— Unsplash/Aiva Apsite
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Icelandair býður upp á beint flug þrisvar í viku til Billund á ferðatímabilinu 31. mars til 27. október 2023. Þessi litli bær, miðsvæðis á Suður-Jótlandi í Danmörku, er kjörinn áfangastaður fyrir fjölskyldur sem vilja njóta góðrar samveru og skapa skemmtilegar og ógleymanlegar minningar

Icelandair býður upp á beint flug þrisvar í viku til Billund á ferðatímabilinu 31. mars til 27. október 2023. Þessi litli bær, miðsvæðis á Suður-Jótlandi í Danmörku, er kjörinn áfangastaður fyrir fjölskyldur sem vilja njóta góðrar samveru og skapa skemmtilegar og ógleymanlegar minningar. Icelandair býður upp á ódýrt og hentugt flug fyrir barnafjölskyldur til Billund á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum fram á haust.

Billund höfðar vel til barnafjölskyldna sem kjósa að ferðast fjarri stórborgarlífi og mikilli mannmergð en umkringd fjölskylduvænni afþreyingu á sama tíma. Það er nóg við að vera fyrir unga sem aldna í Billund. Þangað ættu allar barnafjölskyldur að leggja leið sína að minnsta kosti einu sinni yfir ævina og upplifa nýja hlið á Danmörku.

Margir tengja legókubba við danska smábæinn Billund en þeir voru einmitt fyrst fundnir upp þar fyrir rúmum 90 árum. Síðan þá hefur vörumerkið Legó verið með höfuðstöðvar sínar í Billund og sett svip á bæjarlandslagið og ímynd bæjarins.

Hið litríka Lególand

Skemmtigarðurinn Lególand er eitt helsta aðdráttaraflið í Billund og aðalviðkomustaður allra sem ferðast þangað. Í Lególandi rætast draumar hvers barns og ekki laust við að þeir fullorðnu finni sitt barnslega eðli við það eitt að ganga þar um. Þar er allt byggt úr litlum plastkubbum frá Legó, einu vinsælasta vörumerki allra tíma. Það er nánast hægt að fullyrða að allir þekki Legó og hafi einhvern tímann á ævinni handfjatlað legókubba. Legókubbar hafa um áratugaskeið verið með vinsælustu leikföngum á meðal barna en þó eru þeir ekki síður vinsælir á meðal fullorðinna, sem geta vel gleymt sér um stund á meðan þeir byggja úr þeim.

Mikil litadýrð og sjónarspil er að vera innan um allar legóbyggingarnar sem prýða Lególand. Það er líkt og að vera kominn inn í draumaleikfangaveröld en ótrúlegt er að sjá litla marga legókubba verða að fullvöxnum fígúrum og heilu og hálfu húsunum, skipunum og bílunum.

Í Lególandi er fjöldinn allur af skemmtilegum leiktækjum ætluðum börnum á öllum aldri. Leiktækin framkalla svo sannarlega kitl í magann og bros á vör og því ekki ósennilegt að börnin vilji fara oftar en einu sinni í hvert tæki. Upplifðu Lególand í gegnum börnin og fylltu minningabankann af ógleymanlegum minningum.

Börnin í forgrunni í Billund

Í Billund snýst allt um börnin og að þau séu hamingjusöm, enda eiga margir sínar allra bestu minningar úr barnæskunni þaðan. Lególand er ekki eina fjörið sem Billund býður upp á heldur er Lalandia stór afþreyingarmiðstöð sem barnafjölskyldur ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Lalandia er skammt frá Lególandi. Þar er að finna innandyravatnaveröld, mínígolfvöll og ýmis skemmtileg leiksvæði þar sem ungir jafnt sem aldnir geta leikið lausum hala og skemmt sér saman.

Veitingastaðirnir í Billund setja börnin í fyrsta sæti og eru réttir matseðlanna mjög barnvænir og bragðgóðir. Þar er mikið um barnvæn hlaðborð og skyndibita sem börn eru sólgin í, líkt og pítsur, franskar, ís og allt það sem mun renna ljúft ofan í maga barnanna.

Garnirnar á þeim fullorðnu þurfa alls ekki að gaula mjög hátt því dönsku réttirnir eru líka í hávegum hafðir á veitingastöðunum í Billund. Vel útilátið smurbrauð að dönskum sið svíkur til dæmis engan, hvað þá danska sætabrauðið eða pylsurnar, að ógleymdum fiskréttunum.

Bíltúr um nærliggjandi sveitir

Billund er kjörinn útgangspunktur fyrir ferðalög um Jótland sem hægt er að fara á heilum degi eða hluta úr honum. Einfalt er að taka bíl á leigu og heimsækja nágrannabyggðir strandanna á milli og gera sér glaðan dag.

Í stuttri akstursfjarlægð frá Billund er margt að sjá. Mikið er af fallegum sumardvalarstöðum og litlum krúttlegum eyjum í námunda við hinn vel varðveitta bæ Ribe. Ribe er elsti bær Danmerkur og býr yfir stórfenglegum sjarma.

Ferð til Árósa, næststærstu borgar Danmerkur, tekur rúma klukkustund frá Billund. Þar færist meira líf yfir og aukinn stórborgarbragur gerir vart við sig. Fjölmörg skemmtileg söfn er hægt að skoða í Árósum og mikla list má sjá í námunda við gamla bæinn. Margir Michelin-stjörnuveitingastaðir eru í miðbæ Árósa þar sem alþjóðlegir réttir eru bornir fram.

Billund

Fólksfjöldi: 6.742 (2022)

Stærð: 536,5 km²

Gjaldmiðill: Dönsk króna

Samgöngur: Flugvöllurinn í Billund, Billund Lufthavn/Billund Airport (BLL), er rétt utan við bæinn og steinsnar frá Legoland. Frá flugvellinum ganga fastar áætlunarferðir með rútum til fjölmargra staða í Danmörku, nær og fjær, og flugvallarrúta er með reglulegar ferðir í bæinn.

Ferðatímabil:
31. mars – 27. október 2023.