Roxana Elena Cziker
Roxana Elena Cziker
Heilaskaði hefur verið nefndur „hinn þögli faraldur“. Hann er þriðja algengasta dánarorsökin og hefur vinninginn sem einn helsti orsakavaldur örorku á heimsvísu.

Roxana Elena Cziker

Takið ykkur smá stund og reynið að sjá fyrir ykkur þær myndir sem blasa við ykkur á hverjum degi og skapa almenna sýn ykkar á umhverfið, skapa sjónheim ykkar, eins og t.d. liti, ljós, hreyfingar, fólk, himininn, sólina Allar þessar margbreytilegu myndir staðfesta að sjónheimurinn er fullur af upplýsingum sem taka stöðugum breytingum þótt við verðum þeirra ekki alltaf vör. En af hverju gerist það? Þrátt fyrir mikið sjónrænt upplýsingamagn í umhverfinu getur heilinn stýrt flæðinu og gert okkur kleift að einblína á það sem skiptir máli til að bregðast rétt við. Ímyndið ykkur hvernig það væri ef við þyrftum alltaf að einbeita okkur að öllum upplýsingum í einu, yrðum að vera meðvituð um allt! Það yrði okkur ofviða en það er einmitt þannig sem fólk með heilaskaða, fólk sem hefur orðið fyrir heilablóðfalli eða hlotið heilaáverka getur upplifað sjónheiminn.

Við upplifum sjónheiminn á hverjum degi gegnum sjónina, sem er eitt það verðmætasta sem við eigum. Sjónin styður við hvers kyns samskipti okkar við fólk og auðveldar okkur ýmsar hversdagslegar athafnir svo sem að aka bíl, ganga af öryggi, versla, lesa og skrifa, og margt fleira. Venjulega erum við ekki mikið að velta fyrir okkur hvernig veröldin birtist okkur því það gerist sjálfkrafa hjá okkur flestum um leið og við opnum augun. Sjónin og sjónkerfið er mjög flókið fyrirbæri sem er staðsett í augum og heila og getur orðið fyrir truflun, t.d. vegna augnsjúkdóma, heilaskaða, heilablóðfalls eða höfuðáverka sem afleiðing af falli, umferðarslysi, íþróttaslysi, ofbeldi o.s.frv. Þess vegna getur heilaskaði valdið því að úrvinnsla sjónrænna upplýsinga verður mikil áskorun og sjónkerfið truflast þannig að einfaldir hlutir eins og að ganga og rata um í stóru rými, lesa texta, bera kennsl á fólk og hluti og taka þátt í íþróttum og leikfimi geta orðið mikil áskorun.

Heilinn, þar sem sjónkerfið á m.a. heima, býr til mynstur úr öllum skynrænum upplýsingum sem sjón, heyrn, snerting, bragð, lykt o.s.frv. færir inn í kerfi heilans, en líka úr upplýsingum sem eru þegar fyrir hendi í kerfinu og hafa mótast af reynslu og þekkingu. Heilinn er alltaf að leita, breyta, sameina og endurbyggja upplýsingar og hjálpa okkur að læra á og skilgreina umhverfið og skapa samhengi sem verður okkar veruleiki. Heilinn virkar eins og bókasafn: þar á að vera skipulag, regla og ákveðin svæði til að safna allra handa upplýsingum sem tengjast saman, eins og púsl, til að raða saman heildarmynd og móta skilning á umhverfinu. Ef heilaskaði verður, þá heldur heilinn áfram að endurspegla og skilgreina sjónheiminn en ekki endilega á sama hátt og fólk upplifði hann fyrir heilaskaðann. Undir slíkum kringumstæðum finnur heilinn ekki lengur réttu leiðina og jafnvel ekki réttar upplýsingar til að skilgreina og skilja umheiminn, svo skynhrifin verða samhengislaus og það getur haft margvísleg áhrif á allt okkar líf, eins og atvinnu, nám, vellíðan og lífsgæði með tilheyrandi áskorunum því sjónkerfið tengist jafnvægi alls líkamans. Þessar áskoranir mætti skilgreina sem hömlun á sjónskynjun og sjónúrvinnslu eða taugasjónskerðingu. Hömlun á sjónúrvinnslu eða taugasjónskerðing vísar til skorts á getu sjónkerfisins til að túlka, vinna úr og skilja upplýsingar sem augun nema og eru túlkaðar í mismunandi svæðum heilans, þar á meðal hreyfingar, rýmisskynjun, stærð, form, liti og virkni. Fyrir fólk með heilaskaða geta slík verkefni verið mikil áskorun sem krefst mikillar einbeitingar og orku því það þarf að vega og meta hvert skref og stundum þarf heilinn að gera nokkrar atrennur að því að finna leiðir til túlkunar sjónrænna upplýsinga.

Heilaskaði hefur verið nefndur „hinn þögli faraldur“. Hann er þriðja algengasta dánarorsökin og hefur vinninginn sem einn helsti orsakavaldur örorku á heimsvísu umfram alla aðra áverka sem hafa langtímaafleiðingar og alvarlega taugahrörnun í för með sér hjá þeim sem lifa af slys. Helstu orsakir áverkatengds heilaskaða, meðal annars, eru föll, umferðarslys, ofbeldi og íþróttaslys. „Heilaskaði og vandi sem af honum hlýst hefur alla jafna fengið litla athygli hér á landi,“ eins og kemur fram í skýrslunni „Hinn þögli faraldur. Þjónusta við fólk með ákominn heilaskaða – tillögur starfshóps“ sem heilbrigðisráðuneytið gaf út árið 2019 (bls. 5). Heilaskaði getur haft víðtæk og truflandi áhrif á hegðun, tilfinningar, samskipti, samfélagsþátttöku, skynjunarfærni og margt fleira. Sjón og sjónúrvinnsla, sem hluti af skynfærni, krefst 50-60% af virkni heilans. Í ljósi þessa má segja að 35-80% einstaklinga sem hafa orðið fyrir höfuðáverka eða þjást af heilaskaða upplifi sjóntruflanir eða sjónúrvinnsluvanlíðan eins og til dæmis höfuðverk og svima, óskýra sjón, sérstaklega í návígi, tvísýni, ljósfælni, einbeitingarskort, lestrarerfiðleika og erfiðleika við túlkun sjónrænna upplýsinga. Í þessum aðstæðum eru sjónmatsferli og endurhæfingaráætlun nauðsynleg einstaklingum með heilaskaða af völdum heilablóðfalls eða heilahristings.

Höfundur hefur BS-gráðu í sálkennslufræðum (psycho-pedagogy) á sviði fötlunar vegna sjónskerðingar.