Dýpt Reynsla höfundar „af lífi í tveimur löndum [...] litar alla frásögnina og á mikilvægan þátt í dýpt hennar.“
Dýpt Reynsla höfundar „af lífi í tveimur löndum [...] litar alla frásögnina og á mikilvægan þátt í dýpt hennar.“ — Ljósmynd/Florence Montmare
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölskyldusaga Mæður og synir ★★★★★ Eftir Theodor Kallifatides. Hallur Páll Jónsson þýddi. Dimma, 2023. Kilja, 239 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Í fyrra kom út á íslensku bókin Nýtt land utan við gluggann minn eftir sænska rithöfundinn Theodor Kallifatides. Mér áskotnaðist þá eintak en bókin sat ólesin á náttborðinu gegnum veturinn. Og lokins þegar ég byrjaði á henni á dögunum varð ég hálf miður mín yfir því að hafa látið jafn fágæta gott og vandað verk sitja afskipt og ólesið svo lengi. Því það er frábær bók, djúp og hugvekjandi. Kallifatides fæddist í Grikklandi árið 1938 en flutti til Svíþjóðar 26 ára gamall og náði fljótt frábærum tökum á sænskunni. Fyrsta ljóðabók hans á sænsku kom út árið 1969 og síðan hefur hann sent frá sér um 40 bækur, kennt við Stokkhólmsháskóla og ritstýrt einu helsta bókmenntatímariti Svía. Kallifatides er í dag einn allra virtasti höfundur Svíþjóðar og bækurnar afar ólíkar – ljóð, skáldsögur, ferðasögur, glæpasögur og svo þessar hreint makalausu og heillandi minningabækur.

Nýtt land utan við gluggann minn skrifaði Kallifatides þegar hann nálgaðist sjötugt og fjallar þar um bakgrunn sinn í Grikklandi og stöðu sína sem listamaður í nýju landi, með sinni sænsku fjölskyldu, en með rætur í öðru landi. Það er stutt bók, ekki nema 140 síður, en sögumaðurinn fjallar listavel og með einlægum hætti um minningar og tungumál, ástina og áskoranirnar sem hafa mætt honum í lífinu í nýju landi og nýju tungumái þar sem hann segist hafa tekið framandleikann í sátt. „Það var vegna fæðingar sonar míns,“ skrifar hann. „Þremur árum síðar eignuðumst við dóttur, þá gerðist það sama. Framandleikinn hvarf. Ég hafði skotið rótum. Venjulega eru það foreldrarnir sem eru rætur barnsins. En í mínu tilfelli var það öfugt. Börnin mín gáfu mér rætur.

Það er ekki lítil byrði fyrir þau. Ég tek eftir því að þau óttast að gera mig vonsvikinn og það gerir líf þeirra stundum dálítið erfitt.

En hvað get ég gert? Án þeirra væri ég eins og rótlaus runni.“ (127)

Nú er eins konar framhald komið strax á íslensku, Mæður og synir, og fjallar um vikulanga heimsókn tæplega sjötugs sonarins, sem búið hefur í Svíþjóð í 42 ár, til móður sinnar í Aþenu en hún er á tíræðisaldri og býr enn í gömlu íbúðinni sinni. Sögumaður býður lesandanum að fylgjast með samskiptum og samtölum mæðginanna gegnum vikuna en áður útskýrir hann í kafla sem nefnist „Útgangspunkturinn“ hvað vaki fyrir honum. „Við erum bæði orðin gömul og nú má ekki dragast lengur að gera það sem ég hef lengi ætlað mér: að skrifa um hana.

Ég hafði ekki viljað skrifa um hana meðan hún væri á lífi. En nú er eins og ég eigi ekkert val. Dauðinn nálgast okkur bæði. Við vitum ekki hvort hann mun sækja mig eða hana fyrst.“

Þessi ákvörðun, að láta skrifin ekki dragast, vísar til tileinkunarorða fyrri bókarinnar, sem höfð eru eftir Simone de Beauvoir: Kannski er það of snemmt, en á morgun verður það örugglega of seint.

