[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is „Ég man svo gott sem ekkert eftir þessu,“ segir Daníel Þorláksson veðurfræðingur í samtali við Morgunblaðið. Daníel á að baki eitt ár af langri batagöngu endurhæfingar, sjúkraþjálfunar og líkamsræktar. Átak sem hefur kostað mikla hörku og dugnað – á tímabili var kvíðinn líka reglulegur fylgifiskur eins og verða vill í kjölfar þungra áfalla.

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Ég man svo gott sem ekkert eftir þessu,“ segir Daníel Þorláksson veðurfræðingur í samtali við Morgunblaðið. Daníel á að baki eitt ár af langri batagöngu endurhæfingar, sjúkraþjálfunar og líkamsræktar. Átak sem hefur kostað mikla hörku og dugnað – á tímabili var kvíðinn líka reglulegur fylgifiskur eins og verða vill í kjölfar þungra áfalla.

„Ég er kominn með spangir núna og verið að rétta bitið svo vonandi get ég á næstunni farið að tyggja aftur hægra megin. Ég get líka gengið vandræðalaust á góðu undirlagi, get farið út að ganga með hundinn minn og vonandi verð ég farinn að geta skokkað og skíðað næsta vetur,“ segir hann.

Íslenskir fjölmiðlar greindu frá því að í hópi fimm skíðamanna sem lentu í mannskæðu snjóflóði í Lyngen í Troms-fylki í Norður-Noregi 30. mars í fyrra hefði verið einn Íslendingur. Sá var Daníel Þorláksson. Hópurinn, sem þar var á ferð, voru fimm vinir og miklir skíðaáhugamenn sem kynntust í veðurfræðinámi í Innsbruck í Austurríki um miðjan síðasta áratug og hafa haldið sambandi með reglulegum skíðaferðum.

Allur apríl skrýtinn

Nú er skarð fyrir skildi í röðum þeirra Daníels, Tobiasar, Adrians, Juliusar og Moritz því sá síðasttaldi átti ekki afturkvæmt eftir atburðinn í Troms fyrir rúmu ári.

Fyrri helming aprílmánaðar 2022 lá Daníel á sterkum verkjalyfjum á Háskólasjúkrahúsinu í Tromsø og gekkst þar undir röð aðgerða í kjölfar stórfellds líkamstjóns. Lá hann þar í öndunarvél í fjórtán daga og var fluttur til Íslands tengdur henni um miðjan mánuðinn þar sem hann losnaði svo við öndunaraðstoðina eftir þrjá daga á Landspítalanum í Fossvogi.

Rúmum sex vikum eftir slysið, um miðjan maímánuð, var hann fluttur á Grensásdeild þar sem hann var inniliggjandi í endurhæfingu sex vikur í viðbót og svo á dagdeild í rúma þrjá mánuði í kjölfarið.

„Allur apríl er bara rosalega skrýtinn og ég treysti engum minningum þaðan. Ég var með miklar ranghugmyndir og á sterkum ópíóðalyfjum og vissi ekkert hvar ég var. Ég vissi ekki einu sinni að ég væri á sjúkrahúsi. Ég varð alltaf betri eftir því sem á leið en minningarnar eru mjög skrýtnar, mér fannst eins og ég væri að vakna í öðrum borgum og bæjum til dæmis,“ rifjar Daníel upp af þokukenndum apríl 2022.

Hann kjálkabrotnaði og missti tönn auk þess sem kjálkaliður brotnaði, tvö rifbein einnig og vinstra lunga hans féll saman. Vinstri upphandleggur hans brotnaði, hann hlaut opið beinbrot á hægri sköflungi, ofan í skíðaskónum, og annað opið beinbrot á vinstri fæti rétt fyrir ofan skó, fór úr hnjálið og sleit sinar og krossbönd. Níu beinbrot í allt.

En hvað gerðist þá eiginlega þennan örlagaríka dag í mars í fyrra á vinsælu fjallaskíðasvæði í Lyngen sem gerði það að verkum að líf fjögurra skólabræðra og útivistargarpa verður kannski aldrei alveg nákvæmlega eins og það var fyrir?

„Þetta var dagur fjögur,“ rifjar Daníel upp, björgunarsveitarmaður til margra ára og fjallamaður sem hefur meðal annars farið með hópa á Hvannadalshnjúk sem leiðsögumaður og var jöklaleiðsögumaður í Skaftafelli. Hann hefur starfað í sex ár á Veðurstofu Íslands og var þar tvo vetur einnig á snjóflóðavakt, háskólamenntaður í jarðeðlisfræði og veðurfræði.

