Fjölskyldan Efri röð: Vignir Thoroddsen og Björn Thoroddsen. Neðri röð: Freyja Åkesson, Erla, Stefán Thoroddsen og Sigríður Thoroddsen.
Fjölskyldan Efri röð: Vignir Thoroddsen og Björn Thoroddsen. Neðri röð: Freyja Åkesson, Erla, Stefán Thoroddsen og Sigríður Thoroddsen.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erla Hannesdóttir fæddist 4. maí 1923 í Kaupmannshúsinu á Bíldudal. Hún ólst upp á ástríku mannmörgu heimili yngst níu systkina og nú sú eina eftirlifandi. Hannes faðir hennar keypti Bíldudalsverslun af Pétri Thorsteinssyni árið 1905 en var áður…

Erla Hannesdóttir fæddist 4. maí 1923 í Kaupmannshúsinu á Bíldudal. Hún ólst upp á ástríku mannmörgu heimili yngst níu systkina og nú sú eina eftirlifandi.

Hannes faðir hennar keypti Bíldudalsverslun af Pétri Thorsteinssyni árið 1905 en var áður verslunarstjóri hjá fyrirtæki Péturs, sem þá var að líðast upp eftir mörg velsældarár. Pétur hefur oft verið kallaður Bíldudalskóngurinn vegna þeirra stórtæku umsvifa sem hann hafði á staðnum. Á Bíldudal bjuggu á þessum tíma móðursystkini Erlu, þau Guðrún, Jakobína og Böðvar ásamt fjölskyldum sínum. Jón Bjarnason, föðurbróðir Erlu, bjó þar líka ásamt fjölskyldu. Hún var þannig umvafin frænkum og frændum og þorpið iðaði af fjöri og athafnasemi.

Fjölskyldan varð svo fyrir miklu áfalli árið 1929 þegar þau þurftu að flýja brennandi hús er bæði verslun og kaupmannshúsið brunnu til kaldra kola, en þá var Erla aðeins sex ára. Urðu þau þá að flytja í miklu minna húsnæði og viðbrigðin mikil. Skammt er síðan stórra högga á milli þegar heimilisfaðirinn lést snögglega árið 1931 aðeins 53 ára gamall. Sigríður, nýorðin ekkja, varð þá að spila úr hlutunum eftir bestu getu en naut stuðnings ættingja í erfiðleikunum. Hún flutti síðar að Litlu-Eyri ásamt Bjarna syni sínum og fjölskyldu og bjó þar til æviloka.

Erla fór í húsmæðraskólann á Ísafirði þegar hún hafði aldur til og tók próf í Verzlunarskóla Íslands. Heima á Bíldudal fékk hún vinnu hjá Gísla Jónssyni athafnamanni bæði á skrifstofu og í verslun. Hún kynntist og trúlofaðist Birni Péturssyni en hann fórst í Þormóðsslysinu árið 1943 þegar vélskipið Þormóður frá Bíldudal strandaði úti af Garðsskagavita og allir um borð fórust.

Þetta slys hafði hræðileg lamandi áhrif á Bíldudal og þar var mikil sorg, þar sem hver einasta fjölskylda í þorpinu missti ástvini. Nokkru síðar bankaði ástin á dyrnar hjá Erlu þegar hún kynntist Stefáni Thoroddsen, ungum og laglegum manni úr Arnarfirðinum og ekki spillti fyrir að hann spilaði á harmonikku á böllum og allir vita hvað það gerir fyrir unga menn. Stefán var sonur Ólafs Thoroddsen skipstjóra í Vatnsdal og Ólínu Andrésdóttur húsfreyju þar en var alinn upp af móðursystur sinni Vigdísi Andrésdóttur ljósmóður og manni hennar, Einari Gíslasyni bónda á Fífustöðum og víðar.

Stefán vann fyrst hjá Kaupfélagi Bílddælinga sem verslunarmaður, en hann var Samvinnuskólagenginn, og síðar sem kaupfélagsstjóri. Fjölskyldan flutti svo suður árið 1956 og börnin orðin þrjú, Sigríður, Vignir og Freyja. Fyrst bjuggu þau í Hafnarfirði þar sem Björn sá yngsti fæddist en hann er gaflari af guðs náð. Síðar flutti fjölskyldan til Reykjavíkur þar sem Erla starfaði í mörg ár hjá Sjóklæðagerðinni. Stefán varð bankaútibússtjóri hjá Búnaðarbanka Íslands allan sinn starfsferil eftir hann flutti suður. Stefán lést 15.3.1997.

Erla býr núna á Hrafnistu og unir sér vel, fylgist með öllu þrátt fyrir skerta sjón og heyrn. „Ég er komin með svokallaða lögblindu, það eru þrjú ár síðan, ég get ekkert lesið og get ekki hringt í símann. En það bjargar mér að ég verð aldrei blind og get gengið um og svoleiðis. Ég fer í leikfimi á hverjum degi, en ég fór um lengri tíma á hverjum degi í Laugardalslaugina. Svo er lesið fyrir mann. Það er mikið gert fyrir mann hérna, ég gæti ekki verið á betri stað og númer eitt, tvö og þrjú er öryggið.“

Fjölskylda

Börn Erlu og Stefáns: 1) Sigríður f. 24.5. 1946, grunnskólakennari, búsett í Reykjavík. Fyrrverandi maki: Guðjón Smári Agnarsson viðskiptafræðingur. Börn: Stefán Bryndís og Davíð; 2) Vignir Einar, f. 18.7. 1948, d. 20.10. 2021, aðstoðarforstjóri, var búsettur í Kópavogi. Maki: Kristín Guðmundsdóttir, menntaskólakennari. Barn: Hanna Kristín; 3) Freyja, f. 15.11. 1953, hjúkrunarfræðingur, búsett í Lundi, Svíþjóð. Maki: Bo Åkesson kerfisfræðingur, d. 8.4. 2013. Börn: Henrik, Björn og Max; 4) Björn, f. 16.2. 1958, tónlistarmaður, búsettur í Hafnarfirði. Maki: Elín Margrét Erlingsdóttir bankastarfsmaður. Börn: Erlingur Óttar, Stefán Atli og Steinunn Erla. Afkomendur Erlu eru 20 og 2 á leiðinni.

Systkini Erlu voru Páll Stephensen Hannesson, skipstjóri á Bíldudal, f. 29.7. 1909, d. 21.2. 2012; Kristín Hannesdóttir, húsmóðir á Bíldudal, f. 1.10. 1910, d. 11.8. 1999; Bjarni Hannesson, bóndi á Litlu-Eyri í Bíldudal, f. 30.5. 1912, d. 7.3. 1968; Theodór Hannesson, f. 16.11. 1913, d. 23.10. 1916; Agnar Hannesson, f. 12.4. 1916, d. 12.10. 1916; Arndís Hannesdóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 30.6. 1917, d. 27.6. 2015, og Þórey Hannesdóttir, bankaritari í Reykjavík. f. 26.9. 1919, d. 14.12. 1994.

Foreldrar Erlu voru hjónin Hannes Stephensen Bjarnason kaupmaður, f. 26.8. 1878, d. 23.12. 1931 og Sigríður Pálsdóttir húsmóðir, f. 15.2. 1887, d. 29.12. 1966.