Kári Jónsson fæddist 27. febrúar 1952. Hann lést 5. apríl 2023.

Útför Kára fór fram 26. apríl 2023.

Kæri vinur Kári Jónsson.

Mig langar að kveðja þig með fáeinum orðum og þakka þér fyrir samfylgdina í hartnær 60 ár.

Þú hefur verið stór hluti af mínu lífi og fjölskyldu minnar í gegnum árin, og hefur verið mér sem bróðir í gegnum tíðina. Leiðir okkur lágu saman árið 1965 þegar við erum ungir drengir í Reykjavík. Tónlistin spilaði stórt hlutverk í okkar vináttu, þau voru ófá skiptin sem við spiluðum saman hvort sem var á æfingum eða böllum út um allt land í hljómsveitum okkar.

Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að við náðum að spila saman á okkar seinasta balli núna í mars síðastliðnum í Hafnafirði ásamt félögum okkar, en mig grunaði þó ekki að það yrði okkar seinasta ball. Sú minning er mér sérstaklega kær.

Við fjölskylda mín sendum Bjarghildi, Jóni Trausta, Stefáni Erni, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Öll við færum, elsku
vinur,

ástar þökk á
kveðjustund.

Gleði veitir grátnu hjarta.

guðleg von um eftirfund.

Drottinn Jesú, sólin sanna,

sigrað hefur dauða og gröf.

Að hafa átt þig ætíð verður,

okkur dýrmæt lífsins gjöf.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Minning um góðan mann og vin mun lifa.

Sveinn Larsson
og fjölskylda.

Það kom flestum á óvart þegar það fréttist að kær vinur okkar Kári Jónsson væri fallinn frá, langt fyrir aldur fram. Það er stutt síðan við hittumst á vellinum og enn styttra síðan við hittumst og tókum saman lagið. Kári var okkar besti Fjölnismaður og hafði unnið fyrir íþróttafélagið sitt árum saman. Hann var einn af þeim sem komu að stofnun Fjölnis og því einn af þeim sem lögðu grunninn að blómlegu íþróttastarfi félagsins. Hann var mikill áhugamaður um knattspyrnu og það voru ekki margir leikir þar sem Kári var ekki mættur á sinn stað í stúkunni til að styðja sitt lið. Hans verður sárt saknað, en minning um góðan Fjölnismann mun lifa. Kári var gerður að heiðursfélaga Fjölnis árið 2019 og var hann annar í röðinni sem hlaut þá nafnbót hjá félaginu.

Þegar ég kom að störfum hjá Fjölni var mér sagt að Kári væri góður gítarleikari. Það voru fleiri með þetta nafn sem voru starfandi hjá félaginu, þannig að ég tengdi þetta ekki strax við Kára Jónsson. Það var ekki fyrr en mun seinna, þegar leiðir okkar Kára lágu saman hjá Isavia, að ég náði loks að spila með Kára. Hann var mjög góður gítarleikari og það sem meira var; hann hafði gríðarlega gaman af því að hitta félaga og spila með þeim „gömlu góðu lögin“. Fyrsta hljómsveit Kára var hljómsveitin Mods, en eftir það komu nokkrar góðar hljómsveitir sem nutu krafta hans. Hann spilaði seinni árin með hljómsveitinni FlashBack. Ég var svo heppinn að fá að spila með Kára og félögum aðeins á síðustu árum, m.a. með FlashBack og með félögum úr Mods. Það voru mikil forréttindi að fá að kynnast þessum félögum og rifja upp gamla góða tíma. Fráfall Kára er mikið áfall fyrir okkur spilafélagana og hans verður sárt saknað, sem góðs gítarleikara og ekki síður góðs félaga.

Íþróttastarf á Íslandi þrífst fyrst og fremst með óeigingjörnu starfi sjálfboðaliða, sem vinna gríðarlegt starf fyrir félögin sín. Kári og fjölskylda hans lögðu mikla vinnu og elju í störf sín fyrir Fjölni. Bæði Kári og eiginkona hans voru formenn meistaraflokksráða hjá félaginu um nokkurra ára skeið. Hann kom einnig mikið að uppbyggingu íþróttasvæðis félagsins við Dalhús. Hann sagði mér oft að hann hefði sjálfur lagt margar túnþökur á knattspyrnuvöll félagsins og hann hafði lítinn áhuga á að sjá því skipt út fyrir gervigras. Sem betur fer kom það ekki til og grasið hans Kára er enn á sínum stað við Dalhúsin. Ég vil fyrir hönd Fjölnis og allra Fjölnismanna fá að þakka Kára Jónssyni ómetanlegt starf í þágu félagsins í gegnum árin. Eins og áður segir þá verður Kára sárt saknað hjá félaginu. Ég vil senda börnum Kára og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Farðu í friði Kári minn.

Jón Karl Ólafsson,
formaður Fjölnis.