Ekki eins öruggt og talið var

„Þetta er rosalega þekkt svæði fyrir fjallaskíði sem er ekki þessi hefðbundna skíðaiðkun. Þarna er engin þjónusta og engar lyftur, fólk gengur sjálft upp á skíðunum. Þetta er svona eins og á Tröllaskaganum, nema færri þyrlur. Það er þorp niðri í dalnum þar sem við vorum með skála á leigu en annars eru þetta bara óbyggðir,“ útskýrir Daníel.

Þeir vinirnir höfðu farið langa túra fyrstu tvo dagana og hvíldu svo að mestu þriðja daginn. Veður var tekið að versna, komin norðanátt og gekk á með éljum. „Við fórum þá upp á öxl og skíðuðum niður, vildum aðeins fara út og hreyfa okkur, eins og daginn sem flóðið féll. Við göngum frá skálanum og förum upp í suðurvísandi hlíð á sömu öxl og við vorum á daginn áður, en sú hlíð er þó mun brattari,“ segir Daníel frá.

Þeir gera svokallaða snjógryfju, grafa niður í snjóinn til að kanna þéttleika hans með tilliti til snjóflóðahættu. „Neðst í hlíðinni mokum við snjógryfju og sjáum ekki óstöðugleika í snjóalögum. Við höldum því af stað upp hlíðina. Á leiðinni upp sjáum við að þetta er ekki eins öruggt og við héldum og það fara að renna á okkur tvær grímur. Við gerum svo aðra snjógryfju og sjáum þá að það er mikill óstöðugleiki og ætlum að snúa við svona 30 metrum ofar,“ heldur hann áfram.

„Ég veit ekki af hverju við snerum ekki við strax, við fáum merki um mikinn óstöðugleika en erum í hlíð og þarna spölkorn ofar er aðeins álitlegri staður til að stoppa, taka skinnin af skíðunum, herða á skónum og í raun skipta úr því að vera að skinna upp yfir í að vera að skíða niður,“ útskýrir Daníel vísindi fjallaskíðamanna.

Komnir allt of langt

Hann segir spottann upp að umræddum stað hafa verið það stuttan að líklega hafi þeir vinirnir ekki gert sér fulla grein fyrir að þeir væru að tefla í mikla tvísýnu, komnir í mjög óstöðugan snjó í hlíðinni.

„Við vorum komnir allt of langt þegar við tókum þessa seinni gryfju og það má vel vera að við höfum sjálfir sett þetta snjóflóð af stað,“ segir Daníel hugsi. Þeirri atburðarás sem hófst í kjölfarið man hann nánast ekkert eftir eins og segir í upphafi viðtalsins, „mest af þessu er eitthvað sem mér hefur verið sagt eftir á“.

Þeir halda áfram og ætla sér að staðnum þar sem áætlað var að snúa við, Julius er í fararbroddi, þá Tobias, Adrian, Moritz og Daníel rekur lestina. „Það eru svona tíu metrar á milli okkar og við erum að sikk-sakka upp brekkuna, þetta er svona stigi sem við gerum. Adrian er fyrir miðju og lengst til hægri, Julius er nýbúinn að taka beygju og þá öskra ég, sem er neðst, „snjóflóð!“,“ rifjar hann upp án þess þó að muna sjálfur eftir þessari stundu.

„Strákarnir kasta frá sér stöfunum, þeir muna það, og svo byrjar hröðunin og við förum alltaf hraðar og hraðar, flóðið byrjar undir okkur en nær líka upp fyrir okkur, við erum á miðju upptakasvæðinu, það fer allt af stað og Adrian fer utan í alla vega tvö tré og missir skíðin sín en endar óslasaður og þá byrjar félagabjörgunarfasinn. Þetta gerist alltaf reglulega í fjallaferðum, eins og bílslys eru hluti af umferðinni, og við þetta eru allir hræddir. Við höfðum æft viðbrögðin við snjóflóði margoft og Adrian fer sem sagt í þennan björgunarfasa,“ útskýrir Daníel.

„Svo kemur fyrsta þyrlan“

Hann segir það ráða úrslitum að finna þá sem lenda í flóðinu svo fljótt sem verða má, hættan á að kafna eða ofkælast sé alltaf mest þegar fólk er alveg grafið í snjó. „Mikilvægast er að moka frá vitum fólks óháð því hve slasað það er. Adrian fer að leita með ýlunum sínum og kemur að Tobiasi sem er með höfuðið upp úr og kvartar yfir eymslum í hendi og baki. Hann hafði búið í Noregi síðustu þrjú ár og treystir sér til að hringja í neyðarlínuna svo Adrian lætur hann fá símann sinn,“ segir Daníel.

Heldur leitin svo áfram og Julius finnst næst, nokkru neðar en Tobias. Hann er með áverka í andliti og fóturinn stendur undarlega upp úr snjónum, síðar kemur í ljós að hann er einnig lærbrotinn. Næst kemur Adrian auga á Daníel sem er með höfuðið upp úr snjó og með meðvitund.

