Hetjan Mariam Eradze reyndist hetja Valskvenna í sætum sigri liðsins á Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta í gær.
Hetjan Mariam Eradze reyndist hetja Valskvenna í sætum sigri liðsins á Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta í gær. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Mariam Eradze var hetja Vals er liðið vann 25:24-sigur á Stjörnunni í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta á Hlíðarenda í gærkvöldi. Mariam skoraði sigurmarkið með síðasta skoti leiksins, þremur sekúndum fyrir leikslok

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Mariam Eradze var hetja Vals er liðið vann 25:24-sigur á Stjörnunni í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta á Hlíðarenda í gærkvöldi. Mariam skoraði sigurmarkið með síðasta skoti leiksins, þremur sekúndum fyrir leikslok.

Valur er nú með 2:1-forskot í einvíginu og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að komast í úrslitaeinvígið.

Valur var með 15:11 forystu í hálfleik og virtist ætla að vinna sannfærandi sigur. Stjörnukonur neituðu hins vegar að gefast upp og með góðum seinni hálfleik tókst gestunum að jafna. Valur átti hins vegar lokaorðið.

Thea Imani Sturludóttir skoraði sjö mörk fyrir Val og Þórey Anna Ásgeirsdóttir gerði fimm. Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna og Helena Rut Örvarsdóttir gerði átta. Stjarnan þurfti hins vegar meira framlag frá fleiri leikmönnum.

Fjórði leikurinn fer fram í Mýrinni í Garðabæ á laugardaginn kemur og fær Valur þá tækifæri til að koma sér í úrslit, á meðan Stjarnan freistar þess að knýja fram oddaleik á Hlíðarenda.

Leik ÍBV og Hauka var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun í gærkvöld. Fjallað er um hann á mbl.is/sport.