Þórður Helgi Hannesson fæddist í Reykjavík 14. apríl 1936. Hann lést á dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 4. apríl 2023.

Foreldrar Þórðar voru Ásta Valentína Árnadóttir, f. 23. október 1899, d. 3. ágúst 1992, og Hannes Guðmundsson, f. 29. júlí 1896, d. 17. sept. 1938. Sammæðra systur Þórðar voru Gréta Kristín Jensen, Ingibjörg Jensen og Jytta Jessý Jensen. Albróðir hans var Guðmundur Hannesson.

Þórður flutti ungur að Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi. Þar sinnti hann bústörfum hjá Kjartani Halldórssyni bónda og konu hans, Huldu Tryggvadóttur, og undi því vel. Þórður fluttist í Borgarnes 1998. Hann var mikill fótboltaáhugamaður og fylgdist með liði sínu Arsenal alla tíð. Þórður fluttist á dvalarheimilið Brákarhlíð Borgarnesi í maí 2021 og var þar til hann lést.

Útför hans fór fram í Borgarneskirkju 19. apríl 2023.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Valdemar Briem)

Þessi orð koma í hugann er ég fylgi síðasta spölinn vini mínum til áratuga, Þórði Helga Hannessyni frá Rauðkollsstöðum, eða Dodda á Rauðkollsstöðum, eins og hann var oftast kallaður. Doddi var merkur maður, hann þræddi ekki endilega sömu stíga og aðrir. Úrræði fyrir ungling eins og hann voru ekki mörg á þeim tíma, þ.e. upp úr miðri sl. öld. Hann var sendur í sveit og var einstaklega heppinn með sitt fólk þar. Fólkið á Rauðkollsstöðum tók Dodda vel og reyndist honum alla tíð afskaplega gott og Doddi endurgalt ríkulega. Ég var svo heppinn að búa í nágrenninu í 40 ár og var alltíður gestur á Rauðkollsstöðum og varð okkur Dodda vel til vina. Vænna þótti honum þó um Helga bróður minn, enda er ég mun galsafengnari og meiri galgopi en hann í öllum samskiptum.

Doddi hafði einstaklega góða nærveru, var glaðsinna og skemmtilegur félagi. 1976 varð Doddi fertugur og stóð mikið til, halda skyldi mikið knall á Rauðkollsstöðum en eins og ævinlega voru góð ráð dýr. Ég og sveitungi okkar, Helgi frá Kolviðarnesi, vorum til sjós í Ólafsvík og komumst ekki sökum leiðinlegrar færðar. Við keyptum tvær flöskur og ferðabar og sendum Dodda með rútunni. Sannarlega féll það í góðan jarðveg en Doddi var samur við sig og hélt eftir í barnum góða til vors er við sveitungarnir komum aftur og gerðum góð skil. Úr varð mikið ævintýri sem lengi var í minnum haft.

Ein minning lifði lengi með okkur. Það var þegar við fórum saman á Landbúnaðarsýninguna á Selfossi 1978, þá var mikið gaman. Doddi var hjálpfús og skemmtilegur félagi og aufúsugestur hvar sem hann kom. Í fjöldamörg ár fóru Doddi og Helgi bróðir sem skilamenn í Vörðufellsrétt á Skógarströnd ásamt fleirum. Trúði hann mér fyrir því að um leið og hann kæmi heim byrjaði hann að hlakka til næstu ferðar. Fátt hefur glatt mig meira hin síðari ár en það að Doddi skyldi, þá áttræður, fá Robba frænda sinn til að koma með sig á Selfoss og fagna með mér mínum 60 árum. Ég gæti skrifað margar blaðsíður um okkar skemmtilegheit á okkar yngri árum en geymi þær í minningabankanum.

Kæri Doddi, ég er þakklátur fyrir okkar góðu kynni og það kemur alltaf bros þegar ég hugsa um okkar góðu daga og öll okkar samskipti. Hafðu hjartans þökk fyrir okkar tíma sem við áttum saman, ég er mikið þakklátur fyrir að hafa þekkt þig og átt þig sem vin.

Þinn vinur,

Magnús frá Hrútsholti.