Karl er sagður sérvitur, kröfuharður og átakafælinn en um leið listrænn og viðkvæmur.
Karl er sagður sérvitur, kröfuharður og átakafælinn en um leið listrænn og viðkvæmur. — AFP/Dan Kitwood
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sannleikurinn er sá að Karl yrði miklu hamingjusamari ef hann byggi í Toskana og málaði landslagsmyndir eða legði stund á arkitektúr.“

Karl III, konungur Breta, verður krýndur í Westminster Abbey í næstu viku, laugardaginn 6. maí, 74 ára gamall. Enginn breskur ríkisarfi hefur þurft að bíða jafnlengi eftir að verða krýndur.

Karl hefur aldrei verið óumdeildur en vinsældir hans hafa þó aukist undanfarið og í nýrri skoðanakönnun sögðust 64 prósent bresku þjóðarinnar telja að hann yrði góður konungur. Helmingur þjóðarinnar telur að hann hefði átt að taka við konungdómi eftir móður sína, Elísabetu II, en 35 prósent telja að Vilhjálmur sonur hans hefði átt að taka við ríkinu. Þetta er kannski ekki frábær árangur hjá Karli en þó nokkuð betri en búast hefði mátt við.

Karli er lýst sem óöruggum manni sem búist við að fólki líki ekki við hann. Hann var innhverft og viðkvæmt barn sem fékk ekki þá ástúð sem hann hafði ríka þörf fyrir. Foreldrar hans voru stöðugt uppteknir og á miklum ferðalögum og auk þess lítið fyrir að sýna tilfinningar sínar. Hann átti hins vegar gott samband við fóstru sína og ömmu sína, drottningarmóðurina.

Þrettán ára gamall var hann sendur í heimavistarskóla þar sem honum var miskunnarlaust strítt vegna útstæðra eyrna og vaxtarlags. Sagt er að hann hafi sent grátklökk bréf til foreldra sinna þar sem hann kvartaði undan einelti og ofbeldi og grátbað um að fá að koma heim. Faðir hans, töffarinn Filippus, ráðlagði honum að taka hart á móti hrekkjusvínunum en sonurinn hafði ekkert fram að færa í slagsmálum.

Hann varð síðan fyrsti ríkisarfi Breta til að ganga í háskóla og lagði stund á fornleifafræði, mannfræði og sögu. Hann er afar listrænn, leikur á selló, píanó og trompet og þykir liðtækur vatnslitamálari. Hann er líka rithöfundur en árið 1991 sendi hann frá sér barnabók, The Old Man of Lochnagar, sem segir frá ævintýrum gamals manns sem býr í helli. Karl hafði upprunalega sagt ungum bræðrum sínum, Andrési og Játvarði, söguna til að hafa ofan af fyrir þeim.

Á undan sínum tíma

Á árum áður þótti Karl sérkennilegur um margt. Hann viðurkenndi að tala við plöntur, ræktaði lífrænt grænmeti sem hann setti á markað og seldi, viðraði óspart áhyggjur sínar af ósonlaginu, plasti í hafinu og mengun og skammaðist út í nútímaarkitektúr. Nú er honum hrósað fyrir að hafa verið á undan samtíma sínum.

Hinn listræni konungur á ágæta vini í listaheiminum og þar má nefna Rod Stewart og Stephen Fry. Honum skjátlaðist þó hrapallega í vinavali þegar hann lagði lag sitt við barnaníðinginn Jimmy Savile og leitaði ráða hjá honum varðandi ýmis málefni. Hann vissi ekki af níðingsverkum Saviles en margt í framgöngu Saviles var þó svo einkennilegt að það hefði átt að kveikja viðvörunarljós hjá Karli og svo að segja öllum öðrum.

Karl þykir afar vinnusamur, er stöðugt að og vinnur langt fram á nætur og ætlast venjulega til að starfsfólk hans geri slíkt hið sama. Þessi vinnuharka átti sinn þátt í því að hann sinnti sonum sínum ekki nægilega.

