Ragnheiður Þorsteinsdóttir fæddist 7. október 1934 í Markarskarði Hvolhreppi. Hún lést á Hrafnistu Hafnarfirði 20. apríl 2023.

Foreldrar hennar voru Guðrún Ingvarsdóttir, f. 17. júní 1901, d. 1981, og Þorsteinn Runólfsson, f. 12. janúar 1899, d. 28. júní 1960. Hún átti systkinin Sigríði, f. 14. mars 1928, d. 2. desember 1939, og Ingvar Pétur, f. 20. mars 1929.

Ragnheiður giftist 16. október 1955 Karli Guðgeiri Guðmundssyni, f. 11. september 1930, frá Barðsnesgerði í Norðfjarðarhreppi. Þau slitu samvistir 1989.

Sambýlismaður Ragnheiðar var Reynir Guðmundsson, f. 17. september 1937. Bjuggu þau saman í 20 ár þar til Ragnheiður fór á Landspítalann í júlí 2022 og síðar á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Börn Ragnheiðar og Karls eru: 1) Þorsteinn Jósep, f. 17. ágúst 1955. 2) Sigríður Guðrún, f. 15. mars 1959, maki Ragnar Benjamín Ingvarsson, f. 14. febrúar 1958. Börn þeirra eru a) Heiðar Karl, f. 27. janúar 1986, maki Vilborg Harðardóttir. Börn þeirra Aníta Ýr, Aron Ingi og Benjamín Ari, b) Þóra Björg, f. 23. apríl 1991, og c) Sindri Pétur, f. 31. maí 1996, d. 5. janúar 2015. 3) Hjalti Guðbjörn, f. 17. mars 1962, maki Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir, f. 17. apríl 1968, börn þeirra eru a) Guðlaug Sunna Gränz, f. 11. nóvember 1990, maki Olgeir Gunnsteinsson, börn þeirra Frans Ágúst og Valur Kári, b) Guðrún Heiða, f. 22. desember 2001, c) Ólöf Aníta, 15. júlí 2003, og Hjalti Freyr, f. 8. janúar 2005.

Ragnheiður ólst upp í Markarskarði í Hvolhreppi við sveitastörf. Eftir að hafa tekið saman við Karl G. Guðmundsson fluttu þau til Hafnarfjarðar.

Ragnheiður, sem ávallt var kölluð Heiða, vann við hannyrðir og sá um bókhald í heildsölu þeirra hjóna, Heildverslunin Karl og Birgir.

Ragnheiður og Karl byggðu Holtagerði 34 í Kópavogi en bjuggu þar til 1978. Þá byggðu þau Hofslund 6 í Garðabæ. Eftir skilnaðinn flutti Ragnheiður í Kjarrmóa og síðar í Bæjargil.

Heiða var handlagin og var einstaklega umhyggjusöm og lét sér annt um fjölskyldu sína, ættingja og vini. Heiða var mikil félagsvera og hafði einstaka unun af samkvæmisdönsum.

Ragnheiður verður jarðsungin frá Garðakirkju Álftanesi í dag, 4. maí 2023, klukkan 13.

Elsku mamma. Nú er kallið komið, þú valdir svo fallegan og sólríkan dag fyrir hvíldina löngu. Ég á erfitt með að setja þessar línur á blað. Minningar hrannast upp og eru þær allar tengdar gleði, hlýju, ást og umhyggju. Af mörgu er að taka, mig langar að telja upp stundir úr æsku, uppvexti, stundir sem þú varst mér við hlið, bros þitt, hlátur og stríðni. Þegar Sindri Pétur minn fór þá stóðstu þétt við bakið á mér. Þú varst ávallt stoð mín og stytta, ég gat alltaf leitað til þín.

Hjálpin sem þú veittir mér með börnin mín, aðalsportið var að fá að gista hjá ömmu Heiðu eða hvað þá að fara með þér upp í hesthús og hjálpa til með hestana. Iðulega var pantaður ömmu Heiðu klessugrjónagrautur sem var afar vinsæll, sem mér hefur ekki ennþá tekist að fullkomna eins og þér tókst.

Þú varst frábær kokkur og bakari. Það voru okkar uppáhaldsstundir þegar við fjölskyldan vorum í mat eða kaffi hjá þér, þú elskaðir að vera umkringd fólkinu þínu. Allt sem þú tókst þér fyrir hendur gerðir þú svo vel. Það sem þú saumaðir eða prjónaðir var allt svo vel gert og fallegt, þér fannst langskemmtilegast að nota íslensku ullina. Ég var heppin að þú kenndir mér handverkið sem ég bý að í dag. Þú ert svo sannarlega fyrirmynd mín og ég leit svo upp til þín.

Þú varst svo félagslynd og hafðir svo gaman af söng og dansi. Þú elskaðir að vera í sveitinni og vera í kringum dýr. Þú áttir svo auðvelt með að ná til allra dýra, þú varst svo yndisleg og hlý, elsku mamma. Þú kenndir mér að meta sveitina og umgangast dýr.

