[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Runólfur Ágústsson, stjórnarmaður í Fluglestinni þróunarfélagi ehf., segir fyrirhugaða ráðstefnu um verkefnið í haust kunna að marka þáttaskil og koma málinu á hreyfingu á ný eftir nokkra bið. Dagur B

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Runólfur Ágústsson, stjórnarmaður í Fluglestinni þróunarfélagi ehf., segir fyrirhugaða ráðstefnu um verkefnið í haust kunna að marka þáttaskil og koma málinu á hreyfingu á ný eftir nokkra bið.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, boðaði þessa ráðstefnu á fundi um framkvæmdir í borginni sem fram fór í Ráðhúsinu síðastliðinn föstudag. „Við erum líka vör við áhuga ýmissa lestarþróunarfyrirtækja varðandi hugmyndir um lest til Keflavíkur og ætlum okkur að vera með stóran fund til þess að opna þá umræðu betur í september. Nokkur sendiráð eru áhugasöm um að tengja lestarfyrirtæki og lestarþróunaraðila inn í þá umræðu hér á landi,“ sagði Dagur sem taldi ferðaþjónustuna hafa náð vopnum sínum. Runólfur segir nú til skoðunar að hafa endastöð fluglestarinnar í Smáralind eða Kringlunni. Það sé ódýrara en að láta lestina fara alla leið niður á BSÍ.

Nýju hótelin fjær miðborginni

Athyglisvert er að setja fluglestarstöð í Kringlunni í samhengi við þær lóðir sem Dagur borgarstjóri segir henta undir hótel. Nokkrar þeirra eru endurgerðar á kortinu hér til hliðar en í bakgrunni er rammaskipulag í vinnslu fyrir Kringluna. Hótellóðirnar eru austan við Hlemm og sú austasta við fyrirhugaða borgarlínustöð á Krossmýrartorgi á Ártúnshöfða.

Dagur vakti athygli á því að gistinóttum væri að fjölga í Reykjavík. Því væri borgin opin fyrir því að heimila hótelrekstur víða í borginni.

„Við metum stöðuna svo að þrátt fyrir þessi hótelverkefni sem eru í pípunum að þá sé þörf fyrir meira, því annars er hætta á því að ferðaþjónustan þrýsti mjög á íbúðamarkaðinn í gegnum Airbnb og annað. Þannig að þarna þurfum við að hafa jafnvægi,“ sagði Dagur í ræðu sinni.

Runólfur setur þessi orð í samhengi við hótelkvóta í miðborginni.

„Eins og mál hafa þróast þá eru Kringlan eða BSÍ svipaðar staðsetningar hvað varðar nálægð við hótelgistingu í miðborginni. Frekari uppbygging verður væntanlega við Borgarlínuás frá Hlemmi upp Suðurlandsbraut þar sem takmörk hafa verið sett á frekari hóteluppbyggingu í Kvosinni,“ segir Runólfur. Fluglestin á að liggja ofanjarðar frá Keflavíkurflugvelli að Straumsvík. Þaðan stóð til að gera 15-16 km göng að BSÍ. Meðaldýpt skyldi vera um 40 metrar frá yfirborði en til samanburðar er Hallgrímskirkja 74,5 metrar.

Styttir göngin

Með því að hafa endastöðina heldur í Kringlunni styttist gangagerðin um á annan kílómetra. Jafnframt rekst hún ekki á við fyrirhugaðan stokk undir Miklubraut.

Spurður um stöðu málsins segir Runólfur að það hafi farið á ís í kórónuveirufaraldrinum. Ferðaþjónusta hafi þá verið í frosti og margar skyldar framkvæmdir sömuleiðis.

„Málið er búið að vera stopp í nokkur ár. Það hefur legið fyrir allan tímann að það eru þrjár meginleiðir mögulegar við aðferðafræðina og þá er ég að tala um fjármögnun og allt það. Þ.e.a.s. að gera þetta innan Evrópska efnahagssvæðisins og það lá fyrir yfirlýsing, nokkuð gömul, frá Evrópska fjárfestingabankanum, sem sýndi verkefninu áhuga. Þá yrði farið í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu en þar eru náttúrlega nokkrir lestarframleiðendur. Jafnframt eru Japanir og Kínverjar mjög framarlega í lestargerð. Málið var á sínum tíma kynnt fyrir kínverka sendiráðinu og svo í gegnum íslenska sendiráðið í Tókýó og ég geri ráð fyrir að borgarstjóri hafi verið að vísa í slíkar viðræður. Ef gengið yrði til viðræðna við Kínverja og Japani myndu útflutningssjóðir viðkomandi landa koma að fjármögnun sem fylgir kaupum.“

Á annað hundrað milljarðar

– Hvaða fjárhæðir erum við að tala um í þessu samhengi?

