Á kafbátaslóðum Freigáturnar Mecklenburg-Vorpommern (F218) og HDMS Hvidbjørnen (F360) sjást hér taka sér stöðu fyrir aftan freigátuna HDMS Niels Juel (F363) undan ströndum Færeyja. Að baki þeim sést færeyska strandgæsluskipið Brimil. Morgunblaðinu var nýverið boðið að fylgjast með kafbátaleitaræfingu þessara skipa og nutu þau aðstoðar úr lofti.
Á kafbátaslóðum Freigáturnar Mecklenburg-Vorpommern (F218) og HDMS Hvidbjørnen (F360) sjást hér taka sér stöðu fyrir aftan freigátuna HDMS Niels Juel (F363) undan ströndum Færeyja. Að baki þeim sést færeyska strandgæsluskipið Brimil. Morgunblaðinu var nýverið boðið að fylgjast með kafbátaleitaræfingu þessara skipa og nutu þau aðstoðar úr lofti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kafbátaleit er hópíþrótt þar sem mörg ólík vopnakerfi og hersveitir Atlantshafsbandalagsins (NATO) vinna saman sem ein sterk heild. Til að hægt sé að elta uppi kafbát undir yfirborðinu þarf allt að ganga sem skyldi og koma skip, bátar, þyrlur og flugvélar að verkefninu

Frá æfingu NATO

Kristján H. Johannessen

Árni Sæberg

Kafbátaleit er hópíþrótt þar sem mörg ólík vopnakerfi og hersveitir Atlantshafsbandalagsins (NATO) vinna saman sem ein sterk heild. Til að hægt sé að elta uppi kafbát undir yfirborðinu þarf allt að ganga sem skyldi og koma skip, bátar, þyrlur og flugvélar að verkefninu. Og þessa íþrótt kann NATO afar vel. Þetta sagði Stephen G. Mack, undiraðmíráll í bandaríska sjóhernum, í samtali við Morgunblaðið, um síðastliðna helgi.

Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins fóru í boði Atlantshafsbandalagsins til Færeyja til að fylgjast með kafbátaleitaræfingu bandalagsins, Dynamic Mongoose, sem haldin er dagana 26. apríl til 5. maí. Er um að ræða æfingu sem haldin hefur verið árlega frá árinu 2012 og fer hún fram á hafsvæðinu á milli Íslands og Noregs. Æfingunni lýkur með heimsókn nokkurra herskipa til Reykjavíkur.

Tvisvar á ári halda herskip, bátar og loftför NATO til æfinga þar sem áhersla er lögð á kafbátaleit. Eru það æfingarnar Dynamic Mongoose í Norður-Atlantshafi og Dynamic Manta í Miðjarðarhafi. Hitastig sjávar, mismunandi dýpt og fjölbreyttur sjávarbotn felur í sér áskorun og kallar um leið á mikla þjálfun eigi kafbátaleit að skila árangri. Í ljósi þessa hefur Atlantshafsbandalagið ákveðið að æfa kafbátavarnir á þessum hafsvæðum.

GIUK-hliðið hernaðarlega mikilvægt

Frá Þórshöfn í Færeyjum var siglt með dönsku freigátunni HDMS Niels Juel (F363) og stefnan sett á æfingasvæði NATO þar sem fyrir voru freigáturnar HDMS Hvidbjørnen (F360) frá Danmörku og Mecklenburg-Vorpommern (F218) frá Þýskalandi. Færeyska strandgæsluskipið Brimil var einnig með í för þennan dag. Skipunum til aðstoðar voru þyrlur af gerðinni MH-60R Seahawk og Sea Lynx Mk88. Þessi vopnakerfi ásamt kafbátaleitarflugvélum vinna náið saman þegar leita skal að kafbáti undir yfirborðinu.

Allt frá tímum kalda stríðsins hefur NATO dregið línu frá Grænlandi um Ísland til Bretlands, GIUK-hliðið svokallaða. Hernaðarlega skiptir hliðið enn miklu máli, að sögn Macks.

„Undanfarin ár höfum við fært þungamiðju Mongoose-æfingarinnar. Hefur hún til að mynda verið við Noreg eða suður af Íslandi, en í fyrra var þungamiðjan í GIUK-hliðinu. Þá hófst æfingin við Ísland og færðist svo smám saman í austurátt og lauk í Noregi. Í ár hófst æfingin hins vegar við Þrándheim, færist í vesturátt og lýkur á Íslandi. Við viljum leggja áherslu á GIUK-hliðið vegna mikilvægis þess en einnig vegna þeirra krefjandi aðstæðna sem hér eru,“ sagði Mack og hélt áfram:

„Þessi æfing veitir okkur færi á að þjálfa og starfa saman sem ein sterk heild á hafsvæði sem er afar krefjandi. Kafbátaleitarþjálfun getur verið ólík innan ríkja NATO, en þegar við komum saman fáum við tækifæri til að þjálfa og samræma allar okkar aðgerðir. Og þetta er einmitt styrkur bandalagsins – við erum sterkari saman,“ sagði hann og bætti við að kafbátahernaður væri hópíþrótt þar sem hver þátttakandi kemur með sína sérhæfðu þekkingu og getu að borðinu.