„Ég bið hann um aðstoð við að moka frá mér en tala mjög bjagað þar sem ég er kjálkabrotinn. Hann hjálpar mér aðeins en bendir mér svo á að Moritz sé ófundinn og hleypur af stað til að leita að honum, upp farveginn, ég er alveg í botninum á flóðinu. Hann fær engin merki frá ýlunum sem Moritz er með og svo kemur fyrsta þyrlan,“ segir Daníel.

Þegar björgunarmennirnir úr þyrlunni ná fundi Adrians halda þeir saman í leit að Moritz, þeim eina fimmmenninganna sem er ófundinn, og ná að lokum merki frá ýlunum sem Moritz ber á sér. „Þeir eru mjög snöggir að moka niður á hann en þegar þeir sjá hann er staðan þannig að þeir reyna ekki einu sinni endurlífgun, bráðalæknir úr þyrlunni metur það svo að hún myndi ekki skila árangri,“ rifjar Daníel upp af vininum sem ekki átti afturkvæmt úr skíðaförinni.

„Ástand óljóst“

Þegar þarna er komið sögu kemur annar björgunarhópur á staðinn sem fer í að koma Juliusi upp á yfirborðið og svo kemur þriðji hópurinn. Í þeim hópi er sænski hjúkrunarfræðingurinn Susanne Bengtsson úr hundabjörgunarsveitinni Norsk Redningshund ásamt björgunarhundi sínum Spiff og Kenneth Nielsen úr björgunarsveitinni Norsk Folkehjelp.

Rúmum 40 mínútum áður hafði sími Susanne fært henni boðin „Fimm í snjóflóði í Lyngen. Ástand óljóst“. Nokkrum mínútum síðar var hún komin um borð í björgunarþyrlu í Sørlenangsbotn sem hóf sig á loft með stefnu á Lyngen. Í tilfellum á borð við þetta geta mínútur skilið milli feigs og ófeigs.

Susanne hefur margra ára reynslu af snjóflóðabjörgun auk þess að hafa starfað með URE-sveit norska utanríkisráðuneytisins, sem sinnir björgunarstörfum á hamfarasvæðum erlendis, og NOR EMT-hjúkrunarteyminu sem hún fór með til Haítí eftir jarðskjálftann haustið 2021.

Hjúkrunarfræðingurinn átti sannarlega eftir að veita Daníel þá aðstoð sem um munaði næsta klukkutímann þótt hann muni aðeins brot og brot af þeim tíma sem hann lá niðurgrafinn og beið eftir að komast með þyrlu til Tromsø. Þegar mesta áfallið var afstaðið tók sársaukinn frá níu beinbrotum og fleiri kaunum að herja á hverja taug.

Grafinn upp á klukkutíma

„Enginn fer upp til Tobiasar strax, það er ekki fyrr en þriðja þyrlan kemur sem hópur fer þangað og heggur niður greinar í kringum hann, mokar frá honum og setur hann á börur. SAR Queen-björgunarþyrlan fer svo með þá Julius til Tromsø og svo kemur stór björgunarþyrla frá norska hernum,“ segir Daníel sem rámar í sumt, til dæmis man hann eftir hávaðanum og loftþrýstingnum frá þyrlunum sem honum fannst óþægilegur.

Susanne og Spiff liggja við bakið á Daníel til að styðja við hann í snjónum. „Hún var að láta mig gera Wim Hof [hollenskur líkamskælingarfrömuður]-öndunaræfingar og láta mig einbeita mér að öndun. Ég fann fyrir gríðarlegum sársauka þarna sem hún reyndi að tala mig í gegnum, ég fékk engin verkjalyf fyrr en skömmu áður en ég var fluttur og Susanne hjálpar mér að hugleiða mig í gegnum þetta. Það tók klukkutíma að grafa mig upp og bíða eftir börum, hálftíma að pakka mér inn og svo hálftíma að fljúga með mig til Tromsø og þar á undan var ég búinn að liggja fastur í snjónum í einn tíma,“ segir veðurfræðingurinn frá en Daníel kom síðastur þeirra fjögurra sem lifðu á sjúkrahúsið og minningar og tilfinningar eru í torskildum hrærigraut frá tímanum í og eftir flóðið.

„Það fyrsta er að ég man eftir að ég er að detta niður til vinstri og var rosalega hræddur. Svo man ég að ég geri mér grein fyrir að ég er í snjóflóði og að það er stopp. Ég er rosalega ánægður með að höfuðið stendur upp úr snjónum og ég get andað. Ég er búinn með snjóflóðið hugsa ég og man svo eftir að ég er að berjast um í snjónum og reyna að losa mig og vinstri höndin hagar sér eitthvað skringilega,“ rifjar hann upp.

