Ásdís Hrefna Ármanns Feifer fæddist í Reykjavík 4. maí 1943. Hún lést á heimili sínu í Bandaríkjunum 13. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Guðrún Runólfsdóttir, f. 1917 í Reykjavík, d. 1985, og Ármann Kr. Einarsson, f. 1915 í Biskupstungum, d. 1999. Systur Ásdísar eru Hrafnhildur Elka og Kristín Guðrún.

Eiginmaður Ásdísar er Peter Feifer. Þau giftu sig 4. maí 1982. Fyrri eiginmaður hennar var William Driggers. Þau skildu.

Ásdís var barnlaus.

Bálför var gerð í Bandaríkjunum og jarðsett hefur verið í Gufuneskirkjugarði hjá foreldum hennar að ósk hinnar látnu.

Elsku Ásdís systir mín hefði orðið 80 ára í dag hefði hún lifað, en því miður andaðist hún á heimili sínu eftir erfið veikindi hinn 13. júlí 2022. Hún bjó í Flórída, lengst af í Palm Harbor. Hún fluttist þangað árið 1964 ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum William Driggers, alltaf kallaður Bill, en honum hafði hún kynnst á Keflavíkurflugvelli. Eftir að hún kom til Bandaríkjanna lærði hún hárgreiðslu og opnaði sína eigin hárgreiðslustofu á efri hæð í húsinu sínu. Hárgreiðslustofan gekk svo vel að Bill kallaði hana alltaf „gullnámu Ásdísar“.

Eftir að Ásdís og Bill skildu kynntist hún myndarlegum og traustvekjandi dönskum manni, Peter Feifer. Þau stofnuðu húsgagnaverslanir með

skandinavísk húsgögn í Flórída.

Ásdís og Pétur tóku oft á móti okkur fjölskyldunni auk annarra vina og frændfólks. Allir voru velkomnir og farið var í kynnisferðir á bestu og fallegustu staðina í Flórída ásamt öðrum stöðum sem yndislegt var að njóta. Sérstaklega er mér minnisstætt hvað þau tóku vel á móti okkur

fjölskyldunni þegar við hjónin dvöldum vetrarlangt við nám í háskóla í Flórída. Stuðningur þeirra og aðstoð var ómetanleg á allan hátt.

Um jólin kom svo stórfjölskyldan frá Íslandi í heimsókn til Flórída og allur hópurinn fór í „cruise“-siglingu sem Ásdís hafði skipulagt. Sú ferð var öllum ógleymanleg.

Ásdís var skemmtileg og dugleg kona og kom sér vel hvar sem hún fór.

Ég kveð þig elsku Ásdís systir mín.

Friður fylgi þér.

Kristín systir.

Hinn 13. júlí á síðasta ári lést frænka mín sem ég leit á sem aðra mömmu mína.

Hún flutti til Flórída í Bandaríkjunum aðeins 19 ára gömul og bjó þar fram að dánardegi 79 ára að aldri.

Hún var mjög skemmtilegur karakter og svakalega góð í því sem hún tók sér fyrir hendur. Frábær vinur, kokkur, tennisspilari og golfari.

Sem krakki fór ég oft til hennar og Péturs eiginmanns hennar og eftir að við Bjarki byrjuðum saman fyrir 31 ári fórum við oft til þeirra.

Það var alltaf jafn krúttlegt þegar við vorum hjá þeim og einhver hringdi í þau, þá sögðu þau alltaf „the kids are here“ þótt við vorum værum farin að nálgast fimmtugsaldurinn.

Á síðustu árum var heilsu hennar farið að hraka og í fyrra vorum við mikið hjá þeim að aðstoða við umönnun hennar.

Ég var hjá henni fram að dánardegi og er þakklát fyrir að hafa haldið í höndina á henni þegar hún lést.

Eiginmaður hennar kom til landsins til að halda útförina, því hún vildi hvíla hjá mömmu sinni og pabba á Íslandi.

Daginn sem jarðsetja átti var veðrið kolbrjálað svo fresta þurfti jarðsetningunni en við héldum minningarathöfn með nánustu fjölskyldu.

Mikið var talað um að hún hefði séð um veðrið því hún mátti aldrei missa af neinum veislum. Daginn eftir skein sólin henni til heiðurs og við fjölskyldan settum kerið niður.

Blessuð sé minning minnar fallegu frænku, Ásdísar Hrefnu Ármanns Feifer.

Þín frænka,

Guðrún Eva.