Fyrst að landa Sóley ÞH varð fyrsti strandveiðibáturinn sem landar á vertíðinni á Húsavík. Báturinn kom til hafnar að morgni þriðjudags.
Fyrst að landa Sóley ÞH varð fyrsti strandveiðibáturinn sem landar á vertíðinni á Húsavík. Báturinn kom til hafnar að morgni þriðjudags. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Fiskistofu bárust alls 535 umsóknir um veiðileyfi á strandveiðitímabilinu. Alls höfðu verið gefin út 517 leyfi þegar veiðar hófust síðastliðinn þriðjudag. Umsóknir um strandveiðileyfi fyrir vertíðina 2023 voru að þessu sinni í afgreidd í gegnum…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Fiskistofu bárust alls 535 umsóknir um veiðileyfi á strandveiðitímabilinu. Alls höfðu verið gefin út 517 leyfi þegar veiðar hófust síðastliðinn þriðjudag. Umsóknir um strandveiðileyfi fyrir vertíðina 2023 voru að þessu sinni í afgreidd í gegnum stafrænt umsóknakerfi Ísland.is og er það í fyrsta sinn sem slíkt er gert.

„Með þessari breytingu er þjónusta við strandveiðisjómenn bætt til muna þar sem kerfið er notendavænt sjálfsafgreiðslukerfi og leyfi afgreitt samstundis ef öll skilyrði eru uppfyllt. Áður gat tekið allt að tvo daga að fá útgefið leyfi og voru þau gefin út handvirkt og útgáfa háð afgreiðslutíma stofnunarinnar,“ segir í tilkynningu á vef Fiskistofu.

„Með breyttri og einfaldari framkvæmd leggur Fiskistofa mikla áherslu á að gögn varðandi eignarhald skips og útgerðar séu fullnægjandi og hefur útgáfa einhverra leyfa tafist vegna gagnaöflunar. Heilt yfir hefur þó afgreiðsla umsókna gengið mjög vel og án teljandi vandkvæða.“

Óttast stopp

Landssamband smábátaeigenda fullyrðir á vef sínum að þessi fjöldi útgefinna leyfa sé til marks um aukinn áhuga á strandveiðunum þar sem aðeins 409 leyfi höfðu verið gefin út við upphaf tímabils í fyrra og 309 leyfi á upphafsdegi árið 2021.

Getgátur eru þó um að fjöldinn sé einnig vísbending um ótta vegna þess að veiðitímabilinu lauk óvenju snemma á síðasta ári þar sem heimildir strandveiðibáta í þorski kláruðust um miðjan júlí. Strandveiðum er úthlutað tíu þúsund tonnum af þorski og fær hver bátur 12 daga í fjóra mánuði, maí, júní, júlí og ágúst, en veiðar geta stöðvast klárist aflaheimildirnar.

Einnig eru líkur á að rekja megi aukinn fjölda á upphafsdegi til aukinnar skilvirkni við afgreiðslu leyfisumsókna.