Hanna Dís Hér innan um verkin sín í Gallerí Porti, meðal annars veggteppi, lampa og fleira.
Hanna Dís Hér innan um verkin sín í Gallerí Porti, meðal annars veggteppi, lampa og fleira.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef í minni hönnun alltaf spáð mikið í hvað er umhverfis okkur, bæði inni og úti. Hvað við setjum í kringum okkur og hvernig við búum,“ segir Hanna Dís Whitehead, en sýning hennar, Blíður ljómi, opnaði í gær í Gallerý Porti við Laugaveg

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef í minni hönnun alltaf spáð mikið í hvað er umhverfis okkur, bæði inni og úti. Hvað við setjum í kringum okkur og hvernig við búum,“ segir Hanna Dís Whitehead, en sýning hennar, Blíður ljómi, opnaði í gær í Gallerý Porti við Laugaveg. Sýningin er hluti af HönnunarMars og þar sýnir Hanna Dís nýtt safn af verkum með áherslu á tvo staðbundna efniviði sem báðir finnast innan 3 km. radíuss við vinnustofu hennar í Nesjum, Hornafirði – hafra strá og ull. Á sýningunni má sjá fleti spónlagða með handlituðum hafra stráum, þæfða ull sem staðgengil viðar í húsgögnum auk annarra tilrauna með efniviðinn.

„Ég er borgarbarn sem býr núna í sveit og fyrir vikið er hún ennþá svo sterk tilfinningin hjá mér fyrir því hvað allt er magnað í náttúrunni heima á Hornafirði,“ segir Hanna Dís sem hefur verið með annan fótinn þar fyrir austan undanfarin tuttugu ár, en fyrir nokkrum árum flutti hún þangað alfarið búferlum.

„Mig langaði alltaf að komast í sveit svo ég ákvað einn daginn að fá mér vinnu úti á landi. Ég var svo heppin að fá vinnu sem leiðsögumaður á sjálfu Jökulsárlóni, einum fallegasta stað á Íslandi. Þegar ég fór þangað til starfa þá var ég að koma í fyrsta sinn á Suðausturland og mér fannst ég vera að fara út í eyðimörk þegar ég kom á svörtu sandana. Vinnan á Jökulsárlóni var alveg geggjuð, ég var leiðsögumaður á bátum sem sigla út á lónið og á hverjum einasta degi var nýtt vinnuumhverfi, því jöklarnir eru aldrei eins, þeir eru á stöðugri hreyfingu. Þetta var allt rosalega spennandi fyrir mig borgarbarnið,“ segir Hanna Dís sem seinna kynntist manni sínum sem er frá Hornafirði.

Enn stödd í sveitarómans

Hún fór síðan í nám til Hollands og Danmerkur og kærastinn fór í nám til Reykjavíkur. „Eftir að hafa búið saman í höfuðborginni um tíma þá ákváðum við fyrir sex árum að flytja alfarið austur. Við búum í Akurnesi, sem er sveitabær þar sem tengdaforeldrar mínir auk mágs míns og konu hans, rækta kartöflur en þau eru líka með sauðfé, kornrækt og fleira. Ég er ekkert í búskapnum, en við búum í gamla bænum á jörðinni og ég fékk bæði ull og korn frá bændunum til að nota í mína listsköpun. Mig langaði með verkum mínum að endurskapa tilfinninguna sem ég finn þegar ég hjóla á vinnustofuna mína, þetta er allt svo frábært og framandi fyrir mig, lyktin, hlóðin og litirnir. Ég pæli í fuglunum sem fljúga á undan mér, tek eftir að í ár er óvenju mikið af lóum og gæsir á einhverju túni sem ég hef ekki áður séð þær á. Allt í einu kemur kannski hestur hlaupandi og ég fylgist með kindum sem verða á vegi mínum, með sína fallegu ull þar sem þær liggja í grasinu. Ullin er svo djúsí að sjá, beinlínis ljómandi. Þetta vekur yndislegar tilfinningar og mig langaði til að setja þetta umhverfi og upplifun mína í nýtt samhengi hér í rýminu í Gallerí Porti. Að vera úti á akri að sækja mér hafrastrá í geggjuðu veðri og horfa á jöklana, er ennþá ægilega klisjulega fallegt fyrir mig og ég verð fyrir sterkum áhrifum. Hvar ég bý er því stór þáttur í listsköpun minni og hönnun. Borgarbarnið ég er ennþá statt í miklum sveitarómans, sérstaklega á sumrin, en á veturna er þetta vissulega þó nokkuð öðruvísi.“