Næst man hann eftir miklum kulda og blæstri og hugsar eitthvað á þá leið að þessi þyrla mætti gjarnan fara í burtu. „Ég er að tala við Susanne í örugglega klukkutíma og man ekki neitt eftir því,“ segir Daníel sem átti fyrir höndum tveggja vikna dvöl á Háskólasjúkrahúsinu í Tromsø. Tólf dagar líða þar til honum eru færð þau tíðindi að Moritz, skólabróðir hans frá Innsbruck og útivistarfélagi síðan, sé látinn.

„Það voru langar samræður og ég skildi að Moritz væri dáinn en ég skildi ekki að hann hefði lent í snjóflóði, hvað þá sama snjóflóði og ég, ég hélt að hann hefði bara dáið heima hjá sér eða eitthvað, ég var með alls konar ranghugmyndir og þetta var mjög skrýtinn tími,“ segir Daníel sem var fluttur til Íslands eftir að hafa varið hálfum aprílmánuði við mjög misjafna meðvitund í höfuðstað Norður-Noregs.

Kvíðinn töluverð áskorun

Hann var allt sumarið frá vinnu á Veðurstofunni. „Ég byrjaði rólega að koma inn frá haustinu og vann mig upp í fimmtíu prósent starf sem ég var búinn að ná í desember og svo hélt ég áfram að bæta við. Það var töluverð áskorun að eiga við kvíða sem ég þjáðist af í hversdagsleikanum en þetta kemur allt til baka og ég er kominn í tæplega fullt starf núna,“ segir Daníel styrkri röddu hins bjartsýna manns. Honum hefur farnast vel við að snúa lífi sínu á réttan kjöl á ný.

Hve mikil vinna er að fara í gegnum endurhæfingu eftir svo umfangsmikið líkamstjón?

„Alveg gríðarleg. Ég var fyrst inni á Grensásdeild í sjúkraþjálfun tvisvar á dag og svo hefur rólega verið dregið úr henni. Ég er enn að mæta í sjúkraþjálfun tvisvar í viku en nú á stofu, ekki spítala. Ég er líka að gera æfingar til að byggja upp þolið og svo mæti ég í ræktina fjórum sinnum í viku. Auðvitað er ég bara að sinna heilsunni en ég kalla þetta endurhæfingu af því að ég er að gera æfingar sem ég gerði ekki áður, eins og að lyfta, ég þarf náttúrulega að byggja upp vöðvamassa af því að ég rýrnaði svo rosalega,“ segir Daníel sem er vanur að vera í mjög mikilli hreyfingu.

Hversdagsleiki Daníels er orðinn tiltölulega eðlilegur núna, þrettán mánuðum eftir daginn í Lyngen sem sveipaður er dimmri þoku í huga hans. „Ég er þokkalega vongóður um að ég eigi eftir að gera mjög mikið, í einhverri mynd, af því sem ég gerði áður. Ég mun kannski ekki geta hlaupið jafn langt eða jafn hratt eða við jafn krefjandi aðstæður en ég vona bara það besta,“ segir hann.

Grípa daginn og lifa núna

Adrian hlaut ekki líkamleg meiðsl en er mjög þjakaður andlega eftir atburðinn. „Hann er enn þá bara að vinna úr þessu öllu og hefur lítið skíðað. Julius fékk náttúrulega opið lærbrot en var mjög snöggur að ná sér, hann sinnti bara sinni endurhæfingu og er farinn að fljúga aftur í paragliding [svifvængjaflugi]. Hann var kominn aftur í fulla vinnu í haust,“ segir Daníel af vinum sínum.

Tobias er farinn að skíða á ný en glímir við þráláta verki í baki og handleggjum. Þeir fjórmenningarnir halda góðu sambandi að sögn Daníels og hafa hist tvisvar eftir snjóflóðið. „Við fórum svo og hittum fjölskyldu Moritz þegar hálft ár og ár var liðið frá slysinu og svo erum við í Facebook-hópi og spjöllum saman,“ segir hann og líður að lokum viðtals. Daníel er spurður út í framtíðina.

„Við strákarnir hittumst ekki það oft og mig rámar óljóst í að hafa verið að ræða framtíðarplön við Moritz á leiðinni að brekkunni. Nú er ég virkur að sinna endurhæfingu því að í framtíðinni langar mig að geta gert meira en ég get í dag. Á sama tíma veit ég að maður verður að grípa daginn og lifa núna, því lífið er svo hverfult og stutt í móðuna miklu.

Mér þykir undarlegt að vera að stokka þessar tvær hugsanir á sama tíma, mér finnst þetta vera þversögn en kannski er það lífið að samtvinna þetta tvennt, langtímamarkmið og núvitund,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur og útivistarmaður, að lokum, kominn um langan veg eftir krefjandi lífsreynslu í Noregi í fyrravor.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson