Náttúruvætti Ægifagur Brúarfoss fellur hér fram. Á fossbarminum er þröng gjá sem Brúará fellur að stórum hluta í. Rauðafell í baksýn til hægri.
Náttúruvætti Ægifagur Brúarfoss fellur hér fram. Á fossbarminum er þröng gjá sem Brúará fellur að stórum hluta í. Rauðafell í baksýn til hægri. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tilbúinn er og öllum fær akvegur sem liggur að Brúarfossi í Brúará í Bláskógabyggð. Staðurinn hefur verið afar fjölsóttur á síðustu árum og þar höfðu mikil áhrif myndir af fossinum sem birtust á ferðamannavefnum Tripadvisor

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Tilbúinn er og öllum fær akvegur sem liggur að Brúarfossi í Brúará í Bláskógabyggð. Staðurinn hefur verið afar fjölsóttur á síðustu árum og þar höfðu mikil áhrif myndir af fossinum sem birtust á ferðamannavefnum Tripadvisor. Þar var fegurð staðarins rómuð svo fólk fór í stórum stíl að leggja leið sína þangað. Brúará er því sem næst miðja vegu milli Laugarvatns og Geysis og þegar farið er að fossinum er bílum lagt á stæði rétt austan við brúna yfir ána og þaðan svo gengið inn til landsins um fjóra kílómetra.

Vann verkið sjálfur með eigin vélakosti

Nú hefur verið útbúinn vegur vestan ár, um það bil þriggja kílómetra löng braut og fyrir enda hennar, skammt frá fossinum, var útbúið bílastæði. Vegagerð þessi er framtak landeigenda á þessum slóðum. Þarna er óbyggð jörð, Hlauptunga, og um vegagerðina og annað sem henni fylgdi stofnuðu eigendur jarðarinnar, Jóna Bryndís Gestsdóttir og synir hennar, Gestur, Rúnar og Arnar Gunnarssynir, fyrirtækið 3 fossar ehf. Rúnar hefur verið í aðalhlutverki í verkefni þessu, en hann starfar sem verktaki og býr á bænum Efri-Reykjum sem er á þessum slóðum og á land að Brúarfossi.

„Vegurinn skapar ýmsa möguleika á að byggja megi upp ýmsa þjónustu við fossinn í framtíðinni. Þetta var aðkallandi verkefni,“ segir Rúnar. „Gönguleiðin að fossinum er vissulega falleg og verður áfram haldið opinni. Þetta eru þó moldarstígar og geta verið illfærir í vætutíð. Því fórum við fyrir fjórum árum eða svo að skoða möguleikana á vegagerð, verkefni sem kallaði á talsverðan undirbúning og pappírsvinnu. Sumarið 2021 hófust framkvæmdir og þá hefur komið sér vel að eiga sjálfur vörubíl, gröfur og fleiri tæki. Með öllu slíku hefur þetta unnist þægilega jafnhliða öðru.“

Bílastæðagjöld innheimt

Kostnaður við framkvæmd þessa hleypur á milljónum króna. Allt er þetta þó á áætlun því til stendur að innheimta hófleg bílastæðagjöld af þeim sem leggja á stæðunum við fossinn. Þegar er hægt að ganga frá snjallgreiðslum á parka.is en bráðlega verður svo sett upp greiðsluvél á svæðinu. Stæðisgjaldið fyrir fólksbíla er 750 kr. en hærra fyrir stærri ökutæki. Allar upplýsingar um þetta liggja fyrir á bruarfoss.is.

„Einkaframtak eins og þetta getur verið nauðsynlegt. Ef leggja hefði átt veg að fossinum og útbúa nauðsynlega aðstöðu fyrir tilstilli ríkisins hefði biðin orðið mög ár. Núna er þetta hins vegar allt orðið klárt við Brúarfoss, þangað sem við fáum rafmagn innan tíðar. Þar með verður hægt að tengja myndavélar, setja upp rafhlöður fyrir bíla og fleira. Svo munum við bæta við aðstöðuna á næstu misserum eftir því sem tök verða á.“

Á slóðum konungs

Brúarfoss er lágur en sérstakur í lögun og svip sem skýrir af hverju svo margir koma á staðinn. Ferðamenn sem þarna koma eru stundum mörg hundruð á degi hverjum. Á sjálfum fossbarminum er þröng gjá sem Brúará fellur að stórum hluta í. Á 19. öldinni var trébrú yfir gjána, en þá var þetta helsta leiðin að Gullfossi. Vestan við ána má einmitt sjá rytjur af Kóngsveginum svonefnda, leið sem útbúin var um þessar slóðir í aðdraganda þess að Friðrik 8. Danakonungur heimsótti Ísland árið 1907. Kóngur leit þá á hinn fagra Brúarfoss, en á þessum slóðum en ögn neðar í Brúaránni eru einnig Miðfoss og Hlauptungufoss.