Íslandsmeistarar Valur er Íslandsmeistari kvenna í körfubolta árið 2023 í þriðja sinn á síðustu fimm árum og í þriðja sinn í sögunni.
Íslandsmeistarar Valur er Íslandsmeistari kvenna í körfubolta árið 2023 í þriðja sinn á síðustu fimm árum og í þriðja sinn í sögunni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur varð í gærkvöldi Íslandsmeistari kvenna í körfubolta í þriðja sinn á síðustu fimm árum og í þriðja sinn í fjórðu tilraun, en enginn meistari var krýndur árið 2020 vegna kórónuveirunnar. Valur vann 2019 og aftur árið 2021

Á Hlíðarenda

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valur varð í gærkvöldi Íslandsmeistari kvenna í körfubolta í þriðja sinn á síðustu fimm árum og í þriðja sinn í fjórðu tilraun, en enginn meistari var krýndur árið 2020 vegna kórónuveirunnar. Valur vann 2019 og aftur árið 2021.

Valskonur tryggðu titilinn með sigri á deildarmeisturum Keflavíkur í fjórða leik úrslitaeinvígis liðanna í gærkvöldi, 72:68, og unnu einvígið í leiðinni 3:1. Embla Kristínardóttir, sem er uppalin hjá Keflavík, skoraði fimm síðustu stig Valskvenna á æsispennandi lokakafla og tryggði sigurinn.

Fram að því hafði Keflavík verið meira og minna yfir fyrstu 37 mínúturnar, en Valskonur aldrei langt undan. Leikmenn Vals sýndu gríðarlegan styrk í að missa ekki trúna, þrátt fyrir að illa gengi að jafna, og sigldu að lokum sætum sigri í höfn.

Titillinn árið 2019 var fyrsti titillinn í sögu Vals og var Hlíðarendafélagið því að vinna sinn þriðja Íslandsmeistaratitil frá upphafi. Titilinn í ár er hins vegar frábrugðinn hinum tveimur. Valskonur voru með illviðráðanlegan leikmannahóp hin tvö árin og kom það fáum á óvart að liðið stæði uppi sem sigurvegari. Þá var Helena Sverrisdóttir fremst í flokki og þangað til í gær hafði Valur aldrei orðið Íslandsmeistari án hennar.

Pressan minni í ár

Í ár var pressan minni á Val og leikmenn og þjálfarar sem Morgunblaðið ræddi við strax eftir leik voru sammála um að enginn hefði haft trú á Valsliðinu, nema leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn. Fæstir höfðu haft trú á Val í stöðunni 2:2 í undanúrslitum gegn Haukum, þar sem Haukar jöfnuðu í 2:2 eftir að Valur vann tvo fyrstu leikina. Valur vann hins vegar oddaleikinn og var sterkara liðið í einvíginu gegn Keflavík.

Það hafi því verið sérstaklega sætt að fagna þeim stóra í leikslok, þvert á spár margra. Ólafur Jónas Sigurðsson á mikið hrós skilið, en hann var einnig með liðið árið 2021 og hefur því unnið tvo titla á síðustu þremur árum. Í viðtali við Morgunblaðið eftir leik lýsti þjálfarinn titlinum árið 2021 sem miklum létti, en í gær komst ekkert að nema taumlaus gleði.

Margir spiluðu vel

Það segir ýmislegt um styrk og breidd Valsliðsins að liðinu tókst að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í gær, í leik þar sem enginn leikmaður skoraði meira en 14 stig. Ásta Júlía Grímsdóttir var stigahæst með 14, Kiana Johnson skoraði 13, Hildur Björg Kjartansdóttir 12 og þær Simone Costa og Embla Kristínardóttir gerðu tíu stig hvor.

Daniela Wallen var langbest hjá Keflavík í gær með 21 stig, 14 fráköst og fjórar stoðsendingar. Alls var hún með 30 framlagspunkta, 19 fleiri en Karina Konstantinova, sem kom þar á eftir. Keflavík þurfti meira framlag frá fleiri leikmönnum til að leggja Val að velli í gær. Birna Valgerður Benónýsdóttir á hrós skilið fyrir sína frammistöðu á leiktíðinni, en hún þurfti að bíta í það súra epli að ná ekki að jafna fyrir síðustu sókn Vals. Hún verður væntanlega í stóru hlutverki hjá Keflavík á næstu leiktíð, þegar liðið ætlar sér einu skrefi lengra. Það er sannarlega hægt að byggja ofan á þetta tímabil hjá Keflavík.

Hörður Axel Vilhjálmsson hefur gert flotta hluti með Keflavíkurliðið, þrátt fyrir niðurstöðuna í gær. Hann tók við því fyrir leiktíðina og kom því alla leið í lokaúrslitin, ári eftir að liðið komst ekki einu sinni í úrslitakeppnina. Keflavík þarf ekki að skammast sín fyrir árangurinn í ár, þótt tapið í gær hafi verið sárt.