Strá endurkasta birtunni

Hanna Dís leggur heilmikið á sig við að vinna efniviðinn, hún fór með ullina í Textíllab á Blönduósi þar sem hún var kembd saman við og lituð með garnafgöngum úr teppaframleiðslu Hönnu. Í kjölfarið var ullin sett í nálaþæfingarvél og búið til litríkt, sterkt og þæft efni sem hún notaði í fjölbreytt verk. Stráin sem eru hluti hafra uppskeru síðasta árs, voru hreinsuð og þurrkuð og í kjölfarið voru þau handlituð, hvert strá klofið, flatt út og spónlagt með þeim.

„Ég skil ekki sjálf af hverju ég fór út í þetta, því ég er mjög óþolinmóð manneskja. Ég hef unnið mikið í leir, en þar er ekki hægt að vera óþolinmóður, en fyrir vikið verður þetta oft gróft, opið og lifandi hjá mér.“ Þegar Hanna Dís er spurð að því hvort strá séu ekki viðkvæm og gjörn á að brotna, segir hún þau aðeins vera brothætt ef þau séu þurr og ef þau séu brotin saman á þverveginn. „Ef maður ætlar að toga strá í sundur á langveginn, þá er það mjög sterkt, nánast ómögulegt ef maður er með bunka af strám. Þegar ég er búin að fletja út strá þá eru þau orðin að yfirborði, en ég er alveg nýbyrjuð á stráunum svo ég nota þau aðeins sem skraut í þeim hlutum sem ég hef búið til. Í Frakklandi þar sem unnið hefur verið með strá sem efnivið í hönnun frá því á sautjándu öld, þá eru útflött strá notuð til að spónleggja heilar borðplötur, hurðar og fleira. Þessi aðferð kemur upphaflega frá Asíu, en strá endurkasta svo ótrúlega fallega birtunni sem á þau fellur. Þau eru náttúrulega vatnsheld, svo það þarf ekki að bera á þau lakk og þau hafa mikinn gljáa. Ég þorði ekki að spónleggja borðplötur núna með stráum, því ég er svo mikill byrjandi, ég þarf að læra tæknina miklu betur til að komast á það stig. Mér finnst stórkostlegt að við séum með eitthvað eins og strá úti í náttúrunni sem við getum notað sem einhverskonar ljósendurkastara, það er alveg ótrúlega magnað hvernig saklaus strá endurkasta frá sér birtunni,“ segir Hanna sem ætlar að bjóða upp á strásmiðju á Hönnunarmars. „Mig langar til að deila með fólki því sem ég hef lært hingað til í að vinna með stráin, og þeim mistökum sem ég hef gert á leiðinni. Smiðjan er uppbókuð en ég verð líka með tvo viðburði í Gallerí Porti, sem heita Á vinnuborðinu, þar sem gestir geta fylgst með mér vinna með stráin.“

Óþarfi að njörva niður

Hanna segist vinna á mörkum handverks, hönnunar og listar.

„Verkin mín eru oft nytjahlutir sem eru á mörkunum, þetta eru húsgögn, vörur og verk. Á sýningunni núna er ég með lampa, hillur, skápa, kertastjaka, lítið borð, blómahillu, spegla og veggteppi. Þetta eru vissulega allt nytjahlutir, en líka skúlptúrar. Þegar ég segi hvað þetta er þá hljómar það vörulegt, en þegar fólk sér það, þá eru sumir ekki alveg vissir hvað þetta er. Mér finnst ekki þurfa að flokka verkin, þau geta verið allt í senn. Minn bakgrunnur er í listrænni vöruhönnun og þess vegna lenda verkin mín einhversstaðar inn á milli. Mér finnst óþarfi að reyna að njörva þetta niður,“ segir Hanna sem tekur líka þátt í samsýningunni Hæ/Hi Saman/Together í Ásmundarsal á HönnunarMars.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir