Þýðandi Jacek Godek bjó hér á landi á unglingsárunum og byrjaði að þýða aðeins fjórtán ára. Fyrsta verkefnið var að þýða ljóð eftir Jónas Hallgrímsson fyrir pólska leikkonu.
Þýðandi Jacek Godek bjó hér á landi á unglingsárunum og byrjaði að þýða aðeins fjórtán ára. Fyrsta verkefnið var að þýða ljóð eftir Jónas Hallgrímsson fyrir pólska leikkonu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýðendurnir Luciano Dutra og Jacek Godek hlutu heiðursviðurkenninguna Orðstír í ár. Forseti Íslands afhenti verðlaunin á Bessastöðum 21. apríl síðastliðinn. Orðstír, heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, er afhent annað hvert ár á Bókmenntahátíð í Reykjavík

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Þýðendurnir Luciano Dutra og Jacek Godek hlutu heiðursviðurkenninguna Orðstír í ár. Forseti Íslands afhenti verðlaunin á Bessastöðum 21. apríl síðastliðinn. Orðstír, heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, er afhent annað hvert ár á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Viðurkenningin er veitt einstaklingum „sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi“. Luciano og Jacek tóku báðir þátt á alþjóðlegu þýðendaþingi sem Miðstöð íslenskra bókmennta stóð fyrir.

„Þetta er mikill heiður. Ég hef gert svo margar þýðingar svo það er gaman að fá þessa viðurkenningu,“ segir hinn pólski Jacek Godek. „Ég er búinn að gera þetta í 50 ár, síðan ég var 14 ára. Ég kom til Íslands haustið 1969, með foreldrum mínum og systur. Pabbi vann í pólska sendiráðinu. Ég var 11 ára og fór strax í Melaskóla og síðan í Hagaskóla. Ég rétt byrjaði á MR en skrópaði eiginlega alltaf því ég vissi að ég væri að fara aftur til Póllands,“ segir hann og hlær.

50 ár frá fyrsta verkefninu

„Það vildi þannig til að það kom til Íslands pólsk leikkona 1972, bara sem ferðamaður, og hún vildi endilega gera eitthvað fyrir útvarpið í Póllandi. Hún valdi ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og við Þrándur heitinn Thoroddsen vorum lokaðir inni í herbergi og okkur var sagt að þýða ljóðið. Það gekk ágætlega hjá okkur en kannski aðallega af því að Þrándur var með kassa af bjór. Ljóðið var svo flutt í Póllandi.“

Jacek gerðist síðan leikari. „Þá var einhvern veginn náttúrulegt að ég færi út í leikritaþýðingar og þýddi nokkur íslensk leikrit. Mig minnir að tvö hafi verið birt í leiklistartímariti í Póllandi og tvö hafa verið sett á svið. Hið fyrra var Lokaæfing eftir Svövu Jakobsdóttur, sem var sýnt í pólska sjónvarpinu 1986 og hið síðara var Ég er meistarinn eftir Hrafnhildi Hagalín. Það var sýnt á fjölum leikhúss í Gdansk í leikstjórn Kjartans Ragnarssonar,“ segir hann.

„Svo fór ég til Íslands og lék í nemendaleikhúsi með Halldóru Geirharðs, Bergi Þór, Pálínu Jóns og Jórunni Sigurðar. Í þeirri ferð skrapp ég norður á Akureyri ásamt Kjartani Ragnarsyni og Einari Kárasyni til að sjá frumsýningu á Djöflaeyjunni. Ég varð svo hrifinn af sýningunni að ég ákvað að þýða bókina. Hún kom út í Póllandi 1997. Síðan hef ég meira og minna alltaf verið að þýða bækur og einnig ljóð en þó ekki eins mikið og ég vildi. Það er alltaf erfitt að fá útgefanda til að gefa út ljóð.“

Linda varð frelsisskáld

„Ein af fyrstu bókunum sem ég þýddi var 101 Reykjavík sem varð algjör kúlt-bók í Póllandi. Ég var líka útnefndur í einhver þýðingarverðlaun hér. Svo þýddi ég Frelsið, ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur, sem hlaut aðalverðlaun hér í landi í keppni sem heitir European Poet of Freedom. Linda varð sem sagt frelsisskáld Evrópu. Bækurnar sem ég hef þýtt hafa alltaf fengið góða dóma.“

Spurður út í viðtökurnar í heimalandinu segir hann: „Annars vegar sé ég ákveðinn hóp sem hefur áhuga á Íslandi sem les þessar bækur og hins vegar er það hópur sem hefur almennan áhuga á bókmenntum. Og svo er þriðji hópuinn. Í fimm ár var ég með vef þar sem ég birti t.d. Íslendingasögur, fornaldarsögur og brot úr Eddu. Svo það er þriðji hópurinn, þeir sem hafa yfirleitt áhuga á miðöldum.“ Um 2000 manns heimsóttu síðuna reglulega.

