Einar K. Guðfinnsson sendi mér góðan póst: „Vordagarnir hafa verið bjartir en kaldir. Kristjana Sigríður Vagnsdóttir á Þingeyri yrkir“: Kuldinn hrekkir kátan mann kæfir bros á vanga. Vindur strekkir, verkið kann vandi er út að ganga

Einar K. Guðfinnsson sendi mér góðan póst: „Vordagarnir hafa verið bjartir en kaldir. Kristjana Sigríður Vagnsdóttir á Þingeyri yrkir“:

Kuldinn hrekkir kátan mann

kæfir bros á vanga.

Vindur strekkir, verkið kann

vandi er út að ganga.

Fæ ég allt, en fæst mér ber

fuglinn úti tístir.

Kaffisopinn kær er mér

kuldinn úti nístir.

Margt er það sem gamlir geyma

gamlir draumar lyfta streng.

Lít ég oft i lognið heima,

langar mig í liðinn feng.

Á Boðnarmiði segist Friðrik Steingrímsson hafa fundið hálffulla bjórdós í bílskúrnum og mundi þá eftir að hafa fengið sér sopa þegar hann var að fella net seint í janúar, - þetta var lítil dós:

Aldeilis bætir um betur

bjór sem ég opnaði'í vetur,

hann yljar mér enn

eftir óveður þrenn.

Það er undur hvað einn lítill getur.

Björn Ingólfsson svarar: „Mann grunar að fleiri hafi komist í þennan bjór“:

Í dollunni dágóðar restar

og dreggjar á botninum, sestar.

Svo fékk hann sér smakk

og fann er hann drakk

að flugurnar þær voru bestar.

Friðrik Steingrímsson aftur:

Dreggjarnar dásemdum líkar

svo dandala góðar sem slíkar,

kæta mitt geð,

og góðar þar með

pöddur af próteini ríkar.

Gunnar J. Straumland:

Friðrik sá dauðvona bjór í bauk

brosti og hristi makkann.

Svo vitaskuld áður en yfir lauk

örvasa bjórinn drakk hann.

Magnús Halldórsson:

Maðurinn fær magnað hrós,

mitt „like“ set.

Fyrir það að finna dós

og fella net.

Ásta Sverrisdóttir:

Hófdrykkjuna mikið met

en markið kannski þarna set?

Ef opnað bjór ég aldrei get,

utan þess að fella net?


„Á fögru sumarkvöldi“ eftir Guðmund Arnfinnsson:

Ljómar Sunnu lokkaflóð,

leikur á munni vísa góð,

brosir Gunna glöð og rjóð,

geislar brunnu á ránarslóð.