Fjölhæf Silja Rós vakti athygli fyrr á árinu með laginu Ég styð þína braut í Söngvakeppninni. Hún vinnur nú að nýrri plötu ásamt gamanþáttum sem eru væntanlegir í Sjónvarp Símans.
Fjölhæf Silja Rós vakti athygli fyrr á árinu með laginu Ég styð þína braut í Söngvakeppninni. Hún vinnur nú að nýrri plötu ásamt gamanþáttum sem eru væntanlegir í Sjónvarp Símans.
Það er nóg um að vera hjá söngkonunni, leikkonunni og handritshöfundinum Silju Rós sem útskrifaðist úr djassnámi við tónlistarskóla FÍH á dögunum. Hún vinnur nú að nýrri plötu og gaf út fyrsta lagið af plötunni síðastliðinn föstudag, lagið Share U…

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Það er nóg um að vera hjá söngkonunni, leikkonunni og handritshöfundinum Silju Rós sem útskrifaðist úr djassnámi við tónlistarskóla FÍH á dögunum. Hún vinnur nú að nýrri plötu og gaf út fyrsta lagið af plötunni síðastliðinn föstudag, lagið Share U en Silja lýsir tónlist sinni sem „djassskotnu poppi“. Hún mætti í Ísland vaknar á K100 í gær og ræddi um listina og lífið við þau Kristínu Sif og Þór Bæring. Hún ræddi meðal annars um leiklistarnám sitt úti í Los Angeles en hún er nú komin „heim“ til Íslands eftir að hafa búið um nokkurt skeið í Danmörku.

Tónlist, leiklist og handritsskrif

„Það er gaman að vera á flakki,“ sagði Silja sem er einnig lærður jógakennari. Það er þó tónlistin, leiklistin og handritsskrifin sem eiga hug hennar og hjarta í dag.

Hún segir að nú, eftir útskrift og eftir þátttöku hennar og Kjalars í Söngvakeppninni í ár, sé væntanleg plata í forgrunni hjá henni – ásamt væntanlegri sjónvarpsseríu sem hún vinnur nú að ásamt þremur öðrum konum.

New Girl og Klovn

„Þetta eru gamanþættir,“ sagði Silja leyndardómsfull, spurð út í þættina. „Ég myndi segja að þetta væri „New Girl meets Klovn“ kannski. Um þrjár stelpur sem búa saman og eru allar mjög mannlegar og misheppnaðar,“ sagði Silja og hló dátt en þættirnir, sem byrja í tökum í sumar, verða sýndir á Sjónvarpi Símans. Sagði hún að enginn annar en leikarinn Ólafur Darri Ólafsson hefði lesið yfir handritið og hvatt sig og vinkonur sínar þrjár til að láta slag standa og fara með það lengra.

Spurð út í tónlistina sagðist Silja oftast semja tónlist sína alveg ein, þar á meðal nýja lagið Share U sem er komið inn á allar helstu streymisveitur.

„Þetta lag varð til í svefnherberginu, á eitthvert hljómborð og fór svo bara beint í skúffuna eins og maður gerir,“ sagði Silja sem tók undir að oft væru „skúffulögin“ bestu lögin.

„Kærastinn minn heyrði það og var bara: Ætlarðu ekki að gera eitthvað við þetta lag?“ sagði hún. „Það kom mér á óvart því hann er mikill djassari og ég var svo hrædd um að þetta væri of poppað fyrir hann. En hann er pródúser líka, og hann á það til, þegar hann heyrir góðu lögin, þá „dibsar“ hann að fá að búa þau til,“ sagði Silja og staðfesti að fyrrnefndur kærasti, Magnús Orri Dagsson, hefði séð um að framleiða lagið, taka það upp og spila á öll hljóðfæri nema trommur. „Þetta er svona grúví sumarsmellur,“ sagði Silja.