„Það er gaman að byggja brú milli landa og milli þjóða. Mér finnst að Pólverjar þurfi að skilja Íslendinga betur og auðvitað þurfa Íslendingar að skilja Pólverja en ég vinn ekki að því. Ég þýði bara í aðra áttina.“

Mínar ær og kýr

Brasilíumaðurinn Luciano Dutra segir að þakklæti sé sér efst í huga. „Þetta er góð tilfinning. Þetta er fyrir heildarverkið, ekki fyrir tiltekna þýðingu heldur fyrir allar þýðingarnar. Það var meira að segja minnst á ljóðaþýðingar sem ég hef birt úr norrænum málum, þar á meðal íslensku. Það eru mínar ær og kýr. Ég birti eitt á dag á Facebook. Íslenska var alltaf á mánudögum,“ segir hann.

Luciano kynntist íslenskum bókmenntum í gegnum þýðingar sínar á ljóðum argentínska höfundarins Jorge Luis Borges. „Hann var mikill aðdáandi íslenskra fornbókmennta og var kannski fyrstur í Rómönsku Ameríku að kynna þessar bókmenntir fyrir almenningi. Í ljóðum hans koma þessar bókmenntir fram. Hann skrifaði t.d. sonnettu um Snorra Sturluson og Völsungasögu og fleira. Þarna fæ ég fyrst áhuga á að læra tungumálið með það að markmiði að þýða úr forníslensku. En þetta hefur ekki gerst akkúrat þannig og ég er kominn í nútímabókmenntir. En fljótlega, eftir tuttugu ára dvöl á Íslandi, fer ég að þýða Íslendingasögur af fullri alvöru.“

Það var undir lok síðustu aldar sem hann kynntist íslenskum bókmenntum í gegnum Borges og hann flutti síðan hingað til lands árið 2002 til þess að leggja stund á íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands. „Ég hafði aldrei komið til Íslands svo þá fyrst kynntist ég landi og þjóð. Ég vissi ekkert hverju ég ætti von á,“ segir hann.

Ísland hafi vissulega verið landfræðilega og veðurfarslega ólíkt heimalandinu. „En fólk er fólk. Eins og með ljóðaþýðingarnar. Fólk heldur að þessi norrænu lönd séu svo ólík okkar en undir niðri eru tilfinningar, áföll og samskipti og það er allt mannlegt.“

Hvíslar leyndardómum

Luciano þýddi tvær skáldsögur eftir Sjón, Skugga-Baldur og Rökkurbýsnir, sem og hluta af Mánasteini sem birtist í tímariti í Brasilíu, Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson og svo nýlega Merkingu eftir Fríðu Ísberg sem kemur út á næstu vikum. Þá hefur hann þýtt alveg frá miðöldum til dagsins í dag. Hann hefur t.d. þýtt ljóð skálda sem eru af erlendu bergi brotin en skrifa á íslensku, Jacubs Stachowiak, Natöshu S. og Elías Knörr, og segir að fagna skuli framlagi þeirra til íslenskra bókmennta.

Hann segir áhuga Brasilíumanna á Norðurlöndunum, og Íslandi þar með, hafa aukist með tilkomu sjónvarpsefnis og kvikmynda þaðan. „Svo hjálpar gríðarlega að það sé til sjóður eins og Miðstöð íslenskra bókmennta sem styrkir þessar þýðingar. Það ýtir undir áhuga sem er þegar til staðar hjá bókaútgefendum.“

Luciano vísar í spænska heimspekinginn Ortega y Gasset og ritgerð hans Eymd og glæsileiki þýðingar. „Annars vegar er ómögulegt að þýða og við erum dæmd til að mistakast en hins vegar er mikilvægt að koma ólíkum leyndarmálum tungumála á milli þjóða. Hvert tungumál lýsir heiminum og mannlegri reynslu á mismunandi hátt og að þýða milli tungumála er eins og að hvísla þessum leyndardómum milli þjóða. Þannig fá fleiri að kynnast þeirri einstöku upplifun sem Íslendingar hafa. Það er drifkrafturinn.“

Luciano segir mikinn heiður að hljóta Orðstír samhliða Jacek Godek. „Hann hefur verið að þýða eins lengi og ég hef verið í þessum heimi.“