Úr helju Daníel Þorláksson slasaðist alvarlega í Lyngen í fyrra.
Úr helju Daníel Þorláksson slasaðist alvarlega í Lyngen í fyrra. — Morgunblaðið/Eggert
„Allur apríl er bara rosalega skrýtinn og ég treysti engum minningum þaðan. Ég var með miklar ranghugmyndir og á sterkum ópíóðalyfjum og vissi ekkert hvar ég var. Ég vissi ekki einu sinni að ég væri á sjúkrahúsi.“ Þetta segir Daníel…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Allur apríl er bara rosalega skrýtinn og ég treysti engum minningum þaðan. Ég var með miklar ranghugmyndir og á sterkum ópíóðalyfjum og vissi ekkert hvar ég var. Ég vissi ekki einu sinni að ég væri á sjúkrahúsi.“

Þetta segir Daníel Þorláksson veðurfræðingur í samtali við Morgunblaðið, vanur fjalla- og skíðamaður sem undanfarin ár hefur hitt fjóra vini sína úr veðurfræðinámi í Innsbruck í Austurríki um miðjan síðasta áratug, og þeir brugðið skíðunum undir sig.

Þrítugasta mars í fyrra varð sá atburður í Lyngen í Norður-Noregi sem vinunum líður seint úr minni og einn úr vinahópnum átti ekki afturkvæmt frá. Þeir lentu þar í snjóflóði sem átti upptök sín beinlínis undir fótum þeirra og bárust niður bratta hlíð.

Sat Daníel fastur í snjónum, beinbrotinn á níu stöðum með samanfallið lunga, slitin og sködduð liðbönd og úr hnjálið. Hjúkrunarfræðingurinn Susanne Bengtsson lá hjá Daníel og hjálpaði honum að hugleiða sig gegnum nístandi sársauka þar til hann var grafinn upp.

Næstu tvær vikurnar var hann í öndunarvél á Háskólasjúkrahúsinu í Tromsø, illa áttaður og mikið til úr tengslum við raunveruleikann. Hann var ekki viss um hvað verið væri að segja honum þegar hann fregnaði andlát eins vinanna.

„Það voru langar samræður og ég skildi að Moritz væri dáinn en ég skildi ekki að hann hefði lent í snjóflóði, hvað þá sama snjóflóði og ég, ég hélt að hann hefði bara dáið heima hjá sér eða eitthvað, ég var með alls konar ranghugmyndir og þetta var mjög skrýtinn tími,“ rifjar Daníel upp sem var fluttur til Íslands um miðjan apríl þar sem löng og ströng bataganga hófst.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson