Drónar vekja spurningar, en vöktu þeir Pútín?

Mörgum var brugðið við drónaárás á Kreml, sem sagt var frá í gær, en væntanlega engum þó eins og Pútín forseta sem er eini Rússinn sem almennt er vitað að hafi lögheimili í Virkinu. Styrjöldin í Úkraínu er þar, með öllum sínum ósköpum, en fyrir henni finna menn lítið í landmesta ríki veraldar, svo ekki sé talað um ef horft er af gömlum vana til Sovétsins sáluga, sem gufaði upp sem slíkt fyrir aldarþriðjungi. En mönnum var ekki aðeins brugðið við þessa óvæntu og ótrúlegu árás. Því þótt margur í Kreml og næsta nágrenni vakni upp með óþægindum þá vaknar fleira, þar á meðal fjöldi óþægilegra spurninga. Hverjir voru á bak við þetta? Hvaðan komu drónarnir og hver stýrði þeim?

Pútín vill sjálfsagt hafa það svo að það svar sé augljóst öllum. Þeir komu frá óvinunum í Úkraínu og þeir stjórnuðu þeim. En er víst að forsetinn trúi því sjálfur eða veit hann betur? Enda, eins og fyrr sagði, var fyrsta opinbera ákvörðunin í kjölfar árásanna á Kremlarkastala að borgarstjórinn bannaði flug dróna yfir Moskvu. Pútín spyr kannski sjálfan sig hverjir viti hvar svefnstaður forsetans sé í Kreml. Kallar árásin á að í næstu framtíð verði leitað niður í enn meira öryggi fyrir svefnstað handa forsetanum? En slíkt mætti þá ekki fréttast, því það myndi veikja stöðu forsetans.

En svo eru hinir sem segja að skýringin á þessum atburðum sé önnur og nærtækari. Hvers vegna var drónunum skotið og hvers vegna tókst svona vel að granda þeim báðum? Og hvers vegna náðust myndir af svo óvæntum atburðum og hvers vegna voru þær myndir birtar? Eftir árásir nóta Hitlers á Buckinghamhöll í Lundúnum, sem gerðu verulegan skaða, birtust myndir af Georg VI. og drottningu hans að klöngrast um rústir við þann hluta hallarinnar sem varð fyrir árás. Á þeim tíma birtust engar myndir opinberlega nema yfirvöld legðu blessun yfir það. Það var mat Churchills að myndirnar skyldu birtast. Og það reyndist rétt. Myndirnar ýttu undir samkennd Breta sem sáu að konungshjónin dveldu enn í höfuðborginni á þessum ógnartímum þótt dætur þeirra væru eins og önnur börn fluttar í öryggi sveitanna, því að flugþol nasistavélanna var enn of lítið til að ógna þeim þar.

Kannski gerir drónaárásin á Kreml Pútín gott á þeim tímum sem flutningum á líkpokum heim frá Úkraínu fjölgar óþægilega mikið. En svo er ekki útilokað að einhverjum í Moskvu og nærsveitum væri ekki eftirsjá að Pútín úr því sem komið er.