Furðulegt samtal

Ekki þarf að hafa mörg orð um stormasamt hjónaband hans og Díönu prinsessu sem eignuðust synina Vilhjálm og Harry. Karl var viðstaddur báðar fæðingarnar og braut þannig konunglegar hefðir. Karl öfundaðist út í vinsældir eiginkonu sinnar. Þótt hann væri ríkisarfinn var hún stöðugt forsíðuefni og allir vildu hitta hana. Hún var falleg, sjarmerandi og hjartahlý en hann þótti nokkur tréhestur. Hjónabandið varð fljótlega nafnið eitt og Karl leitaði huggunar hjá fyrrverandi ástkonu sinni, Camillu Parker Bowles, sem sögð er greind og skemmtileg kona.

Eitt vandræðalegasta augnablik í lífi Karl varð mánuði eftir að hann og Díana tilkynntu um skilnað sinn. Þá láku hljóðritanir af samtali hans og Camillu í fjölmiðla. Samtalið hafði verið hljóðritað árið 1989 þegar Karl og Díana voru enn gift og Camilla var í hjónabandi. Óhætt er að segja að samtalið hafi verið afar sérkennilegt. Þar sagðist Karl vilja umbreytast í nærbuxur Camillu eða túrtappa til að geta verið sem næst henni. „Dásamleg hugmynd,“ heyrðist Camilla segja. Fjölmiðlar birtu samtalið orðrétt. Það var ekki kátt í höllinni þann daginn.

Harry, sonur Karls, segir í ævisögu sinni Spare að faðir hans taki bangsa sem hann átti sem barn með sér hvert sem hann fer. Að minnsta kosti tveir ævisagnaritarar Karls halda því fram að þegar hann fari í heimsóknir sem standi yfir í nokkurn tíma taki hann með sér klósettsetu en Karl hefur neitað þessu. Hann er sagður gera kröfur um alls konar seremóníur þegar hann fer í bað og borðar morgunmat. Hitastig á vatni þarf að vera hárnákvæmt, eggin soðin í nákvæmlega sjö mínútur, kex og ost á svo að hita við ákveðið hitastig og svo mætti lengi áfram telja. Hann er sagður rjúka upp ef eitthvað af þessu bregst en er fljótur að jafna sig. Karl er sagður skapbráður og á víst til að henda hlutum hingað og þangað ef honum mislíkar.

Þrátt fyrir að missa auðveldlega stjórn á skapi sínu er Karl sagður vera afar átakafælinn. Það er sagt lýsa honum vel að þegar Díana vildi ræða hjónabandsvandræði þeirra við hann var svar hans ætíð eitt og hið sama: að leggja á flótta.

Díana prinsessa er sögð hafa sagt um mann sinn: „Sannleikurinn er sá að Karl yrði miklu hamingjusamari ef hann byggi í Toskana og málaði landslagsmyndir eða legði stund á arkitektúr.“

Óþægilegir aukaleikarar

Nú verður Karl konungur og hin heittelskaða eiginkona hans, Camilla, verður drottning. Samkvæmt skoðanakönnunum eru einungis 14 prósent Breta hlynntir því að Camilla fái drottningartitil. Margir Bretar líta svo á að Elísabet II eigi enn þann titil þótt látin sé. Heitustu aðdáendur Díönu prinsessu eiga síðan afar erfitt með að viðurkenna Camillu sem drottningu. Það er titill sem þeim finnst Díana hafi átt skilið. Skuggi Díönu hvílir reyndar enn yfir Karli, því í sömu skoðanakönnun telja þátttakendur að hún hafi haft jákvæðari áhrif á Bretland en hann.

Á krýningardegi Karls ættu allra augu að vera á honum en þannig verður það ekki. Alvarlegt missætti er milli Harrys, yngri sonar Karls, og annarra í konungsfjölskyldunni. Karl er sagður miður sín vegna þessa.

Harry verður við athöfnina og fjölmiðlar munu rýna í minnstu svipbrigði hans. Einnig verður vandlega fylgst með því hvar Andrés bróðir Karls, vinur níðingsins Jeffreys Epsteins, situr. Karl verður vissulega í aðalhlutverki en þessir aukaleikarar gætu orðið senuþjófar.