Flutningar Lagarfoss við höfn á Sauðárkróki fyrir nokkrum dögum. Tíðari ferðir á strönd mæta viðskipavinum.
Flutningar Lagarfoss við höfn á Sauðárkróki fyrir nokkrum dögum. Tíðari ferðir á strönd mæta viðskipavinum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eimskip hefur nú síðar í maí vikulegar strandsiglingar með viðkomu í höfnum á Vestfjörðum og Norðurlandi. Flutningaskipið Selfoss verður á þessari leið frá og með 19. maí. „Við finnum fyrir mikilli eftirspurn okkar viðskiptavina eftir efldum strandflutningum

Eimskip hefur nú síðar í maí vikulegar strandsiglingar með viðkomu í höfnum á Vestfjörðum og Norðurlandi. Flutningaskipið Selfoss verður á þessari leið frá og með 19. maí. „Við finnum fyrir mikilli eftirspurn okkar viðskiptavina eftir efldum strandflutningum. Þar koma sterkt inn sjónarmið um umhverfisvæna flutningsmáta, vel tímasetta áætlun og öryggi í afhendingu alls varnings,“ segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptastýringar hjá Eimskip. „Atvinnulíf víða út um land hefur styrkst mjög á síðustu misserum sem aftur þýðir meiri flutninga á aðföngum, afurðum og öðru. Hér má nefna fiskeldið á Vestfjörðum og á Norðurlandi hafa bæði sjávarútvegur og iðnframleiðsla verið í sókn.“

Áætlun Eimskips um strandflutningana er nú sú að Selfoss, sem tekur 698 gámaeiningar, leggi upp frá Reykjavík á fimmtudegi og taki síðan Sauðárkrók, Húsavík, Akureyri og síðast Ísafjörð. Til Reykjavíkur er aftur komið síðdegis á mánudegi. Sú tímasetning rímar við að Ameríkuskip félagsins leggja í haf á þriðjudegi, rétt á undan Evrópuskipunum. Varningur verði þá fluttur á milli skipa í Sundahöfn og allt á þetta að ganga mjög greiðlega fyrir sig. Þá má geta þess að skip Eimskips hafa vikulega viðkomu í Vestmannaeyjum þegar þau sigla svonefnda gula leið til Færeyja, Bretlands og Rotterdam. Austfjörðum er sinnt þegar skip á Rauðu leiðinni stoppa á Reyðarfirði á leið til Færeyja og Skandinavíu.

„Þetta er þjónusta við landsbyggðina sem bætir samkeppnishæfni fyrirtækja þar. Við erum full tilhlökkunar gagnvart þessu verkefni,“ segir Björn Einarsson.

Sú var tíðin að strandsiglingar þóttu ekki henta vel, m.a. sakir krafna um hraða. Vara seld í dag átti að vera komin til viðtakenda úti á landi að morgni. Því voru nær allir vöruflutningar Eimskips innanlands settir á bíla. Nú segir Björn þessa tímapressu ekki jafnþunga. Þar ráði til dæmis bættar geymsluaðferðir á ferskum sjávarafurðum. Það sjónarmið í viðskiptalífinu að kolefnisspor flutninga sé sem minnst hafi líka áhrif. Siglingar séu mun umhverfisvænni en akstur eða flug. sbs@mbl.is