„Og ég myndi segja að NATO væri mjög sterkur leikmaður í þessari íþrótt. Leikurinn er mjög margþættur og því er afar mikilvægt að þjálfa vel og reglulega. Ef horft er um öxl þá höfum við með tímanum náð góðum tökum á kafbátahernaði og það sést á æfingum sem þessari. Aðildarríki NATO eru mjög öflug þegar þau starfa saman sem ein heild.“

Aðspurður sagði Mack Norður-Atlantshaf alltaf hafa verið Atlantshafsbandalaginu mikilvægt og að ekki sé útlit fyrir breytingu þar á.

„Vissulega er hægt að finna menn sem hafa mismunandi skoðun á þessu. En landafræði er og verður alltaf landafræði. Þetta svæði sem við erum nú að þjálfa kafbátaleit á hefur í gegnum söguna verið lykilsvæði þegar kemur að kafbátahernaði. Norður-Atlantshaf er svæði sem við verðum að vera í toppformi á. Í ljósi þessa munum við æfa hér áfram árlega.“

Ísland mikilvægt í augum sjóhersins

Nýverið var greint frá því að kjarnorkukafbátar Bandaríkjanna gætu nú sótt þjónustu frá Helguvík á Reykjanesi. Mack undiraðmíráll sagði þessa ákvörðun afar mikilvæga.

„Ísland hefur alltaf verið mikilvægt í augum bandaríska sjóhersins og við erum afar þakklát stjórnvöldum fyrir að leyfa flug kafbátaleitarflugvéla þaðan. Það er gríðarlega mikilvægt að geta gert það. Á þessari æfingu taka meðal annars þátt leitarflugvélar frá Íslandi auk Bretlands og Noregs. Sú staðreynd að kafbáturinn San Juan sótti þjónustu við Ísland skiptir Bandaríkin miklu máli. Og verandi sjálfur kafbátasjóliði þá veit ég að sjóherinn kann að meta þetta. Við stjórnum kjarnorkukafbátum okkar af mikilli ábyrgð og höfum vegna þess aðgengi að 150 höfnum um heim allan. Svona samvinna og vinátta er mikilvæg fyrir Atlantshafsbandalagið.“

Spurður hvort hann telji norðurflota Rússlands munu gegna stærra hlutverki í framtíðinni sagði Mack: „Á þessu svæði hefur ekkert orðið minna mikilvægt. Það þarf áfram að fylgjast grannt með norðurflotanum og restinni af sjóher Rússlands. Þeir búa enn yfir talsverðri getu og það er þess vegna sem varnarbandalagið NATO er svo mikilvægt.“

Snjalltækin skilin eftir fyrir utan

Um borð í Niels Juel var sett á svið neyðarástand til að sýna fram á færni skipverja við slíkar aðstæður. Tilkynnt var um stjórnlausan eld í einu af vélarrýmum skipsins, drepið var á vélunum og salurinn fylltur af reyk. Viðstaddir fengu svo að fylgjast með sjóliðum æfa slökkvistarf af miklum móð.

„Eldur hér er það versta sem getur komið fyrir,“ sagði einn skipverjanna. „Hann getur auðveldlega kallað fram mikla sprengingu sem leitt getur til altjóns. Það er því mikilvægt að ná fljótt tökum á erfiðum aðstæðum.“

Skipherra Niels Juel veitti jafnframt Morgunblaðinu leyfi til að líta inn í aðgerðastjórn freigátunnar, eitt mikilvægasta rými skipsins, en þaðan er öllum vopnakerfum stjórnað. Ekki er heimilt að ganga inn í þetta rými nema skilja eftir öll snjalltæki fyrir utan. Ástæða þess er sú að hægt er að nýta snjalltæknina til að njósna um þá viðkvæmu starfsemi sem þarna fer fram. Myndataka var leyfð en henni stjórnað af skipverjum. Þarna inni má ekki taka mynd af hverju sem er.

Thorsten Marx, undiraðmíráll í þýska sjóhernum og stjórnandi fastaflota NATO, tekur undir með félaga sínum Stephen G. Mack. Atlantshafið hefur alltaf verið bandalaginu mikilvægt. Breytt öryggisástand kallar hins vegar á frekari þjálfun.

„Þessi æfing hér er haldin fyrir opnum tjöldum og ögrar á engan hátt neinum. Við ætlumst til hins sama af rússneska sjóhernum. Frá því að ég tók yfir stjórn þessa flota höfum við orðið vitni að fagmennsku í báðum fylkingum. Og þannig viljum við halda hlutunum áfram,“ sagði hann.