Khvicha Kvaratskhelia hefur verið sjóðheitur í liði meistaraefnanna frá Napoli á leiktíðinni.
Khvicha Kvaratskhelia hefur verið sjóðheitur í liði meistaraefnanna frá Napoli á leiktíðinni. — AFP/Alberto Pizzoli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
En hvernig getur 22 ára gamall Georgíumaður verið þess umkominn að vera líkt við kónginn sjálfan, Diego Armando Maradona?

Argentína átti Maradona. Öll þekkjum við hann. KA átti Bara Donna (Jóhann Jakobsson). Flest þekkjum við hann. Og nú er Georgía búin að koma sér upp Kvaradona. Þekkið þið hann?

Hefði ég spurt ykkur síðasta haust hefði svarið ábyggilega verið nei en eftir sláttinn á Napoli í ítölsku deildinni í vetur kem ég án efa ekki að tómum kofunum hjá mörgum. Khvicha Kvaratskhelia kallar móðir kappans hann en slíkan tungubrjót nennir auðvitað ekki nokkur maður að leggja á minnið. Kvaradona er miklu þjálla og tengingin augljós, Maradona er hvergi utan Argentínu eins dáður og í Napoli, þar sem hann vann tvo meistaratitla með liðinu, 1987 og 1990, og Evrópukeppni félagsliða sálugu, 1989. Ekkert samt vera að minnast á það við Ásgeir okkar Sigurvinsson. Sem á sinni tíð hefði auðvitað átt að vera umnefndur Sigurdona. Kannski er það ekki of seint! Hvað segið þið? Fer vel í munni.

En hvernig getur 22 ára gamall Georgíumaður verið þess umkominn að vera líkt við kónginn sjálfan, Diego Armando Maradona? Svarið er einfalt: Napoli er í þann mund að vinna sinn fyrsta meistaratitil í 33 ár og þetta kvikfætta sprettundur á stóran þátt í afrekinu. Við erum að tala um 79 stig eftir 31 leik, meðan næsta sveit, Lazio, er með 61. Ekki einu sinni Manchester City gæti unnið þann mun upp á lokametrunum. Það er reyndar alveg frábær hugmynd að færa City yfir í ítölsku deildina, ekki satt?

Svo því sé til haga haldið þá eru þetta engin ærsl í undirrituðum, stuðningsmenn Napoli eru upp til hópa farnir að kalla manninn Kvaradona. Flettið því bara upp! Hann hefur líka verið kallaður Georgíu-Messi og án efa sitthvað fleira. Parlour austursins hljómar líka vel en það er bara sérviska í mér. Í öllu falli allt til að komast hjá því að segja Khvicha Kvaratskhelia – enda getur ekki nokkur maður á vesturhveli jarðar borið það nafn fram.

Tófusprengur af Guðs náð

Og leikstíllinn er alls ekki ólíkur því sem við þekkjum frá argentínsku goðunum tveimur. Kvaradona er tófusprengur af Guðs náð, með frábæra tækni og gerir hiklaust árásir á heilu varnirnar, þvælist þær fyrir honum. Okkar maður er að vísu töluvert lengri í annan endann (og jafnvel báða) en bæði Maradona og Messi, 1 metri og 83 sentimetrar. Sumsé himnalengja í því samhengi. En djöfull er gaman að sjá hann ta-ta-taka af stað, eins og Reykjavíkurdætur myndu orða það. Tæta og trylla – og taka svo lagið með stuðmönnunum á pöllunum. Þau ykkar sem ekki eru þegar komin á YouTube núna ættu að láta taka hjá sér lífsmörkin!

Þetta eru heldur engar ferðir án fyrirheits, eins og hjá sumum, 12 mörk hefur Kvaradona skorað í 27 leikjum í ítölsku deildinni í vetur og lagt upp 10 mörk að auki. Vel frambærileg tölfræði á fyrsta ári í svo sterkri deild. Þá er hann með tvö mörk í Meistaradeildinni en Napoli hneigði sig fremur óvænt og yfirgaf það samkvæmi í átta liða úrslitunum um daginn. Voru það að vonum mikil vonbrigði en önnur atlaga að þeim eyrnastóra verður ugglaust gerð strax á næsta vetri.

Úr sparkfjölskyldu

Kvaratskhelia fæddist í Tbilisi 12. febrúar 2001. Faðir hans, Badri Kvaratskhelia, vann einnig fyrir sér með sparki og enn er von á einum, litli bróðir Kvicha, Tornike, nemur einnig fótmenntir. Sá er þó ekki nema 13 ára. Kvaratskhelia óx úr þéttslegnu grasi hjá Dinamo á heimaslóð og þreytti frumraun sína með aðalliðinu aðeins 16 ára. Bráðger eins og hinir suðuramerísku frændur hans. Okkar maður er greinilega með bein í nefinu því hann lenti eftir fjóra leiki og eitt mark í samningsdeilu við vinnuveitendur sína og eftir að allt hljóp í hnút og Aðalsteinn Leifsson var búinn að segja sig frá málinu fór hann á frjálsri sölu til Rustavi í heimalandinu. Eftir stutt lán til Lokomotiv í Moskvu gekk Kvaratskhelia í raðir Rubin Kazan í Rússlandi 2019, þar sem fyrst fór að kveða að honum fyrir alvöru.

Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu fengu erlendir leikmenn í deildinni svigrúm til að koma sér annað og Kvaratskhelia sneri þá heim til Dinamo Batumi. Það var þó bara skjól um stund og Napoli hreppti hnossið síðasta sumar. Kaupverð var ekki gefið upp en talið er að það hafi numið 10-12 milljónum evra. Vasapeningur. Kappinn rauk upp úr rásblokkunum og varð fyrsti leikmaðurinn í sögu Napoli til að skora þrjú mörk í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum. Leikur hans hefur verið stöðugur í allan vetur og hann á þegar að baki tvær viðurkenningar sem leikmaður mánaðarins í Seríu A.

Hann er að sjálfsögðu orðinn lykilmaður í landsliði Georgíu; með 10 mörk í 20 leikjum.

Eitthvað segir manni að ævintýrið um Kvaradona sé rétt að byrja.