Lífsskilyrði Könnun Vörðu bendir til að hagur vinnandi fólks hafi versnað á sl. ári og þeim hafi fjölgað sem eiga erfitt með að ná endum saman.
Lífsskilyrði Könnun Vörðu bendir til að hagur vinnandi fólks hafi versnað á sl. ári og þeim hafi fjölgað sem eiga erfitt með að ná endum saman. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Ríflega einn af hverjum þremur launþegum innan ASÍ og BSRB glímir við þunga byrði vegna húsnæðis og þar af bera rúm 54% einstæðra foreldra þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Vaxandi húsnæðiskostnaður íþyngir sérstaklega leigjendum og ungu fólki og meira en helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna segist búa við slæma andlega heilsu. Þá býr tæplega fjórðungur einstæðra foreldra við efnislegan skort um þessar mundir og fast að þriðjungur þeirra getur ekki greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ríflega einn af hverjum þremur launþegum innan ASÍ og BSRB glímir við þunga byrði vegna húsnæðis og þar af bera rúm 54% einstæðra foreldra þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Vaxandi húsnæðiskostnaður íþyngir sérstaklega leigjendum og ungu fólki og meira en helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna segist búa við slæma andlega heilsu. Þá býr tæplega fjórðungur einstæðra foreldra við efnislegan skort um þessar mundir og fast að þriðjungur þeirra getur ekki greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna.

Þessar upplýsingar koma fram í niðurstöðum viðamikillar könnunar Vörðu-Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins á lífsskilyrðum launafólks sem birtar voru í skýrslu í gær. Rannsóknin sem gerð var í febrúar og byrjun mars náði til launþega í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Öllum félagsmönnum stóð til boða að taka þátt og svöruðu tæplega 14.200 eða 8,5% spurningum í könnuninni.

Fjárhagsstaða einstæðra foreldra er sögð vera verst meðal vinnandi fólks. Í ljós kemur að fjárhagsstaða kvenna er verri en karla á alla helstu mælikvarða könnunarinnar. Þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman fer fjölgandi miðað við fyrri kannanir. Tæpur helmingur vinnandi fólks segist eiga erfitt með að ná endum saman samanborið við ríflega þriðjung í sambærilegri könnun í fyrra.

Þegar spurt var hvort svarendur gætu mætt óvæntum 80 þúsund kr. útgjöldum kom í ljós að allt að fjórir af hverjum tíu sögðust ekki geta það án þess að stofna til skuldar. Hefur hlutfall þeirra hækkað frá því í fyrra. Ríflega sex af hverjum tíu einstæðum mæðrum geta ekki mætt óvæntum 80 þús. kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar. 52% kvenna með erlendan bakgrunn töldu sig ekki geta mætt slíkum útgjöldum og 44,7% innflytjendakvenna og 41,5% innfæddra kvenna voru á sama máli.

„Tæplega þrjár af hverjum tíu einstæðum mæðrum geta ekki greitt kostnað vegna félagslífs hjá börnum sínum sökum fjárskorts og ríflega tveir af hverjum tíu einstæðum feðrum,“ segir í niðurstöðunum.

Þriðja árið í röð mælist staða innflytjenda mun verri en innfæddra Íslendinga. Meira en helmingur þeirra á mjög erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt með að ná endum saman og ríflega fjórir af hverjum tíu búa við slæma andlega heilsu skv. könnuninni.

„Starfstengd kulnun mælist hjá 9,4% launafólks innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB,“ segir í skýrslunni. Hlutfall þeirra sem mælast með kulnun er þó mismunandi eftir hópum en kulnun er mun algengari í ákveðnum geirum en öðrum. „Hlutfallslega eru flest sem starfa í mötuneytum og veitingahúsum (15,4%) með starfstengda kulnun og sama á við um nokkurn hluta þeirra sem starfa við ræstingar (14,3%), í fræðslu-, uppeldis-, kennslu og tómstundastarfi (12,2%), heilbrigðisþjónustu (11,8%), ferðaþjónustu og farþegaflutningum (11,3%), í afgreiðslu, þjónustu og útkeyrslu á vörum (9,7%) og við almannaöryggi og dómsmál (8,6%).“ Ennfremur kom í ljós að þeir sem eru 30 ára og yngri, innflytjendur, fólk með erlendan bakgrunn, fólk með annan húðlit en hvítan, samkynhneigt fólk og fólk með fötlun/skerta starfsgetu höfðu í mun meira mæli en aðrir orðið fyrir réttindabrotum á vinnumarkaði.

Félagslíf og fatnaður

Geta ekki greitt vegna barna sinna

Kannað var í rannsókn Vörðu hvort fjárskortur á sl. 12 mánuðum hefði komið í veg fyrir að launafólk gæri greitt ýmislegt fyrir börn sín, s.s. leikskólagjöld, tómstundir, fatnað o.fl. Í ljós koma að 15,1% sagðist ekki hafa getað greitt fyrir nauðsynlegan fatnað og fyrir afmælis- og/eða jólagjafir. Rúmlega 23% einstæðra mæðra sögðust ekki hafa getað greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda barna sinna samanborið við 12,4% einstæðra feðra. 12,9% foreldra í könnuninni sögðust ekki hafa getað keypt eins næringarríkan mat og þau töldu barnið þurfa. Greining á þörf á fjárhagsaðstoð leiðir í ljós að algengast er að einstæðar mæður hafi þurft að sækja sér aðstoð eða 37,7%. Hlutfall einstæðra feðra er einnig hátt eða 22,4% og innflytjendakvenna 17,2%.

Höf.: Ómar Friðriksson