Ég hugsa stundum til þess þegar við vorum að fara í sveitina, þú og Sigga frænka voruð með fjögur börn í lítilli Volkswagen-bjöllu. Við sátum í klessu aftur í, innan um öll kökuboxin, því eins og ykkur var líkt voruð þið búnar að baka kræsingar fyrir heila fermingarveislu.

Elsku mamma mín, ég á þér svo margt að þakka og að hafa átt þig að. Þú elskaðir barnabörnin þín og barnabarnabörnin undurblítt. Ég veit þú ert komin á betri stað þar sem vel hefur verið tekið á móti þér. Nú veit ég að þið pabbi passið Sindra Pétur minn fyrir mig og þið vakið yfir okkur.

Ég elska þig alltaf.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Takk fyrir allt mamma mín.

Sigríður Guðrún
Karlsdóttir.

Þitt skip

gert úr ljósi

af skuggahafi snýr.

Við skiljum

aldrei

hvað í mönnum býr

Þinn áfangastaður

ókunn framtíð

manns

og ónumin strönd

þíns fyrirheitna

lands.

(Gunnar Dal)

Mamma, tengdamamma eða bara amma Heiða eins og hún var almennt kölluð í fjölskyldunni var skip gert úr ljósi. Amma Heiða bjó yfir einstakri mildi, gæsku hógværð og kímni sem börnin okkar minnast sérstaklega eftir að amma þeirra er farin á strönd hins fyrirheitna lands. „Amma var yndisleg, hún byrsti sig aldrei, hún var svo ljúf.“

Mamma Ragnheiður eða amma Heiða hafði sterkar taugar í sveitina, Markarskarð í Hvolhreppi þar sem hún er uppalin. Hún hafði sérstakt lag á dýrum. Hún var í hestamennsku alla sína tíð og laðaði að sér villiketti sem vildu nær enga aðra menn sjá en hana. Undirrituð sáu t.a.m. aldrei þessa ketti því þeir voru villtir, en þegar Heiða kom að gefa hestunum og þeim þá tóku kettirnir gjarnan stutta göngu um hesthúsasvæðið með henni. Kettirnir launuðu henni svo húsaskjólið með því að halda hesthúsunum músheldum.

Amma Heiða var höfðingi heim að sækja. Hjá Heiðu var alltaf eitthvað til með kaffinu; kökur, pönnsur, vöfflur nú eða bara kremkexið frá Frón. Hún naut þess að baka á meðan heilsan leyfði og bakaði fyrir skírnir, afmæli eða önnur tilefni hjá okkur eins og hendi væri veifað. Kökurnar hennar smökkuðust líka einhvern veginn betur en aðrar kökur. Kannski vegna þess að þær voru bakaðar í kærleika og af alúð.

Á stóru heimili, þegar annir eru miklar þá er dýrmætt að hafa ömmu og afa eins og ömmu Heiðu og afa Reyni sem sóttu barnabörnin í leik- eða grunnskólann og gáfu þeim dýrmætar minningar sem þau ylja sér við núna. Við skiljum svo miklu betur núna hvað hún amma Heiða skilur eftir sig. Hún skilur ekki bara eftir sig minningar um skemmtilega, ljúfa og hógværa konu heldur einstakling sem lifir með okkur áfram í ljúfum minningum. Bjart skip sem farið er á ónumda strönd, blessuð sé minning þín kæra móðir, tengdamóðir, amma og langamma.

Hjalti, Jóhanna og fjölskylda.

Elsku amma mín. Ég er svo þakklát fyrir okkar samband. Þú varst mín allra besta vinkona, alltaf svo hlý og góð við mig. Eftir erfiðan dag var alltaf hægt að hringja í ömmu og allt varð aðeins betra.

Allt sem þú gerðir var gert af miklum kærleik og litlu hversdagslegu hlutirnir voru svo fallegir í kringum þig. Þú kenndir mér að vera sterk, jákvæð og að góðmennskan sigrar allt. Að hugsa til návistar þinnar kemur til með að hlýja mér út lífið. Að heyra þig segja „Þóra mín“ hefur mér alltaf þótt svo vænt um, það hefur enginn ávarpað mig með svo mikilli væntumþykju.

Það er erfitt að velja úr minningabankanum, því stundirnar okkar saman eru ófáar og allar jafn dýrmætar. Þegar ég fékk að koma og gista, þegar við horfðum saman á Pollýönnu helgi eftir helgi, dönsuðum gömlu dansana á stofugólfinu, kenndir mér að baka, hesthúsa- og sveitaferðirnar og þegar við mamma vorum að gera þig fína áður en þú fórst að dansa eða þegar við fórum í Fjarðarkaup saman að kíkja á úrvalið. Hjá ömmu var alltaf svo rólegt og gott að vera, nægur tími og fullt hús af kærleik.

Takk fyrir að vera fyrirmynd mín, takk fyrir að vera besta vinkona mín og takk fyrir að vera amma mín.

Þín

Þóra Björg.