Kallifatides kveðst þegar hafa skrifað tvær bækur um föður sinn, sem hafi verið erfitt en þó ekki mjög enda var faðir hans þá látinn, en móðirin lifir. Hann tekur minnisbók með sér til Aþenu og spyr hana út í líf þeirra í fjölskyldunni. Hann ætlar sér líka að fylgjast með henni og draga upp af henni mynd í bók. Og veit að þetta verður erfitt og krefjandi viðfangsefni og vandamálið meðal annars þetta: „Hvernig á ég að halda aftur af skrifpúkanum sem vill yfirtaka verkið. Sem vill sauma út, blekkja, fegra eða óprýða, ýkja, gera eina fjöður að mörgum hænum og úlfalda úr mýflugu?“ (9) Við fáum að fylgjast með þessu heillandi samtali, þessum dansi höfundarins/sonarins við móðurina, sem skilur vel hvað hann ætlar sér, nefnilega að skrifa um hana. Og svo er það fortíðin í frásögninni, en við upphaf ferðarinnar til Aþenu byrjar sögumaður að þýða á sænsku fyrir afkomendur sína frásögn sem faðir hans, þá 82 ára gamall, skrifaði fyrir son sinn rithöfundinn. Og þeirri sögu, af uppvexti, fyrrverandi hjónabandi, fangelsun og pyntingum á tíma herforingjastjórnarinnar, er fléttað meistaralega inn í frásögnina af vikunni sem þau mæðgin eyða saman í Aþenu. Við fáum að fylgjast með því hvað örlagasaga föðurins hefur djúp áhrif á sögumanninn, frásögn sem var ætluð honum en hann vill að sínir afkomendur þekki líka: „Skrifin eru vitnisburður um aðra tíma. Þau eru ekki saga, skáldskapur eða ritgerð. Þau eru einfaldlega líf langafa barnabarnanna minna,“ (12) skrifar höfundurinn og sú lýsing á jafnframt vel við þessa óvenjulegu bók sem er í senn einföld og margbrotin, er ekki skáldskapur eða ritgerð heldur undursönn lýsing á lífi og dauða, þar sem sögumaðurinn er að uppgötva nýjan sannleik um bakgrunn sinn og tilveru foreldranna.

Á þessari viku í Aþenu hittir sögumaður eldri bróður og fjölskyldu hans, líka gamla vini sem eru stjörnur í menningarlífi Grikklands, en fyrst og fremst er hann gestur heima hjá mömmu sinni, litli strákurinn snúinn aftur, og hún snýst í kringum hann og dekrar, svo glöð að hafa endurheimt hann um stund en undir niðri er líka biturleiki yfir því að hafa misst hann í annað og fjarlægt land, sem og viss sektarkennd sonarins sem fór. Sögumaður Mæðra og sona er heillandi persóna, djúpvitur, einlæg og sönn. Hann fléttar meistaralega saman frásagnir af lífi foreldra sinna og sínu eigin, og heimsóknin kveikir ótal minningar úr æsku, eins og þá að sitja í friðsæld í eldhúsinu hjá mömmu þriggja ára gamall: „… ég finn ennþá hitann frá eldhúsinu, heyri mömmu ganga, raddir eldri bræðra minna og allt þetta ýtti undir brosið sem ég í dag, mörgum árum seinna, get séð á andliti mínu á gulnaðri ljósmynd sem afi tók.

Það er bros drengs sem hefur ekki verið kastað út í veröldina heldur er umlukinn henni. Þetta bros hvarf og kom aldrei aftur eftir að ég yfirgaf landið mitt.“ (131)

Reynsla höfundarins af lífi í tveimur löndum, og líka í tveimur tungumálum, litar alla frásögnina og á mikilvægan þátt í dýpt hennar. Og með furðu áreynslulausum hætti finnur lesandinn fyrir visku höfundarins og marglaga lestri bókmennta sem vísað er til með misaugljósum hætti. Svo er það hlýjan og væntumþykjan fyrir forfeðrunum sem og afkomendunum sem einstaklega fallega einkennir alla frásögnina.

Hallur Páll Jónsson hefur þýtt báðar þessar bækur Theodors Kallifatides og það afar vel. Stíllinn byggist á knöppum og meitluðum setningum, sem eru látlausar á yfirborðinu en málfarið þó alltaf blæbrigðaríkt og fallegt í þýðingunni.