Prýði Stórhýsið Víðimelur 29 hefur verið tekið í gegn og kallast á við Víðimel 27. Einar Sveinsson teiknaði húsin.
Prýði Stórhýsið Víðimelur 29 hefur verið tekið í gegn og kallast á við Víðimel 27. Einar Sveinsson teiknaði húsin. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil breyting hefur orðið á ásýnd stórhýsisins að Víðimel 29 undanfarin misseri. Tæp þrjú ár eru nú síðan endurbætur hófust á húsinu og þær hafa sannarlega skilað sínu. Eitt fallegasta húsið í Vesturbænum er smám saman að taka á sig rétta mynd

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikil breyting hefur orðið á ásýnd stórhýsisins að Víðimel 29 undanfarin misseri. Tæp þrjú ár eru nú síðan endurbætur hófust á húsinu og þær hafa sannarlega skilað sínu. Eitt fallegasta húsið í Vesturbænum er smám saman að taka á sig rétta mynd.

Húsið hafði staðið autt um hríð eftir að kínverska sendiráðið var flutt þaðan árið 2012 og viðhaldi var ekki sinnt.

Því var það mörgum fagnaðarefni þegar í ljós kom að Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu hafði eignast húsið og boðaði gagngerar endurbætur haustið 2020.

Húsið fært í upprunalegt horf

„Þetta er myndarlegt hús og ég held að það verði mjög skemmtilegt þegar endurbótum er lokið,“ sagði Friðbert í samtali við Morgunblaðið á þeim tíma. Friðbert sagði í gær að hann byggist við að framkvæmdum við Víðimel 29 lyki í haust. Hann hyggst sjálfur búa á efstu hæðum hússins.

Það var Einar Sveinsson arkitekt sem teiknaði húsið sem er 724,5 fermetrar að stærð og byggt árið 1946. Endurbæturnar fólust meðal annars í því að breyta innra skipulagi, fjarlægja reykháf sem sneri að götuhlið, stækka svalir, síkka glugga í kjallara og setja nýja kvisti og þakglugga á húsið.

Þannig átti að færa það í upprunalegt horf eftir að það hafði lengi verið notað undir skrifstofur og móttöku. Þegar framkvæmdir hófust kom í ljós að ástand hússins var svo slæmt að skipta þurfti um allar lagnir, múrverk, þak og glugga.

Glæsileg hlið við hlið

Eins og sjá má kallast húsið nú á við húsið sem stendur við hliðina, Víðimel 27, og er mikil prýði að þeim saman. Sem kunnugt er var Einar Sveinsson höfundur að skipulagi Vesturbæjarins og því er það eflaust mörgum ánægjuefni að sjá tvö af hans fallegustu húsum svo glæsileg hlið við hlið.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon