Landað Ímynd íslensks sjávarútvegs er ekki góð meðal ungs fólks.
Landað Ímynd íslensks sjávarútvegs er ekki góð meðal ungs fólks. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Afgerandi meirihluti Íslendinga á aldrinum 18 til 29 ára segist hafa mjög eða frekar litla þekkingu á sjávarútvegsmálum. Samt hefur mikill meirihluti aldurshópsins skoðanir á greininni. Meðal annars telur meirihlutinn að greinin sé gamaldags, stöðnuð, spillt, mengandi og skapi verðmæti fyrir fáa

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Afgerandi meirihluti Íslendinga á aldrinum 18 til 29 ára segist hafa mjög eða frekar litla þekkingu á sjávarútvegsmálum. Samt hefur mikill meirihluti aldurshópsins skoðanir á greininni. Meðal annars telur meirihlutinn að greinin sé gamaldags, stöðnuð, spillt, mengandi og skapi verðmæti fyrir fáa. Við þetta bætist að aðeins 16,6% segjast hafa einhvern í kringum sig sem hafi áhuga á að starfa í sjávarútvegi.

Þetta má lesa úr niðurstöðum könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála sem unnin var fyrir matvælaráðuneytið og á að nýtast í stefnumótunarverkefninu „Auðlindin okkar“.

Hafa niðurstöðurnar vakið spurningar um hvort sjávarútveginum hafi mistekist að upplýsa yngri kynslóðir um það sem er að gerast í greininni og hvort um sé að ræða vísbendingu um enn harðari ímyndarbaráttu innanlands á komandi árum en verið hefur til þessa.

Sífellt minni losun

Athygli vekur að heil 70% fólks á aldrinum 18 til 29 ára telja sjávarútveginn mengandi iðnað á sama tíma og fyrir liggur að losun koltvísýrings vegna fiskveiða og fiskeldis hefur minnkað úr 850 þúsund tonnum árið 1995 í aðeins 392 þúsund tonn 2021, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Það er samdráttur upp á tæp 54% og þykir í ljósi þessa eftirtektarvert að svo stór hlutur ungs fólks telji greinina samt mengandi atvinnurekstur.

Þá var minni koltvísýringur losaður vegna sjávarútvegs en annarrar matvælaframleiðslu áratuginn 2011 til 2021 en losað var vegna framleiðslu málma eða flugsamgangna, að undanteknu árinu 2020 þegar samgöngur lágu niðri vegna kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt Orkustofnun hefur olíunotkun íslenskra fiskiskipa jafnframt minnkað um 47,3% á árunum 1996 til 2021 þegar fiskiskipaflotinn nýtti 138 þúsund tonn af olíu. Gera spár stofnunarinnar ráð fyrir að olíunotkun fiskiskipaflotans kunni að dragast saman um 40% til viðbótar fram til ársins 2050.

„Fram til ársins 2003 notuðu innlend fiskiskip mest af olíu af öllum farartækjum hér á landi. Nú er öldin önnur og fyrir því liggja tvær ástæður. Fyrri ástæðan er sú að verulega hefur dregið úr olíunotkun fiskiskipa. Það má rekja til fjárfestingar útgerða í nýjum skipum, sem búa yfir nýrri tækni og eru sparneytnari en þau sem eldri eru, framfara í veiðum, betra skipulags veiða, fækkunar skipa og almennt meiri og betri vitundar um loftlagsmál,“ segir um olíunotkun fiskiskipa á Radarnum.

Loftslagsmálin þykja orðin það mikilvægur hluti af áherslum íslenskra fyrirtækja að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafði sérstakt orð á því er hún í Morgunblaðinu nýverið lýsti upplifun sinni af alþjóðlegu sjávaraútvegssýningunni Seafood Expo Global í Barselóna á Spáni. „Þarna voru bæði sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki í tengdum greinum, tækni-, nýsköpunar- og flutningafyrirtæki. Öll velta þau fyrir sér nýsköpun í þágu umhverfismála. Mér fannst áhugavert að upplifa það með eins sterkum hætti og ég gerði,“ sagði Svandís.

Tæknivædd en gamaldags

Í könnun Félagsvísindastofnunar sögðu einnig 55,2% svarenda að sjávarútvegurinn væri gamaldags og 49,5% að hann væri staðnaður. Aðeins 21,5% þótti greinin nútímaleg og 17,9% að hún væri framsækin.

Þessi niðurstaða fæst þrátt fyrir að greinin hafi fjárfest töluvert í hátæknilausnum og nýjum búnaði síðastliðna áratugi sem hefur gert sjávarútveg hér á landi tæknivæddari en víðast hvar annar staðar. Þetta hefur meðal annars skilað bættri hráefnisnýtingu, minni losun gróðurhúsalofttegunda, auknu öryggi á sjó og í landi og auknum rekjanleika afurða.

Árið 2021 fjárfesti sjávarútvegurinn meira en nokkru sinni fyrr, alls fyrir rúma 48 milljarða króna. Þar af 21,3 milljarða í fiskvinnslu og 26,7 í fiskveiðum.

„Verulegar tæknibreytingar hafa orðið í allri virðiskeðju sjávarafurða á síðustu áratugum sem hafa getið af sér bætta nýtingu sjávarafla og aukið gæði afurða. Kveikjan að þessu er náið samstarf sem hefur verið milli sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirtækja í tækni- og þekkingargreinum. Það hefur auðveldað breytingar og hagnýtingu nýrrar tækni,“ sagði meðal annars í skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi sem unnin var fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og birt var í maí 2021.

Umræddar fjárfestingar hafa skilað örum vexti íslenskra hátæknifyrirtækja sem eru nú mörg fremst á sínu sviði á heimsvísu. Í ofangreindri skýrslu frá 2021 kom fram að árið 2018 hafi verið starfandi 84 fyrirtæki í hliðar- og stoðgreinum sjávarútvegs. Velta þeirra nam 78 milljörðum króna og voru ársverkin 2.541.

Þróunin á sviði hátækni og nýsköpunar þykir vel þekkt innan sjávarútvegsins, en svo virðist sem þau á aldrinum 18 til 29 ára sem svara könnun Félagsvísindastofnunar hafi lítið heyrt af þessum árangri.

Örlítið jákvæðari

Þá telja 63,5% í þessum aldurshópi sjávarútveginn skapa verðmæti fyrir fáa, en það er þó aðeins lægra hlutfall en hjá aldurshópum ofar þar sem nærri 70% svarenda segja slíkt hið sama. Jafnframt sögðu 59,9% svarenda á aldrinum 18 til 29 ára að sjávarútvegurinn væri spilltur fremur en heiðarlegur. Það er verulega lægra hlutfall en eldri hópar en 77,1% fólks á aldrinum 30 til 44 ára, 70,4% á aldrinum 45 til 59 ára og 64,6% þeirra 60 ára og eldri sögðu greinina spillta.

Athygli vekur einnig að 27% yngsta hópsins svara hvorki né (4) á kvarða um hvort greinin skapi verðmæti fyrir fáa eða flesta og 33,2% gera það við spurningum um spillingu greinarinnar. Svör yngsta hópsins gefa því til kynna að framtíðarhorfur fyrir ímynd sjávarútvegsins sé ekki endilega að öllu ráðin, en greinin á nokkuð í land með að sannfæra þjóðina um eigið ágæti.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson