Guðjón Jensson
Guðjón Jensson
Alþýðubókasafn Reykjavíkur var sett á stofn í apríl 1923. Það var fyrst á Skólavörðustíg 3 en lengst af í Þingholtsstræti 29a.

Guðjón Jensson

Hinn 19. júlí 1884 birtist grein Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge á Englandi í landsmálaritinu Þjóðólfi undir titlinum „Landsbókasafnið“. Þar hvatti Eiríkur til að efnt yrði til stofnunar almenningsbókasafns í Reykjavík og vísaði til reynslu sinnar frá Englandi þar sem almenningsbókasöfnum væri víða komið á fót. Íbúar Reykjavíkur gætu sótt sér fræðslu og aukna þekkingu á eigin spýtur. Þessi hugmynd varð fyrst að veruleika nær 40 árum síðar.

Tilefni stofnunar Alþýðubókasafnsins í Reykjavík 1923, sem seinna varð Bæjarbókasafn og enn síðar Borgarbókasafn, verður að teljast mjög sérkennilegt að ekki sé meira sagt.

Í heimsstyrjöldinni fyrri bauðst Íslendingum að allur togarafloti landsmanna eins og hann lagði sig væri keyptur af Bretum og Frökkum við góðu verði. Mikill skortur var orðinn á litlum skipum til landvarna og flutninga með ströndum fram við Bretland og Frakkland. Um þær mundir hafði kafbátafloti Þjóðverja valdið mjög miklu tjóni og grisjað umtalsvert skipaflota bandamanna. Auk þess höfðu tundurdufl sökkt fjöldanum öllum af skipum, stórum sem smáum. Þegar þarna var komið sögu vildu Bretar og þá einkum Frakkar kaupa togara Íslendinga á sanngjörnu verði. Það verða að teljast hafa verið kostakjör enda togarafloti Íslendinga bæði orðinn gamall og að mörgu leyti úr sér genginn.

Alþýðuflokkurinn í bæjarstjórn Reykjavíkur var samþykkur þessu samkomulagi með einu ófrávíkjandi skilyrði: að hluta þess fjár sem fengist fyrir skipin, eða 20.000 krónum, yrði varið til að stofna og koma á fót alþýðubókasafni í Reykjavík. Þetta fé verður að teljast umtalsvert því áratug áður var kýrverð um 100 krónur (sjá grein í Skírni 1908 eftir Indriða Einarsson). Kýrverðið var lengi vel ein algengasta og besta verðmiðunin á Íslandi, allt verðlag snerist um afurðir og framleiðslu landsmanna. Hentaði það mjög vel í landbúnaðarsamfélagi þar sem verðlag breyttist mjög lítið gegnum aldirnar. Það þurfti ekki gulltryggingu þessa gjaldmiðils. Síðar, þegar íslenska krónan var fundin upp, varð breyting sem einkum kom mörgum auðmönnum til góða.

Nú hafði þetta allt gengið eftir og snemma vorið 1923 tekur Alþýðubókasafnið í Reykjavík til starfa eins og það hét upphaflega. Var það fyrst í fremur þröngu húsnæði á Skólavörðustíg 3 en nokkru síðar, árið 1928, var það flutt í Ingólfsstræti 12 og enn síðar, 1952, í eitt fegursta húsið í Reykjavík í Þingholtsstræti 29a. Þar var starfsemi þess lengi vel í þessu fagra húsi sem Obenhaupt kaupmaður í Reykjavík hafði látið byggja af mikilli rausn á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Það var nefnt Esjuberg eftir að maður einn, Ólafur Johnsen stórkaupmaður og stofnandi fyrstu heildsölunnar á Íslandi, Ó Johnson & Kaaber, hafði fest kaup á húsinu. Móðir hans, Ingibjörg, var frá Esjubergi á Kjalarnesi.

Um síðustu aldamót fluttist starfsemi safnsins í Grófarhús og þetta fagra hús, Esjuberg, var selt athafnamanni.

Á árunum kringum 1970 fór ég oft sem unglingur úr Hlíðunum í Borgarbókasafnið við Þingholtsstræti. Lestrarsalurinn á efri hæðinni var opinn og þar var alltaf gott næði til lestrar og undirbúnings í námi mínu við Menntaskólann í Hamrahlíð. Starfsfólkið var alúðlegt en hafði góða umsjón með að öllum tilskildum reglum væri fylgt.

Á þessum merku tímamótum óska ég safninu og starfsfólki þess farsældar enda eiga öll söfn landsmanna allt hið besta skilið.

Höfundur er fv. bókasafnsstjóri, leiðsögumaður og tómstundablaðamaður til 40 ára og eldri borgari í Mosfellsbæ.