Tækifæri Eiðistorg á Seltjarnarnesi þykir henta vel fyrir götumarkað.
Tækifæri Eiðistorg á Seltjarnarnesi þykir henta vel fyrir götumarkað. — Morgunblaðið/Hari
„Allir sem við hittum eru mjög áhugasamir um að koma. Þetta lítur út fyrir að verða góður og skemmtilegur dagur,“ segir Alexandra Hermannsdóttir sem stendur fyrir markaði á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi á laugardaginn næsta milli klukkan 10-17

„Allir sem við hittum eru mjög áhugasamir um að koma. Þetta lítur út fyrir að verða góður og skemmtilegur dagur,“ segir Alexandra Hermannsdóttir sem stendur fyrir markaði á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi á laugardaginn næsta milli klukkan 10-17.

Alexandra og mamma hennar, Íris Gústafsdóttir hárgreiðslukona, hafa séð um skipulagningu og viðtökur hafa verið framar vonum. „Við verðum með 34 bása og þeir eru allir fullbókaðir,“ segir Alexandra sem segir þær mæðgur hafa viljað hleypa auknu lífi í Eiðistorg. „Hér eru Hagkaup og Vínbúðin auk smærri verslana en ekki nógu mikið líf. Það var markaður hérna fyrsta laugardag í mánuði fyrir 10-15 árum sem var alltaf uppbókað á. Þetta er frábær staður og við vildum gjarnan endurvekja þá stemningu.“

Sölubásarnir verða til helmings með nýjar og notaðar vörur. Af notuðum vörum verða til dæmis búsáhöld, föt og leikföng en af þeim nýju til að mynda prjónavörur, keramikvörur, skartgripir og ýmsir listamenn. „Ég er sjálf lærð hárgreiðslukona og býð upp á að gera fastar fléttur. Svo verður kandíflossvél og margt fleira,“ segir Alexandra. hdm@mbl.is