Guðmundur Ármann Sigurjónsson
Guðmundur Ármann Sigurjónsson
Er bara í lagi að fleygja einum mikilvægum þætti sjónmenningar á Íslandi út um gluggann?

Guðmundur Ármann Sigurjónsson

Þegar Listaháskóli Íslands var stofnaður árið 1999/2000 voru nokkrar deildir lagðar niður sem höfðu verið sérstakar deildir í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Deildir sem nemendur voru skráðir í og útskrifuðust úr eftir þriggja ára nám með BA-próf. Vefnaður, leirlist og grafíkdeildir, allt mjög mikilvægar stoðir sjónlista þjóðarinnar.

Hvernig er staðan í dag, tuttugu og þremur árum síðar?

Leirlistin er kennd reglulega við myndlistarskólana í Reykjavík og Kópavogi á námskeiðum, eitthvað er um kennslu í grunnskólum. Ég þekki ekki stöðuna á listnámsbrautum í framhaldsskólum, nema listnámsbraut í VMA, þar er ekki áhersla á leirlist.

Vefnaður á í vök að verjast þar sem áhersla er víða meiri á fatahönnun. Hin ánægjulega undantekning er Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi – stórmerkilegt frumkvöðulsstarf sem unnið er þar. Á listnámsbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri, VMA, er vel tækjum búin textíldeild með fjölda vefstóla.

Margt bendir til þess að illa sé komið fyrir menntun í grafíklistinni, hvergi er hægt að mennta sig til BA-gráðu í þeirri grein myndlistar. Í grunnskólum eru nokkrir myndmenntakennarar sem gefa nemendum kost á að kynnast þessari grein við misgóðan búnað. Þær listnámsbrautir í framhaldsskólum eru til þar sem boðið er upp á grafík sem valgrein, og get ég nefnt listnámsbraut VMA. Þar gefst nemendum kostur á að velja sér grafíkáfanga aðra hverja önn.

Um þessar mundir er í gangi á Norðurlöndunum undirskriftasöfnun meðal fagfélaga í grafík, um áskorun til menntamálayfirvalda og listaskóla að gefa nemendum kost á námi til MA-gráðu í grafík og teikningu. Þar segir meðal annars: Síðustu 25 árin hefur menntun í grafíklist og þrykkþekkingu við háskólana í Skandinavíu dregist verulega saman og á nú á hættu að hverfa úr norrænu og evrópsku listnámi. Í þessari áskorun, sem skipulögð er af Nordic Graphic Network, er undirstrikað mikilvægi frekari menntunar til MA-gráðu og að grafík og teikning hljóti veglegan sess í myndlistarmenntun.

Hér heyrast fáar raddir um reglulegt nám í listgrafík, ekki einu sinni til BA-gráðu, hvað þá til MA eða nokkurs skapaðs hlutar annars.

Ég bara spyr. Hvar er metnaðurinn? Er bara í lagi að fleygja einum mikilvægum þætti sjónmenningar á Íslandi út um gluggann? Er ásættanlegt að hunsa verklega þætti listnáms í ofuráherslu á að hugmyndin sé það sem öllu skiptir í myndlistarnámi og að teiknikunnátta og handverk hafi ekkert vægi í háskólanámi? Hér er mjög varhugaverð stefna sem ræður för. Mikilvægast er að þessir tveir þættir listnáms séu ekki skildir að.

Eitt er að hafa áhyggjur af þróuninni og annað að sjá að það sé bara yfirleitt ekki nein regluleg kennsla í mikilvægum greinum sjónlista hér á landi. Að það sé bara í lagi að ekki sé nein regluleg kennsla í þessum mikilvægu greinum sjónlista; grafík, teikningu, vefnaði og leirlist, nema í námskeiðsformi.

Í myndlistarskólunum í Reykjavík og Kópavogi er sem betur fer áhersla á verklega þætti í myndlist, einnig á nokkrum listnámsbrautum í framhaldsskólum er áhersla á verklega þætti og teikningu. Hér er eitt elsta myndlistarfélagið starfandi, félagið Íslensk grafík er varð 50 ára 2019 – öflugt félag þar sem merkir listamenn berjast af hugsjón fyrir grafíkinni. Vandinn er samt sá að afar hæg endurnýjun er meðal félagsmanna, helst eru það nemendur sem snúa heim eftir nám í erlendum listaháskólum.

Ég skora á Listaháskólann að taka upp reglulegt nám, til að byrja með til BA-gráðu við stofnunina, og gera verklega þætti listnáms, vefnað, leirlist og grafík, að metnaðarfullu námi. Íslenskir nemendur þurfa að hafa möguleika hér heima til BA-menntunar til að geta hafið framhaldsnám við erlenda listaháskóla þar sem þeir geta bætt við sig námi til MA-gráðu í listgrafík. Til þess þarf að hefja hér reglulegt nám í grafíklistinni.

Listin er 5% meðfæddur hæfileiki en 95% vinna eins og margir merkir listamenn hafa látið hafa eftir sér.

Höfundur er myndlistarmaður og myndlistarkennari á eftirlaunum.

Höf.: Guðmundur Ármann Sigurjónsson