Álfaslóð Bryndís Fjóla Pétursdóttir fylgir fólki um Huldustíginn þar sem enginn veit hvað mun fyrir augun bera.
Álfaslóð Bryndís Fjóla Pétursdóttir fylgir fólki um Huldustíginn þar sem enginn veit hvað mun fyrir augun bera. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Hér í Lystigarðinum leynist líf,“ segir Bryndís Fjóla Pétursdóttir á Akureyri. Framtak hennar, sem hér er til frásagnar, er nýsköpunarverkefnið Huldustígur sem hún hefur unnið að í vetur. Hún teiknaði yfirlitskort af Lystigarðinum á Akureyri, sem sýnir hvar huldufólk og álfar búa í garðinum. Uppsetningu kortsins í Lystigarðinum ætlar hún að fylgja eftir með því að bjóða upp á skipulagðar gönguferðir með leiðsögn um skrúðgarðinn í höfuðstað Norðurlands.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hér í Lystigarðinum leynist líf,“ segir Bryndís Fjóla Pétursdóttir á Akureyri. Framtak hennar, sem hér er til frásagnar, er nýsköpunarverkefnið Huldustígur sem hún hefur unnið að í vetur. Hún teiknaði yfirlitskort af Lystigarðinum á Akureyri, sem sýnir hvar huldufólk og álfar búa í garðinum. Uppsetningu kortsins í Lystigarðinum ætlar hún að fylgja eftir með því að bjóða upp á skipulagðar gönguferðir með leiðsögn um skrúðgarðinn í höfuðstað Norðurlands.

Fjölbreytt flóra en hitt vita færri …

Í Lystigarðinum er afar fjölbreytt flóra, bæði blóma og trjáa, sem gerir staðinn eftirtektarverðan. Hitt vita færri að þarna eru heimkynni huldufólks og þeim ætlar Bryndís að segja frá í skipulögðum ferðum nú í sumar. Nánari tímasetningar þeirra verða kynntar á vefslóðinni huldustigur.is. Í júní verður til að mynda hægt að fá gönguferðir með leiðsögn með á fyrirframauglýstum tímum eða senda óskir um einkaferðir með fjölskyldur eða vinahópa.

Huldustígur heitir slóðin í Lystigarðum sem farin verður. Upphafspunkturinn þar er Jónshús, gegnt Eyrarlandsstofu, ofarlega í garðinum en þar verður kortið sett upp. Neðar í garðinum eru svo heimkynni álfanna sem vitjað verður.

Heilarinn frá Ási í Noregi

Huldufólk er, að sögn Bryndísar Fjólu, á mörgum stöðum í Lystigarðinum en þau í hópnum sem buðu sig fram í verkefnið eru teiknuð inn á kortið og leggja sig fram við að fræða og leyfa fólki að leita til sín.

„Vissulega er til fólk sem hlær og gerir lítið úr öllum frásögnum um álfa og huldufólk. Slíkt er í góðu lagi og ég læt slíkt ekkert á mig fá. Hef verið skyggn svo lengi sem ég man og efast bókstaflega ekki um neitt í þessu sambandi,“ segir leiðsögukonan í Lystigarðinum og setur upp dularfullt bros.

Huldufólkið sem segir frá í gönguferðum Bryndísar Fjólu eru Pia, Lovísa og Heimir. Heimkynni þeirra eru neðst í Lystigarðinum, nærri Eyrarlandsvegi, enda þótt verur skoppi víða um svæðið og séu einstaklega léttar á fæti. Pia barst til Íslands árið 1984 með fræi af síberíuepli sem til Íslands kom frá landbúnaðarskólanum í Ási í Noregi. Pia, sem er heilari með lækningamátt, einfaldlega fylgdi fræjunum og hefur unað sér vel á Íslandi. Lovísa er lagin garðyrkjukona rétt eins og huldumaðurinn Heimir, sem er búhöldur góður.

„Reyndar er Heimir svolítið forn í háttum, en er samt vænsti karl. Fólk mun ábyggilega sjá honum bregða hér fyrir en ef ekki skynja nærveru hans. Fólk er vissulega mismunandi næmt fyrir huldum verum, en flestir hafa þó væntanlega einhverja tilfinningu fyrir slíkum,“ segir Bryndís Fjóla sem í gönguferðum sínum kveðst vera áfram um að ná til barna, til dæmis með fjölskyldum sínum. Einnig farþega á skemmtiferðaskipum sem koma til Akureyrar, en það fólk fer víða um bæinn meðan skipin eru í höfn og vantar jafnvel áhugaverða afþreyingu.

Löng saga Lystigarðsins

Á næstunni verður, sem fyrr segir, sett upp kort nærri innganginum í Lystigarðinn sem vísar fólki á Huldustíginn. Einnig verður hægt að fá upprúllað kort prentað á lín og fá þannig upplýsingar um svæðið.

„Í gönguferðunum góðum mun ég tala við fólk um huldufólkið og álfana sem búa í garðinum og á Íslandi almennt. Slíkt undirstrikar mikilvægi samtalsins við náttúruna á okkar tímum, þar sem sjálfbær þróun vegur þungt í því að tengja saman umhverfi, náttúru, samfélag og efnahag,“ segir Bryndís Fjóla sem er garðyrkjumenntuð og starfaði lengi á þeim vettvangi, árum saman til dæmis í Mörk í Fossvogi í Reykjavík. Nú er heimavöllur hennar hins vegar Norðurlandið í ýmsum víddum.

Stofnað var til hins fallega skrúðgarðs á Akureyri árið 1909 þegar nokkrar húsmæður í bænum sóttu um og fengu eins hektara spildu á Brekkunni í landi Stóra-Eyrarlands – skammt sunnan við hús Menntaskólans. Anna Catrine Schiöth skipulagði og teiknaði fyrsta hluta garðsins og hóf ræktunarstarfið. Tengdadóttir hennar, Margrethe Schiöth, tók síðar við stjórn mála og sinnti garðinum um áratugaskeið. Lystigarðurinn er fyrsti almenningsgarður landsins og var rekinn af áhugamannafélagi til ársins 1953. Þá var félagið lagt niður og Akureyrarbær tók formlega við rekstrinum og hefur sinnt honum æ síðan, segir á heimasíðu garðsins.

Lystigarðurinn hefur verið stækkaður þrisvar sinnum og er nú um 3,6 hektarar. Einn mikilvægasti tilgangurinn með garðinum er að reyna þar ræktun ýmissa harðgerra tegunda auk þess að vera Akureyringum og öðrum sem staðinn heimsækja til mikils yndis og skemmtilegrar afþreyingar.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson