Skeinuhættur Ísak Andri fagnar marki sem hann lagði upp fyrir Guðmund Baldvin Nökkvason, sem fær faðmlag, í 5:4-sigri á HK í síðasta mánuði. Ísak Andri skoraði eitt mark og lagði upp önnur þrjú í leiknum.
Skeinuhættur Ísak Andri fagnar marki sem hann lagði upp fyrir Guðmund Baldvin Nökkvason, sem fær faðmlag, í 5:4-sigri á HK í síðasta mánuði. Ísak Andri skoraði eitt mark og lagði upp önnur þrjú í leiknum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hef bara vaxið. Mér fannst ég ekkert sérstakur í fyrstu tveimur leikjunum, komst lítið í boltann, en síðustu tveir leikir hafa verið skref upp á við og hafa gengið mjög vel,“ sagði Stjörnumaðurinn Ísak Andri Sigurgeirsson, besti…

Bestur

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Ég hef bara vaxið. Mér fannst ég ekkert sérstakur í fyrstu tveimur leikjunum, komst lítið í boltann, en síðustu tveir leikir hafa verið skref upp á við og hafa gengið mjög vel,“ sagði Stjörnumaðurinn Ísak Andri Sigurgeirsson, besti leikmaður aprílmánaðar í Bestu deildinni í knattspyrnu samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, í samtali við blaðið.

Þrátt fyrir að Ísak Andra hafi gengið vel persónulega hefur Stjarnan farið rólega af stað á tímabilinu og aðeins unnið einn leik og tapað þremur. Hvert stefnir liðið á tímabilinu?

„Við settum ekki neitt sæti á töflunni sem markmið. Við ætluðum bara að bæta ákveðnum hlutum inn í okkar leik. Það hefur alveg gengið brösuglega til að byrja með en við höfum verið að skora mörk upp á síðkastið. Við þurfum að læsa fyrir í varnarleiknum og þá held ég að við séum í toppmálum,“ sagði Ísak Andri.

Betra að gefa það ekki út

Spurður út í eigin markmið á tímabilinu sagði hann:

„Ég er með markmið hvað frammistöðu varðar. Svo er ég með töluleg markmið bara fyrir sjálfan mig. Markmið mitt er bara að mæta í hvern leik og gera mitt besta.

Auðvitað er það alltaf plús ef maður nær að skora eða leggja upp. Ég er búinn að ná að gera það í síðustu tveimur leikjum og ætla að byggja ofan á það og halda áfram.“

Ísak Andri er þögull sem gröfin þegar kemur að persónulegum markmiðum hans hvað fjölda marka og stoðsendinga varðar.

„Ég ætla að halda því bara fyrir sjálfan mig. Mér finnst þægilegra að hafa markmið sem ég einn veit af. Mér finnst betra að vera ekkert að gefa það út, þá held ég fullri einbeitingu á þessum markmiðum.“

Leyndarmálið á bak við fjölda ungra og öflugra leikmanna

Ísak Andri er aðeins 19 ára gamall en gegndi stóru hlutverki hjá Stjörnunni á síðasta tímabili og fer með enn stærra hlutverk í ár. Hann er einn fjölmargra ungra leikmanna liðsins sem hafa gegnt mikilvægu hlutverki undanfarin ár. Hvert er leyndarmálið á bak við þennan mikla fjölda öflugra ungra leikmanna hjá Stjörnunni?

„Ég myndi segja mjög góð þjálfun og að það var haldið mjög vel utan um okkur í yngri flokkunum. Við settum háan standard og vorum allir mjög góðir í yngri flokkunum. Við erum nokkurn veginn búnir að fara í gegnum alla yngri flokkana saman.

Við vorum geggjaðir í 3. og 4. flokki og ég held að þjálfararnir í meistaraflokki hafi tekið eftir því og þess vegna tekið okkur alla upp. Menn stóðu sig vel þegar þeir voru mættir í meistaraflokk og fengu tækifærið. Þeir hafa flestir nýtt það mjög vel,“ útskýrði Ísak Andri.

Hann sagði ungu leikmennina hjálpa hver öðrum.

„Það er mjög hjálplegt að vera með vini sína sem maður hefur spilað með frá því að maður var tíu ára. Það hjálpar mjög mikið og þetta eru orðnir bestu vinir manns. Þetta er mjög skemmtilegt.“

Sem stendur einbeitir Ísak sér alfarið að fótboltanum en er nýlega útskrifaður úr framhaldsskóla og ætlar að þjálfa hjá yngri flokkum Stjörnunnar í sumar.

Hyggur á nám í viðskiptum

„Ég er að fara að vinna við þjálfun hjá félaginu í sumar. Ég var að klára stúdentspróf í FG, þar sem er þriggja anna kerfi, í febrúar. Ég er í smá pásu þar til að sumarið byrjar og með fulla einbeitingu á boltanum.“

Í náinni framtíð hyggur hann svo á frekara nám.

„Mér finnst ólíklegt að ég fari í nám eftir sumarið en eftir næsta sumar myndi ég halda. Ég hef mikinn áhuga á viðskiptum. Pabbi minn er í þeim bransa og ég hef mjög mikinn áhuga á því,“ sagði Ísak Andri að lokum í samtali við Morgunblaðið.