Tjörnin Gosbrunnar hafa glatt vegfarendur við Tjörnina í áraraðir.
Tjörnin Gosbrunnar hafa glatt vegfarendur við Tjörnina í áraraðir. — Morgunblaðið/Ómar
Gosbrunnurinn sem síðast skreytti Reykjavíkurtjörn er ekki lengur nothæfur eftir alllanga þjónustu en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort fjárfest verði í öðrum. Kjörnir fulltrúar í borgarstjórninni munu taka ákvörðun um það en eins og sakir…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Gosbrunnurinn sem síðast skreytti Reykjavíkurtjörn er ekki lengur nothæfur eftir alllanga þjónustu en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort fjárfest verði í öðrum. Kjörnir fulltrúar í borgarstjórninni munu taka ákvörðun um það en eins og sakir standa er ósennilegt að gosbrunnur verði í tjörninni í sumar.

Síðast var gosbrunnur í tjörninni síðasta sumar en Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg, tjáði Morgunblaðinu að tjörnin væri orðin grunn og gosbrunnurinn hefði tekið inn á sig drullu með vatninu og fyllst. Ekki hafi borgað sig að laga gosbrunninn sem hafði verið í notkun í sautján ár.

„Ekki er til gosbrunnur til að setja niður og ekki hefur verið ákveðið að kaupa nýjan. Sé vilji fyrir því þá þyrftum við að finna gosbrunn sem hentar betur við þessar aðstæður. Annaðhvort gosbrunn sem flýtur nægilega hátt til þess að hann taki ekki leðju úr botninum inn á sig eða byggja í kringum nýjan gosbrunn,“ segir Þórólfur.

Gosbrunnur var fyrst settur niður í syðri hluta tjarnarinnar í júlí 1976 en borgin fékk hann að gjöf frá sendiherra Bandaríkjanna. Dugði hann til ársins 2003 en þá var orðið erfitt að fá í hann varahluti. Auk þess hafði gosbrunnurinn verið nokkuð umdeildur. Var hann kraftmikill og sprautaði hátt, við takmarkaða hrifningu nærstaddra þegar vind hreyfði.

Ekki var gosbrunnur í tjörninni sumarið 2004 en sá gosbrunnur sem nú er verið að taka úr notkun kom til sögunnar sumarið 2005.