Sigurhanna Erna Gísladóttir fæddist 18. mars 1941. Hún lést 3. apríl 2023.

Útför hennar fór fram 17. apríl 2023.

Elsku frænka mín. Ég kveð þig með sorg í hjarta en líka þakklæti. Þú varst mér alltaf svo góð. Tókst mér alltaf svo vel, varst alltaf örlát og rausnarleg við mig. Mættir alltaf í öll afmæli og viðburði sem við héldum og stundum eini fulltrúi minnar fjölskyldu þegar fólk var hingað og þangað um heiminn. Þú sýndir strákunum mínum svo mikið örlæti og áhuga. Þetta allt þótti mér mikið vænt um. Það var alltaf gaman að koma í Viðjugerðið, þar var líf og fjör fyrir lítinn dreng; eldri frændur og frænka sem ég fylgdist með í lotningu, óheftur aðgangur að VHS-tækinu, Enter the Dragon, The Good The Bad And The Ugly og síðast en ekki síst Hello Dolly. Þú alltaf með svo góðar veitingar og af svo miklum myndarskap. Ógleymanleg ferðalögin með ykkur á hestamannamótin og í fallega bústaðinn ykkar við Gíslholtsvatn. Þótt þú hafir ekki haft mikinn áhuga á hestunum varstu alltaf með, keyptir kúlur og varst hrókur alls fagnaðar. Og stuðið í kringum kappreiðarnar var engu líkt. Takk fyrir allt elsku frænka, vináttuna, kærleikann og umhyggjuna. Ég mun alltaf minnast þín með hlýju og ást. Ég sendi öllum aðstandendum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Jóhann (Jói) frændi.

Elsku Hanna okkar er fallin frá.

Við áttum yndislegar stundir saman og vorum samferða í um 70 ár.

Hanna var æskuvinkona Bíbíar (Kristínar Guðjónsdóttur) og mikið heima hjá okkur alla tíð. Hún varð fljótt eins og ein af okkur systkinunum. Alla tíð kallaði hún foreldra okkar fósturforeldra sína. Enda átti hún afar gott og fallegt samband við þau.

Hún var kölluð Hanna „hrænka“ í okkar fjölskyldu og var henni yfirleitt boðið í flest boð ættarinnar, hvort sem var um að ræða afmæli, skírnarveislur eða jólaboð.

Þá var Hanna mætt með sitt fallega bros, hress og glæsileg eins og hennar var von og vísa. Alltaf svo vel til fara í pinnaháum skóm og með rauðan varalit. Hún var afar glæsileg kona.

Það var oft mikið fjör þegar Hanna kom í heimsókn í gamla daga og áttu þær Bíbí til að rúlla upp mottunum af gólfinu og svo var dansað og tjúttað af mikilli snilld fyrir okkur hinar.

Það var oft kátt á hjalla, mikið dansað og mikið hlegið.

Við minnumst Hönnu sem kraftmikillar, drífandi og skemmtilegrar vinkonu. Við kveðjum hana með söknuði en þökkum henni samfylgdina í gegn um lífið.

Blessuð sé minning elsku Hönnu okkar.

Fjölskyldu Hönnu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Þínar fóstursystur og vinkonur,

Kristín Guðjónsdóttir (Bíbí), Ólöf Guðjónsdóttir (Lóa), Sigurbjörg Guðjónsdóttir (Sibba), Jóhanna Guðjónsdóttir (Jobba).