„„Ég held að miðað við gengis- og verðlagsþróun séu þetta um 140 milljarðar; 60% kostnaðarins fellur til innanlands og 40% erlendis.“

– Hvernig skiptist hann milli gangagerðar og lesta?

„Gangagerðin er stærsti einstaki liðurinn. Göngin þyrftu að vera 14-16 kílómetra löng en það er sá þáttur sem við þekkjum best. Lestarleiðin er að stórum hluta á aðalskipulagi Suðurnesja og liggur í tiltölulega þægilegu landi. Þar er mestmegnis hraun sem er þægilegt að vinna í og lítil byggð. Samkvæmt kostnaðaráætlun frá 2019 var gangagerðin talin kosta ríflega 200 milljónir evra, lestarstöðvar og aðrir innviðir ríflega 500 milljónir evra, lestarnar ríflega 160 milljónir evra og loks var ófyrirséður kostnaður áætlaður 15%, eða um 110 milljónir evra. Alls um milljarður evra.“

– Reykjavíkurborg hyggst sem áður segir efna til ráðstefnu í haust um lestarsamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Hvernig stendur málið gagnvart ykkur?

„Það stendur þannig að við erum með viljayfirlýsingar og tilbúna samninga við öll sveitarfélög á lestarleiðinni nema Hafnarfjörð sem stoppaði málið síðast. Málið liggur í sjálfu sér þar og markmiðið er að koma þessu verkefni áfram. En ég hef sagt að þessi framkvæmd sé ekki spurning um hvort heldur hvenær.“

– Hvað gæti það þýtt fyrir tímalínuna ef Hafnfirðingum snýst hugur?

„Þetta er hér um bil sjö ára verkefni. Þar af þarf þrjú ár í hönnun, mat á umhverfisáhrifum, skipulagsmál og þá þætti. Og síðan fjögur til fimm ár í framkvæmdina sjálfa. Gangagerðin tekur lengstan tíma.“

– Hvað með fjármögnun?

„Verkefnið var alltaf hugsað sem einkaframkvæmd. Þ.e.a.s. ekki styrkt af opinberu fé. Og miðað við okkar útreikninga og þann ferðamannafjölda sem nú er að verða aftur – þessar hugmyndir voru settar til hliðar í faraldrinum – er verkefnið aftur arðbært.“

Þurfa þriðja hvern

– Hvað þurfið þið marga ferðamenn til að verkefnið gangi upp?

„Samkvæmt líkaninu þyrfti einn af hverjum þremur erlendum ferðamönnum að nota lestina til að skapa þann tekjugrunn sem nauðsynlegur er. Og svo reiknuðum við með töluvert mörgum innlendum farþegum sem eru þá aðallega að ferðast til og frá vinnu. Þeir eru hins vegar að greiða önnur fargjöld og eru því ekki burðarásinn í fjármögnuninni.“

– Hvað verða margar stoppistöðvar á höfuðborgarsvæðinu?

„Það var upphaflega reiknað með að það yrði móðurstöð, innan gæsalappa, fyrir sunnan Straumsvík, þar sem vagnarnir kæmu á kvöldin og að þar væri viðhaldsstöð og aðalstarfsstöðin. Að þar væri raunverulega starfsemin og starfsfólkið. Síðan var reiknað með einni millistöð í Smáralindinni og endastöð á BSÍ. En það getur í sjálfu sér allt komið til endurskoðunar.

Flestir byrja í miðbænum

Það er náttúrlega þannig að 90% erlendra ferðamanna að minnsta kosti byrja sitt ferðalag í miðbæ Reykjavíkur. Þá er ég að tala um miðbæ Reykjavíkur í þeirra skilningi, sem er auðvitað töluvert stærra svæði. Það myndi auðvitað spara töluverða gangagerð ef endastöðin væri í Smáralind. Þá þyrfti einhverjar samgöngur þaðan. Þetta gæti auðvitað líka verið í Kringlunni.“

– Það er styttra milli Kringlunnar og BSÍ en milli Smáralindar og BSÍ?

„Út frá hagsmunum erlendra ferðamanna sem koma í gistingu í Reykjavík er Kringlan alveg eins góður staður og BSÍ.“

– Þannig að mögulega þyrftuð þið ekki að fara alla leið á BSÍ?

„Nei,“ segir Runólfur að lokum.