Pönkari Kristín Lárusdóttir sellóleikari, raftónlistarkona og kvæðamaður verður í Kaldalóni á laugardaginn.
Pönkari Kristín Lárusdóttir sellóleikari, raftónlistarkona og kvæðamaður verður í Kaldalóni á laugardaginn. — Morgunblaðið/Arnþór
„Það er eitthvað við þennan gamla rímnakveðskap og þjóðlögin sem heillar mig og hefur gert síðan ég var ung stelpa,“ segir Kristín Lárusdóttir sellóleikari, raftónlistarmaður og kvæðamaður sem á laugardaginn næsta fagnar útgáfu hljómplötunnar Kríu í Kaldalóni í Hörpu

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Það er eitthvað við þennan gamla rímnakveðskap og þjóðlögin sem heillar mig og hefur gert síðan ég var ung stelpa,“ segir Kristín Lárusdóttir sellóleikari, raftónlistarmaður og kvæðamaður sem á laugardaginn næsta fagnar útgáfu hljómplötunnar Kríu í Kaldalóni í Hörpu.

Kría er þriðja platan Kristínar en fyrir hefur hún gefið út tvær stuttskífur, Hefring árið 2013 og þremur árum síðar Himinglævu. Á þeim báðum sækir Kristín innblástur í íslenskan tónlistararf, íslenskan rímnakveðskap og að hennar eigin sögn í náttúru landsins.

Þjóðverjar áhugasamir

Það fer enda ekki fram hjá neinum sem hlustar að hér er eitthvað sér-íslenskt á ferðinni; yfir lágstemmdum og á köflum dáleiðandi sellóleik í bland við rafhljóðleik kveður Kristín gamlar rímur og kvæði svo úr verður magnaður seiður. Reyndar segir hún að kveði við annan tón á nýju plötunni.

„Núna er ég komin í miklu meira raftónlistarpönk. Teknópopp og hasar.“

Kristín er klassískt menntuð í sellóleik en mjög snemma á námsárunum togaði raftónlistin í hana.

„Ég lærði á selló í Tónlistarskóla Kópavogs en fann mjög fljótlega að það var eitthvað við raftónlistina sem heillaði.“

Fór svo að Kristín útskrifaðist fyrst nemenda með framhaldspróf í raftónlist frá tónlistarskólanum. Eftir tónlistarnámið á Íslandi lá leiðin til Finnlands en svo seinna til Þýskalands.

„Ég endaði á að búa lengi í Berlín þar sem ég sótti námskeið og tónlistarvinnustofur. Ferðaðist líka töluvert um Þýskaland með tónlistina mína. Þjóðverjar eru sérstaklega áhugasamir og forvitnir um Ísland og íslenska tónlist og ég fékk víðast hvar mjög góðar viðtökur.“

Hvaðan kemur þessi áhugi þinn á að tengja raftónlist við tónlistararfinn og sér í lagi við rímnakveðskap?

„Ég hef haft áhuga á íslenskum þjóðlögum síðan ég var mjög ung. Það er eitthvað við þjóðlögin sem snertir mig svo djúpt. Þetta kemur ómengað beint frá fólkinu. Frá hinum venjulega alþýðumanni. Þetta er listform sem venjulegt fólk bjó til og flutti til dæmis þegar það var að vinna eða þegar það þurfti að róa börnin.“

Kvæðamaður og grúskari

Hefur íslensk þjóðlagatónlist einhver séreinkenni?

„Ég tók eftir því þegar ég bjó í Finnlandi að það má heyra ákveðinn samhljóm þar og sennilega má heyra ættartengsl víðar, en rímnakveðskapurinn – rímurnar, og þá á ég við formið – er séríslenskur.“

Fyrir utan að vera tónlistarmaður og tónlistarkennari er Kristín einnig virkur meðlimur í Kvæðamannafélaginu Iðunni.

„Já ég er kvæðamaður. Hef rosalega gaman af því að grúska í rímnakveðskapnum og hlusta á gamlar upptökur af fólki að kveða. Þetta er arfur sem hefur lifað með okkur til dagsins í dag og það er enn verið að búa til nýjar rímur og vísur og ég hef verið að taka þær upp á mína arma og búa til mín eigin lög/stemmur.“

Finnst þér mikilvægt að viðhalda þessari hefð?

„Já, mér finnst það. Það er hverri þjóð hollt að þekkja sínar tónlistarrætur. Svo heyrir maður að læsi sé á undanhaldi og rímurnar gætu komið að góðum notum þar. Þær stuðla að lestri og ýta undir lesskilning. Það má finna nánast allt í rímunum.“

Þula

Búkur strjúki burt vakur,

bolur óþolur, í holur,

marður, barður, meinsærður

meltist, smeltist, fráveltist;

dökkur sökkvi djöfuls skrokkur

í dimmu stimmu þá rimmu;

okaður, slokið illskuhrak

hjá öndum, þeim fjöndum, í böndum;

nísti hann svo niður

nálægur kliður,

skemmdur, hrifinn,

skrykktur, hnykktur

skammar limur og liður

fyrir orðanna hniður

og ummælanna sniður.