „Maria“ úr West Side Story.

Von og óþolinmæði

Stór sjöund (15:8) er oft tengd við von. Það hefur líklega eitthvað að gera með það hversu stutt tónbilið er frá hreinni áttund en hún er hreinasta tónbilið og inniheldur mikinn stöðugleika. Stóra sjöundin er þó stundum talin tákna óánægju og ofsafengna þrá.

„Ég valdi gulan sem lit stórrar sjöundar vegna vonarinnar sem mér finnst hún búa yfir. Gulur þykir einmitt oft tákna von, en einnig óþolinmæði. Von og óþolinmæði eru systkini með ólíka skapgerð en ef þau væru tónbil væru þau líklega bæði stór sjöund.“

Dæmi um lög sem byrja á stórri sjöund eru „Take on Me“ með Aha og „Gymnopédie No. 1“ eftir Erik Satie.

Draugalegt tónbil

Lítil sexund (8:5) þykir gjarnan tákna hræðslu. Hjá sumum vekur hún angist eða kvíða. Tónbilið er draugalegt og mystískt þegar það leysist niður á hreina fimmund.

Í öðru samhengi getur lítil sexund verið mjög glaðleg en hún á í raun mjög margt skylt við stóra þríund, sem ásamt stóru sexundinni er glaðlegasta tónbilið. Lítil sexund er í raun stór þríund ef tónunum er snúið við.

„Mér finnst magenta-liturinn lýsa tónbilinu ágætlega þar sem liturinn er skyldur fjólubláum, litnum sem mér finnst tákna litla þríund. Þessi tónbil eru lík að mörgu leyti en þau eru bæði heldur angistarfull,“ útskýrir Baldvin.

Dæmi um lög sem byrja á lítilli sexund eru „Nú hverfur sól í haf“, „Vorkvæði um Ísland“, gítar-intróið í „In My Life“ með Bítlunum og „Vals í cís-moll“ eftir Chopin.

Verkin af tónbilunum 12 eru seld í takmörkuðu upplagi og eru eintökin númeruð. Nánar á tonbil.is.

Við mælum með á Hönnunarmars:

Hanna Dís Whitehead er ein af fremstu hönnuðum landsins og vinnur á mörkum hönnunar, listar og handverks. Á sýningunni Blíður ljómi í Gallery Port sýnir Hanna Dís húsgögn, vörur og verk þar sem hún hefur einblínt á að nýta efnivið úr nærumhverfi sínu sem væri alla jafna hent. Um er að ræða annars flokks ull, garnafganga og hafrastrá. Á sýningunni má sjá fleti spónlagða með handlituðum hafrastráum, þæfða ull sem staðgengil viðar í húsgögnum auk annarra tilrauna með efniviðinn.

Hæ/Hi er vettvangur fyrir skapandi samtal og samstarf hönnunarstúdíóa frá Reykjavík og Seattle sem hófst 2019 en Hæ/Hi hefur staðið fyrir sýningum bæði hér á landi og í Seattle. Á sýningunni Saman/Together í Ásmundarsal velta átján hönnunarstúdíó frá Reykjavík og Seattle fyrir sér og túlka þýðingu orðsins „saman“ í gegnum persónulega reynslu, hugmyndir eða efnislega túlkun.

Hönnunartvíeykið studio miklo er skipað þeim Helgu Björk Ottósdóttur og Hjördísi Gestsdóttur. Á sýningunni Circulus í Ásmundarsal sýna þær ný ljós og vörur þar sem þær blanda saman ólíkum efnivið, leir og pappír.

Höf.: Höskuldur Ólafsson