Flug Birgir Jónsson, forstjóri Play, er gestur Dagmála að þessu sinni.
Flug Birgir Jónsson, forstjóri Play, er gestur Dagmála að þessu sinni. — Morgunblaðið/Hallur Már
Flugvélafloti Play stækkar enn. Innan tíðar verður félagið komið með 10 vélar undir gunnfána sínum inn á leiðakerfi þess. Samhliða aukinni afkastagetu fjölgar áfangastöðum sömuleiðis og í dag tilkynnir félagið tvo nýja, annars vegar á sólarstrendur…

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Flugvélafloti Play stækkar enn. Innan tíðar verður félagið komið með 10 vélar undir gunnfána sínum inn á leiðakerfi þess. Samhliða aukinni afkastagetu fjölgar áfangastöðum sömuleiðis og í dag tilkynnir félagið tvo nýja, annars vegar á sólarstrendur Fuerteventura undan ströndum Afríku og hins vegar í skíðabrekkurnar í Veróna.

Birgir Jónsson, forstjóri fyrirtækisins, er gestur í nýjasta þætti Dagmála. Hann segir að það hafi reynst meiri vinna og þyngra í vöfum að koma fyrirtækinu á flot en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. „Þetta var þyngra flugtak en við bjuggumst við,“ útskýrir hann.

Nú sé félagið hins vegar komið á beinu brautina, ekki síst vegna þeirrar stærðarhagkvæmni sem stefnir í. Athyglisvert sé að hugsa til þess að fyrirtækið sé ekki orðið tveggja ára en hafi á þessum skamma tíma færst úr engum tekjum í 40 milljarða og að fyrir fáum misserum hafi starfsmennirnir verið 30 talsins en þeir verði yfir 500 nú í sumar.

Play tapaði 2,3 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi, sem jafnan er langþyngstur í rekstri flugfélaga. Birgir segir að í uppgjöri fjórðungsins felist jákvæð teikn.

„Við erum að sjá hækkandi tekjur, hækkandi hliðartekjur og ekki síst það að við erum að sjá jákvætt streymi lausafjár sem styrkir lausafjárstöðuna þannig að ef fólk vill setja sig inn í dýnamík í flugrekstri þá er þetta uppgjör frekar jákvætt og veit á gott fyrir árið.“

Rekstrarafkoman jákvæð

Segist Birgir hafa trú á því að rekstrarafkoma félagsins verði jákvæð á þessu ári og að það muni fara langt með að þagga niður í helstu efasemdaröddunum sem heyrst hafi þess efnis að Play væri ekki á vetur setjandi. Þá sé taprekstur á fyrsta fjórðungi ekki marktækur. Mikill kostnaður hafi falist í því að skala félagið upp, m.a. í þeim sem fellur til við kostnað áhafna og markaðskostnað ýmiskonar en að tekjurnar sem þetta leiði af sér bókfærist ekki fyrr en á öðrum og þriðja ársfjórðungi.

Spurður út í ferðavilja almennings segir Birgir engin teikn á lofti um að hann fari þverrandi. Það sé þvert á spár margra sem töldu að uppsafnaður sparnaður á tímum veirufaraldursins myndi ganga til þurrðar og að fólk myndi halda að sér höndum vegna versnandi efnahagsástands.

„Fólk er farið að ferðast í margvíslegum tilgangi. Það eru allskonar hjólaferðir og jógaferðir og hvað og hvað og fólk fer oftar en einu sinni á ári. Og eftir því sem verðið lækkar eykst eftirspurnin líka þannig að ég ætla ekki að segja að eftirspurnin sé endalaus. Við sjáum á tölfræði um Evrópuþjóðir að Íslendingar hafa mestu ferðatíðnina og -viljann. Við erum jú eyja,“ segir Birgir.

Hann segir sömu sögu að segja af ferðalöngum sem hingað koma. Sennilega séu þeir Bretar sem hingað koma ekki jafn næmir fyrir efnahagssamdrættinum og þeir sem velji sér ódýrari áfangastaði alla jafna. Þá sé eftirspurnin frá Bandaríkjunum mikil, m.a. vegna sterkrar stöðu dollars gagnvart evru.