Einar Örn Finnsson fæddist 12. desember 1973. Hann lést 15. apríl 2023.

Útförin fór fram 2. maí 2023.

Elsku Einar frændi. Ég á erfitt með að trúa að þú sért raunverulega farinn frá okkur. Þú munt alltaf vera mér mjög kær og er ég gríðarlega þakklát fyrir allan þann tíma sem ég fékk með þér.

Þegar ég hugsa til þín reikar hugurinn m.a. til þess þegar þú kenndir mér alls konar furðuleg borðspil eða þau skipti sem þú leiðbeindir mér með sönginn. Þú varst alltaf til í að hjálpa mér og ég kunni alltaf að meta að þú varst hreinskilinn og gagnrýninn en samt hvetjandi á sama tíma. Það var greinilegt að þú varst alltaf til í að spjalla og sýndir raunverulegan áhuga á því sem ég var að bralla. Því er góður hlustandi lýsing sem mér finnst eiga vel við þig. Hress, fyndinn og forvitinn eru orð sem ég myndi nota til þess að lýsa þér og allra helst góðhjartaður.

Það er sárt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur en ég er gríðarlega þakklát fyrir allar þær góðu minningar sem munu ætíð fylgja mér.

Þín frænka,

Margrét.