Í Færeyjum Maria Rich og Ulrich Thomsen.
Í Færeyjum Maria Rich og Ulrich Thomsen.
Ég hámhorfði fyrir nokkru á dönsk-færeysku þáttaröðina Trom, sem sýnd er á Sjónvarpi Símans Premium, en þættirnir eru byggðir á skáldsögum færeyska rithöfundarins Jógvans Isaksens

Kristín Heiða Kristinsdóttir

Ég hámhorfði fyrir nokkru á dönsk-færeysku þáttaröðina Trom, sem sýnd er á Sjónvarpi Símans Premium, en þættirnir eru byggðir á skáldsögum færeyska rithöfundarins Jógvans Isaksens. Í Trom segir af blaðamanninum Hannis Martinsson sem rannsakar hvarf dóttur sinnar, hverrar tilvist hann ekki vissi af, og við sögu koma aðgerðasinnar, sægreifar og fleira fólk. Í hlutverki Hannis er hinn sallafíni danski leikari Ulrich Thomsen, sem margir þekkja úr bæði dönskum kvikmyndum og þáttaröðum sem og annarra þjóða kvikmyndum. Í hlutverki rannsóknarlögreglunnar er danska leikkonan Maria Rich en eftir henni ættu margir að muna sem bankastarfsmanni í hinni mögnuðu þáttaseríu Bedrag, sem sýnd var á RÚV. Þáttaserían Trom ku vera fyrsta glæpaserían sem tekin er upp í Færeyjum og leikstjórar hennar eru tveir, Daninn Kasper Barfoed og hinn íslenski Davíð Óskar Ólafsson. Trom eru prýðilegir þættir og hrein nautn að sjá fegurðina í Færeyjum, bæði náttúruna og yndislegu litlu húsin þeirra. Eins er góð tilbreyting að heyra fallegu færeyskuna. Máske hefði mátt eyða meiri tíma í dýpri persónusköpun, en þó er þetta fíneríis afþreying sem vert er að sjá.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir